Morgunblaðið - 14.10.2021, Page 62
62 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. OKTÓBER 2021
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
„Grunnkennd listamannsins er for-
vitni. Forvitni um allt það sem við-
kemur lífinu, ekki síst þegar það
horfist í augu við dauðann, yfir
landamærin. Það er auðvitað magn-
að móment. Ég segi nú stundum að
þegar höfundurinn skrifar þá á hann
enga foreldra eða ættingja, enga ná-
komna. Og þarna sat ég við hlið föð-
ur míns og sá hann sjá sjálf endalok-
in. Þá kviknaði þessi löngun til að tjá
þá sýn, þegar lífið horfist í augu við
ljósið, myrkrið eða eilífðina, hvað
sem við köllum þetta. Ég sá hin
deyjandi augu föður míns fyllast
angist, undrun og lotningu, allt í
senn. Þetta var of mikil áskorun til
að láta í friði, þetta leitaði stöðugt á
mig, í marga mánuði á eftir. Um leið
spurði venjulegi borgarinn innra
með mér hvort þetta megi. Hvort
þetta sé tilhlýðilegt. Það togaðist á í
mér – en listamannshlutinn af mér
stökk á verkið, miskunnarlaus.“
Hallgrímur Helgason, mynd-
listarmaður og rithöfundur, er að
tala um myndefni nýrra verka hans í
sýningu í safnaðarheimili Neskirkju.
Sýninguna kallar hann „Það þarf að
kenna fólki að deyja“ og á henni eru
meðal annars myndir af föður Hall-
gríms, Helga Hallgrímssyni, brúar-
verkfræðingi og fyrrum vegamála-
stjóra, á dánarstundinni en hann lést
8. október í fyrra. Heiti sýning-
arinnar er sótt í setningu sem Helgi
sagði nokkrum sinnum á dánarbeð-
inum. Þá sýnir Hallgrímur einnig
„tilgátuportrett“ af Dauðanum – og
aðra af föður sínum í hlutverki
Dauðans. Verkin eru sum hver æði
grótesk og tjáningarrík, í þeim stíl
sem Hallgrímur er þekktur fyrir, en
eitt sker sig úr, stórt raunsæislegt
og afar áhrifaríkt verk sem sýnir
Helga daginn áður en hann lést.
Í texta sem fylgir sýningunni úr
hlaði segir Hallgrímur að það hafi
verið stór reynsla að fá að sitja hjá
föður sínum á líknardeild Landspít-
alans í banalegunni. Og hann út-
skýrir þar þörfina fyrir að mála
verkin: „Allra síðustu dagana, þegar
slokknað hafði á samræðum, lá
pabbi og starði gapandi til lofts, svo
magnþrunginn á svip að manni
fannst hann sjá upp í sjálfan him-
inseldinn. Andlitið lýsti í senn ótta
og undrun, lotningarfullri hrifningu
gagnvart ráðgátunni miklu. Loka-
svipur pabba fylgdi mér næstu mán-
uðina og á pappírinn og strigann
flutu fram endalaus andlit sem áttu
sitt hinsta andvarp. Ég gat nánast
ekki málað neitt annað en deyjandi
sálir, angist á líknardeild, krabba-
meinslestina eða tilgátuportrett af
nárakkanum. Dauðinn hafði náð
heljartökum á mér. Að lokum fann
ég mig nauðbeygðan til að ganga á
hólm við sjálft tilefnið og mála hrein-
lega pabba á dánarbeðinum, eins og
ég sá hann daginn áður en hann dó.“
Stellingin þegar fólk á ekki orð
Þegar við stöndum frammi fyrir
veggnum á sýningunni þar sem
Hallgrímur hefur raðað saman tutt-
ugu og fjórum myndum sem sýna
dánarstund, segir hann þetta hafa
leitað sterkt á sig eftir andlát föður
síns.
„Það var þessi stelling sem hann
var í síðustu dagana, starði bara
gapandi upp í himininn. Stellingin
þegar fólk á ekki orð.“ Hallgrímur
þagnar, bætir svo við: „Það er visst
óp líka í þessu. Munch.
Ég byrjaði á þessum myndum
þarna í september og október í
fyrra,“ segir Hallgrímur og bendir á
sex smærri verk sem hanga saman.
„Þessar teikningar komu eiginlega
ósjálfrátt þegar ég kom aftur á
vinnustofuna eftir heimsókn á
líknardeildina. Ég vann þær hratt
með akrýlpennum, þær voru ein-
hvers konar viðbragð. Eina mynd-
ina, þessa með upphafsstöfum
pabba, gerði ég tveimur dögum áður
en hann dó. Þá var hann í raun far-
inn og ég vann hana hálfgrátandi –
en það var góð útrás.
Á nýju ári fór ég svo ég í þessa
stóru seríu, The Last Breath –
Dánarstundina eða Hinsta and-
varpið, og gerði það samhliða skrif-
unum. Ég leyfði mér að gera eina
mynd á dag, í hádegispásunni.
Kannski var þetta mín leið til að við-
halda tengslunum við pabba, fram-
lengja banaleguna hans. En við átt-
um alltaf gott samband þótt við
værum ólíkir. Hann var einstakur
maður og ég öfundaði hann alltaf af
þessu austfirska jafnaðargeði, þess-
ari búddísku ró sem einkenndi hann
alla tíð. Og hann fór fallega, eftir
auðugt líf sem „hamingjuhrólfur“
eins og hann orðaði það. Við náðum
líka að kveðja hann vel þrátt fyrir
Covid, þótt sóttkvíarreglurnar hefðu
því miður haft lokavikuna af Ása
bróður.“
Var hræddur við verkið
Hallgrímur vann að verkunum í
fyrravetur og fram á sumar, sam-
hliða nýrri skáldsögu. „Þá voru þessi
verk hér flest komin, en mér fannst
ég alltaf vera að koma mér undan
því að mála pabba eins og ég sá hann
síðasta daginn. Ég mannaði mig að
lokum upp í það, sem var mikil
áskorun og erfitt. Mér fannst það
viss sigur að ná að gera þessa mynd
því þetta var nánast óvinnandi verk-
efni,“ segir hann um hið raunsæis-
lega og stærsta verk sýningarinnar,
„Pabbi að deyja“. „Ég hafði málað
hann tvisvar áður, á hinni öldinni, en
það var ekki fyrr en þarna sem mér
fannst ég loksins ná honum.
Ég var bæði hræddur við verkið
og hræddur eftir að ég var búinn.
Þessi mynd hefur öðruvísi útgeislun
en annað sem ég hef gert. Og svo
reyndist þetta ekki auðvelt fyrir fjöl-
skylduna, eins og við mátti búast.
Ég var líka með samviskubit gagn-
vart pabba, fannst ég vera að gera
honum grikk, að mála hann svona á
sínu veikasta mómenti, mann sem
aldrei var mikið fyrir athygli. Og ég
veit ekki enn hvort þetta megi. En
síðan hefur fólk bent mér á mynd-
listarmenn sem gert hafa verk um
andlát foreldra sinna, til dæmis hinn
fræga skúlptúr Dead Dad eftir Ron
Mueck og einnig portrett-teikningu
Lucian Freuds af móður sinni lát-
inni. Þetta er auðvitað klassískt við-
fangsefni í myndlistarsögunni.“
Dauðanum er haldið til hliðar í
vestrænu samfélagi samtímans og
því er skiljanlegt að Hallgrími hafi
þótt erfitt að sýna ættingjum sínum
verkin og sérstaklega „Pabbi að
deyja“.
„Jú, systkini mín voru ekki alveg
ánægð með þetta, og mamma aldrei
alveg viss, en vildi þó leyfa mér að
ákveða þetta, sem ég virti mikils,“
viðurkennir hann. „Ég skil að þeim
hafi þótt þetta óþægilegt. Að sjá
svona mynd er kannski soldið eins
og að fara aftur í kistulagningu ári
eftir að viðkomandi deyr. Það voru
alls konar tilfinningar í þessu – en á
endanum fannst mér þetta vera eitt
af betri málverkunum sem ég hef
gert og bara gat ekki haft sýninguna
án þess. Svo er sýningin hér nánast í
kirkju, í safnaðarheimili, sem er vel
við hæfi. Reyndar kom pabbi með þá
ósk á banasænginni að það yrði eng-
inn prestur í útförinni þannig að við
fengum Siðmennt í málið. En ég
vona að hann fyrirgefi mér hið
kirkjulega samhengi hér. Mér finnst
þetta reyndar einmitt rétti stað-
urinn fyrir svona sýningu.“
Covid var gjöfult
Samtímis því að mála verkin á
sýningunni vann Hallgrímur að
væntanlegri skáldsögu sem er fram-
hald hinnar rómuðu Sextíu kíló af
sólskini og kemur út í kringum mán-
aðamótin næstu. Hann hóf lista-
mannsferilinn í myndlistinni, sýndi
fyrst í Ásmundarsal árið 1984, en frá
1990 hefur hann einnig starfað sem
rithöfundur. Skrifin hafa tekið lung-
ann af starfsárinu en hann hefur á
milli tekið um tveggja mánaða rassí-
ur í myndlist. En nú segist hann
hafa reynt að blanda þessu meira
saman.
„Ég er að reyna að koma mynd-
listinni inn í rútínuna, reyna loksins
að sætta mig við að ég sé í báðum
heimum, myndlistar og skrifta,
reyna að fella hvort tveggja inn í
daginn. Sem er flókið stundum … en
ég vona að þetta blessist allt saman.
Svo er ég líka að senda frá mér bók
með jólakvæðum, í anda Jóhannesar
úr Kötlum.“ Hann brosir og bætir
við: „Covid var gjöfult.“
Morgunblaðið/Einar Falur
Dánarstund „Það var þessi stelling sem hann var í síðustu dagana, starði bara gapandi upp í himininn. Stellingin þegar fólk á ekki orð,“ segir Hallgrímur
Helgason um röð 24 verka á sýningunni sem hann kallar Dánarstund og er hér við. „Það er visst óp líka í þessu. Munch,“ bætir hann við.
Dauðinn hafði náð heljartökum á mér
- Á sýningu Hallgríms Helgasonar í safnaðarheimili Neskirkju eru verk sem hann málaði út frá
banalegu og dauða föður síns - Hann skilur vel að ættingjum hans hafi þótt óþægilegt að sjá verkin
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
Við komum víða við í ár, heimsækjum fjölda fólks
og verðummeð fullt af spennandi efni
fyrir alla aldurshópa.
Morgunblaðsins
Kemur út 25. 11. 2021
Jólablað