Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Page 58
Að eldast hinsegin –
vangaveltur tveggja
hjúkrunarfræðinga
Fyrir nokkrum vikum var haft samband
við okkur af stjórn Hinsegin daga þar sem
við erum hjúkrunarfræðingar og höfum
reynslu af því að vinna með öldruðum,
til að ræða málefni eldri hinsegin
einstaklinga. Úr varð að við munum stýra
viðburði á Hinsegin dögum sem mun
bera yfirskriftina „Að eldast hinsegin“ og
við hvetjum sem flest til að mæta – enda
eldumst við vonandi flest.
Eldri borgarar eru þau sem náð hafa 67
ára aldri en meðalaldur hefur hækkað
umtalsvert og er nú yfir 80 ár. Við erum
því gömul lengur en nokkru sinni áður
og því fylgir aukin þörf fyrir ýmiss konar
heilbrigðisþjónustu – og skemmtun!
Við fórum á stúfana og leituðum bæði
eftir rannsóknum og sóttum í reynslu
annarra í öldrunarþjónustu. Margar
rannsóknir hafa verið gerðar um þarfir
aldraðra bæði hér á landi og erlendis,
en að okkur vitandi hafa aðeins verið
gerðar erlendar rannsóknir sem taka
mið af þörfum hinsegin aldraðra en
engar íslenskar. Þessar rannsóknir sýndu
meðal annars að aldraðir hinsegin
einstaklingar eru hræddir við að nýta sér
heilbrigðisþjónustu af ótta við fordóma
frá þeim sem þeir leita til t.a.m. lækna
og heimahjúkrunar. Þessar rannsóknir
komu líka inn á að sú kynslóð LGBTQ+
sem er nú að komast á aldur á síður börn
en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra
og er líklegri til að hafa misst tengsl við
fjölskyldur sínar. Einnig eiga þau gjarnan
flókna áfallasögu sem er mjög ólíkt þeim
sem ekki eru hinsegin en á sama aldri.
Erlendar rannsóknir sýna að aldraðir
hinsegin einstaklingar óttast að þurfa að
fara aftur „inn í skápinn“ þegar þeir nýta
sér úrræði eins og heimahjúkrun eða flytji
á hjúkrunarheimili vegna hræðslu við
fordóma og útskúfun.
Víða erlendis eru til hjúkrunarrými
eða búsetuúrræði sem eru sérstaklega
hugsuð fyrir hinsegin fólk þar sem þau
geta lifað í ellinni, laus við ótta.
Okkur langaði til að heyra hver
reynsla þeirra sem unnið hafa á
hjúkrunarheimilum hér á landi væri og
bera saman við þá reynslu sem við höfum
af okkar starfi innan heilbrigðiskerfisins
síðustu 15-20 ár. Við sendum því nokkrar
spurningar á hjúkrunarfræðinga,
sjúkraliða og almenna starfsmenn sem
allir áttu það sameiginlegt að vinna eða
hafa unnið á hjúkrunarheimilum og voru
svörin vægast sagt mjög áhugaverð.
Meirihlutinn taldi sig aldrei hafa hjúkrað
hinsegin einstaklingi en viðurkenndi að
hafa grunað að nokkrir íbúar hafi verið
hinsegin án þess að það hafi verið rætt.
Allir voru sammála um að
hinsegin umræðan væri meiri og
á öllum hjúkrunarheimilunum var
hinsegin starfsfólk. Innan nokkurra
hjúkrunarheimila er hefð að flagga
regnbogafánanum á Reykjavík Pride
og ber það trúlega merki um opinn
hug stjórnenda. Nokkrir töluðu þó um
að enn bæri á fordómum hjá einstaka
íbúum heimilanna. Það sem einnig er
áhugavert er að á síðustu 12 árum hafa
aðeins fimm umsóknir borist til Færni- og
heilsumatsnefndar þar sem tekið er fram
að um hinsegin einstakling sé að ræða.
Hver eru næstu skref?
Það er verulega mikilvægt að þessi
umræða eigi sér stað og þarfir hinsegin
fólks á Íslandi séu skoðaðar sérstaklega.
Það þarf að skoða hvort heimahjúkrun
þessa hóps þurfi að einhverju leyti að
vera frábrugðin heimahjúkrun annarra og
hvernig þá. Það er líka þörf á því að skoða
hvort ótti hinsegin fólks við framkomu
starfsfólks sé sambærilegur því sem sjá
má í erlendum rannsóknum.
En þá vakna ýmsar spurningar.
Er raunhæft að vera með sér
hjúkrunarheimili bara fyrir LGBTQ+
einstaklinga? Hvar ætti það
hjúkrunarheimili að vera? Hver
væru inntökuskilyrðin? Væri nóg að
hjúkrunarheimili myndu „gefa það út“ að
vera LGBTQ+ friendly? Hverjar eru þarfir
þessa hóps?
Þann 20. ágúst næstkomandi verður
efnt til heilbrigðisþings þar sem málefni
aldraðra eru til umræðu. Einnig er til
umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda
stefnumörkun í öldrunarþjónustu
og er það opið til 1. september. Það
væri ósk okkar að hægt verði að
nota þær niðurstöður sem fást af
umræðufundinum „Að eldast hinsegin“
til að senda inn ábendingar og þannig
hafa áhrif.
Sjáumst þar!
Sandra Ósk Eysteinsdóttir, hún, 42 ára
Selma Kristín Erlendsdóttir, hún, 44 ára
58