Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 56

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 56
Veðrun okkar sem svipt vorum virðingunni Texti: Margrét Pála Ólafsdóttir, hún, 63 ára Konan mín er snillingur enda hefur hún þraukað með mér í 30 ár. Eitt af því fjölmarga sem hún hefur fram yfir mig er hæfni hennar á samfélagsmiðlum sem ég gleymi svo vikum og mánuðum skiptir. Svo er hún í flokki hinna prúðustu netverja; leggur eingöngu gott til mála og fylgist grannt með fregnum bæði hérlendis sem erlendis sem og í alheimsumræðunni á helstu áhugasviðum. Á meðan ligg ég í leti yfir sögulegum heimildum og þjóðlegum fróðleik á 1,75 hlustunarhraða og spila kúluspil til að halda athyglinni við efnið. Á dögunum reif hún mig upp úr podkastinu „American Innovation“ þar sem Edison var að plotta hugmyndaaftöku á háspennuflutningi rafmagns à la Tesla með notkun mögulegs rafmagnsstóls til slátrunar á föngum á dauðadeildum. Auðvitað heyrði ég ekkert enda með hávaðaafþakkandi eyrnaplögg kyrfilega á sínum stað en blind var ég ekki. Með semingi fjarlægði ég plöggin, leit upp og spurði hvað væri eiginlega um að vera. „Hvað, heyrðirðu ekki hvað ég var að segja? Hvort þú hefðir lesið um weathering í sambandi við jaðarhópa eins og hinsegin fólk? Fólk sem lifir með fordómum og misrétti árum og áratugum saman og hreinlega missir heilsuna vegna fordóma? Fólk sem þróar með sér alls kyns kvilla og deyr talsvert yngra en gengur og gerist? Það er þess vegna sem svart fólk í Bandaríkjunum hefur farið miklu verr út úr Covid heldur en aðrir, meira að segja þar sem heilbrigðisþjónustan hefur reynst sambærileg fyrir alla.“ Ja, það má nú drepa með mörgu öðru en rafmagnsstólum, hugsaði ég og svaraði konu minni: „Já, veðrun – það er frábært hugtak . Ætli við séum ekki ansi mörg harla veðruð í gamla gay-samfélaginu okkar.“ Fyrir hugskotsjónum mínum birtist myndasýning af sveitinni minni á hálendinu með vatnsrofi í Jökulsárgljúfrum og frostsprungnu stórgrýti og auðnarlegum melum þar sem rofabörðin sýna álagið á veikburða jarðvegi með jökulleir og öskulögum. Meira að segja hríslurnar í jarðræktargirðingu Ungmennafélags Fjöllunga bera veðruninni merki og eru ekki nema 30-50 sentimetrar á hæð eftir nær sjötíu ára vöxt. Veðrun – ég skildi nákvæmlega hvað við var átt. Ég kom úr felum árið 1984 þegar ég uppgötvaði loks minn eigin sannleika um tilfinningar og ást. Þessi sannleikur gerði mig frjálsa og bjargaði lífi mínu en auðvitað vissi ég að gjaldið yrði hátt. Þar á meðal vissi ég það sem allir vissu; að lesbíur og hommar væru ekki guði og kirkju þóknanleg. En það varð að hafa það og ég skráði mig úr þjóðkirkjunni sama dag og ég skráði mig með sama heimilisfang og þáverandi kærastan mín. Eins hafði ég grun um að lesbíur væru einmana og þunglyndar og að rétt eins og hommarnir myndu þær að lokum enda sem fársjúkir alkóhólistar með sjálfsvígshugsanir. Vissulega mjög dapurlegt en hljómaði samt einhvern veginn betur en áframhaldandi líf í frysti án nokkurs skilnings á sjálfri mér. Verst fannst mér þó staðan fyrir dóttur mína sem ég gæti aldrei sagt sannleikann og yrði móðurlaus allt of snemma. Svo lá í loftinu að lesbía ætti ekki að vera í miklum samskiptum við börn og alls ekki annarra manna börn – og ég með þriggja ára gamalt embættispróf á barnasviði. Hreint ekki björt framtíð en ég afneitaði þessum sársauka eftir föngum. Lék hinn sívinsæla þjóðarleik, „sem ekkert sé“ og hélt áfram veginn. Útskúfun guðs og manna var ekki algjör – alla vega ekki allra manna og kvenna. Höfnun dóttur minnar og fjölskyldu reyndist ekki rétt fremur en þunglyndi og sjálfsvíg enda sit ég nú, sprelllifandi amman, að skrifa þessa grein nær fjörutíu árum síðar. Vissulega endaði ég með að medikera mig sjálfa með ótæpilegu áfengi en það þýddi bara lukkulega meðferð fyrir tuttugu árum. En ég lifði af. Og hvað skyldi allt þetta hafa þýtt, svona eftir á að hyggja? Skyldi ég hafa veðrast þegar leigusalar hentu mér og konunni minni út úr íbúð – tvisvar þegar uppgötvaðist að við vorum par? Eða þá þegar okkur var hent út af veitingastað fyrir að haldast í hendur eitt augnablik? Hvernig var stormurinn þegar ég barðist fyrir því að halda vinnunni minni þegar búið var að banna mér að vinna með börnum? Og hvað með að halda haus til að réttlæta tilfinningar mínar fyrir fólki og fjölmiðlum þar sem fjölmargir fengu að lemja á mér og öðrum með orðum og biblíutextum? Var það veðrun að vita að ekkert þýddi að kæra þá sem öskruðu ókvæðisorð á eftir mér eða réðust að mér til að „laga“ mig – það eina sem ég þyrfti væri almennilegur 56

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.