Morgunblaðið - 15.10.2021, Síða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. OKTÓBER 2021
Nú á tímum er geð-
heilbrigði ofarlega á
baugi í almennri um-
ræðu. Fleiri og fleiri
takast á við vanlíðan
og geðrænar áskoranir
í samfélagi sem tekur
örum breytingum.
Flestir sem til þekkja
eru á þeirri skoðun að
geðheilbrigðiskerfið
hafi ekki þróast í takt
við þær öru breytingar. Almennt
eru breytingar forsenda allrar
framþróunar. Það á einnig við um
geðheilbrigðismál. Ýmislegt hefur
verið rætt. Hugmyndir um breytta
þjónustu, t.a.m. stóraukna sam-
félagsþjónustu, skjólshús, opnar
deildir, viðsnúning á viðhorfum til
geðrænna áskorana og geðheilsu
eða hvernig við getum bætt tengsl
innan samfélagsins, en góð tengsl
milli fólks eru ein mikilvægasta
undirstaða geðheilsu.
Á aðalfundi landssamtakanna
Geðhjálpar hinn 8. maí 2021 var
skipulagsskrá „Styrktarsjóðs geð-
heilbrigðis“ samþykkt. Tilgangur
sjóðsins er að stuðla að
framförum í geðheil-
brigðismálum með því
að veita styrki til verk-
efna sem geta bætt
geðheilbrigði lands-
manna og skilning á
málaflokknum. Að
stíga lítið skref í þá átt
að gera fleirum kleift
að stuðla að framförum
í geðheilbrigðismálum.
Þriggja manna stjórn
stýrir sjóðnum og
fimm manna fagráð
fjallar um umsóknir. Sjóðurinn er
sjálfstæður og er með öllu aðskilinn
öðrum rekstri Geðhjálpar. Fyrsta
úthlutun sjóðsins fór fram í gær en í
ár bárust sjóðnum alls 54 umsóknir,
í heild var sótt um styrki að upphæð
137 milljónir króna.
Fjármögnun og úthlutanir
Landssamtökin Geðhjálp eru
stofnaðili sjóðsins og leggja til 100
m.kr. stofnframlag. Úthlutað var 10
m.kr. til 16 verkefna í ár og fjár-
magnaði Geðhjálp auk annarra vel-
unnara þessa fyrstu úthlutun.
Stjórn sjóðsins hefur óskað eftir því
að ríkið gerist einnig stofnaðili með
sama framlagi og Geðhjálp og að at-
vinnulífið leggi sjóðnum einnig sam-
bærilegt lið. Geðhjálp mun að auki
leggja sjóðnum til ákveðið hlutfall af
rekstrarafgangi samtakanna miðað
við rekstrarumhverfi hverju sinni.
Ástæða er til að hvetja almenning
og fyrirtæki sem nú þegar styðja
við bakið á Geðhjálp að gera það
áfram með fullvissu um að umfram-
fjármagn renni ár hvert í sjóðinn.
Í þessari fyrstu úthlutun fá ólík
og spennandi verkefni brautar-
gengi. Þau snúa að geðrækt, starfs-
endurhæfingu, virkni, tæknilausn-
um og listum. Þessi verkefni verða
vonandi til hagsbóta fyrir fanga,
langveik börn, framhaldsskólanem-
endur, ungt fólk, aðstandendur og
vonandi allan almenning.
Tilurð sjóðsins
Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fast-
eignina Túngötu 7 í Reykjavík. Hús-
næðið var gjöf til félagsins frá rík-
issjóði en ríkið eignaðist húsið við
lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla
Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla
og Önnu að húsnæðið yrði notað
fyrir heilbrigðistengda starfsemi.
Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15
árin en viðhaldsþörf var of mikil
fyrir rekstur samtakanna og því var
húsið selt árið 2013. Með því var
hægt að greiða skuldir og kaupa
annað ódýrara og hentugra hús-
næði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp
ávaxtað það sem eftir stóð af sölu-
hagnaðinum með það fyrir augum
að það kæmi að notum í góðum
verkefnum geðheilbrigðismála.
Þessar ráðstafanir gerðu Geðhjálp
kleift að leggja til 100 milljóna
króna stofnframlag í Styrktarsjóð
geðheilbrigðis.
Fram á veginn
Í kjölfar Covid-faraldursins hefur
geðheilbrigðismálum verið gefinn
aukinn gaumur og Alþjóðaheilbrigð-
ismálastofnunin hefur varað ríki
heims við að tíðni geðrænna úr-
lausnarefna geti aukist í kjölfar far-
aldursins. Því er mikilvægt að við
bregðumst strax við og setjum auk-
inn þunga í málaflokkinn. Umfang
geðheilbrigðismála fyrir Covid-
faraldurinn var áætlað um 30% af
heilbrigðiskerfinu – en ætluð fjár-
mögnun nam aðeins um 12%.
Ég vil óska öllum styrkþegum
hjartanlega til hamingju og um leið
þakka félögum mínum í stjórn
sjóðsins, þeim Guðrúnu Sigurjóns-
dóttur og Haraldi Flosa Tryggva-
syni, og fagráði sjóðsins, þeim
Helgu Sif Friðjónsdóttur formanni,
Birni Hjálmarssyni, Hrannari Jóns-
syni, Huldu Dóru Styrmisdóttur og
Svövu Arnardóttur, fyrir óeigin-
gjarnt starf.
Með sjálfstæðum styrktarsjóði
geðheilbrigðis vonast Geðhjálp til að
hægt verði að stuðla að breytingum
og nýsköpun sem eru grunnstoðir
framþróunar innan geðheilbrigð-
ismála. Erindið hefur aldrei verið
brýnna.
Eftir Héðin
Unnsteinsson » Tilgangur sjóðsins
er að stuðla að
framförum í geðheil-
brigðismálum með
því að veita styrki til
verkefna sem geta
bætt geðheilbrigði
landsmanna og skilning
á málaflokknum.
Héðinn Unnsteinsson
Höfundur er formaður stjórnar
Styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Breytingar og nýsköpun –
brýnasta verkefni geðheilbrigðismála
Í fyrri greinum um
kórónuveiruna (C19)
hef ég borið fram
spurningar um þá veg-
ferð sem yfirvöld hér á
landi – og raunar víðar
– hafa kosið að feta.
Augljóslega er sérstök
ástæða til að vara við
því að valin sé leið sem
til lengri tíma gæti
reynst skaðlegri en
veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjón-
arhorn leyfilegrar umræðu, kippt
hefðbundnum stjórnmálum úr sam-
bandi, fært völdin úr höndum þings
og ríkisstjórnar til ólýðræðislega val-
inna sérfræðinga. Afleiðingin hefur
verið sú að grafið hefur verið undan
lýðræðinu, réttarríkinu og örygg-
isventlum stjórnskipunarinnar um
valddreifingu. Of fáum mönnum hafa
verið afhent óþægilega mikil völd.
Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við
fámennisstjórn eða sérfræð-
ingastjórn, gengur gegn stjórn-
skipulegu markmiði lýðræðisríkja
um temprun valds.
Þekktu óvininn
Með hliðsjón af opinberri tölfræði
um hættueiginleika C19 má furðu
sæta hversu lítil umræða hefur farið
fram um inngrip sóttvarnalæknis í
stjórn landsins. Þau inngrip hafa
verið byggð á almennt orðuðum
ákvæðum laga um sóttvarnir, án
þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi
sýnilega gert nóg til að tempra
nefnda valdbeitingu. Með skírskotun
til C19 hefur daglegu lífi þjóð-
arinnar, þ.m.t. atvinnu-, félags- og
efnahagslífi, verið raskað með for-
dæmalausum hætti. Þó er veiran
ekki hættulegri en svo að meðalaldur
þeirra sem látist hafa af hennar völd-
um er rúmlega 80 ár, 99,7% smitaðra
ná bata, 97% smitaðra fá engin eða
væg einkenni, líkur á að smitast og
deyja eru 0,024% og dánarlíkur
þeirra sem smitast eru 0,096%, allt
án bólusetningar. Ungu og heilsu-
hraustu fólki stafar langtum minni
hætta af C19 en þessar tölur gefa til
kynna. Aðgerðir stjórnvalda hafa þó
ekki sjáanlega tekið viðeigandi mið
af þessum tölum. Þá hefur frétta-
flutningur af veirunni valdið órök-
réttum viðbrögðum meðal almenn-
ings, þar sem tilfinningar hafa
iðulega ráðið för fremur en yfirveguð
og rökræn hugsun.
Könnun sem gerð var í
Bretlandi í ágúst 2020
benti til að fólk þar í
landi teldi dánarlíkur
vegna C19 vera 100
sinnum verri en þær
voru í raun.
Eins og mörg önnur
vandamál krefur C19
okkur um viðbrögð.
Hér sem annars staðar
hlýtur ákvarðanataka
þó að snúast um skyn-
samlega forgangsröðun
og jafnvægisstillingu, sem tekur mið
af aðstæðum. Farsæl leiðsögn þarf
að taka heildstætt tilllit til vænt-
anlegs kostnaðar og ábata af aðgerð-
um. Stjórnmálin eiga að miðast við
yfirsýn og heildarsamhengi, en ekki
eitt þröngt sjónarmið. Einmitt á
vettvangi stjórnmálanna ber að leita
svara við erfiðustu spurningum, svo
sem hversu miklu má fórna, t.a.m. af
menntun, efnahag og andlegri heilsu,
til að seinka dauðsföllum.
Besta leiðin til að feta braut jafn-
vægis er að efla heilbrigða rökræðu,
þar sem mönnum leyfist að bera
fram spurningar og tilgátur, auk
þess að framkvæma rannsóknir í leit
að svörum. Standa ber vörð um
frjálst vísindastarf og gegn því að
þrýstihópar nái tangarhaldi á kenni-
valdi fræðanna og einoki það. Í lengd
og bráð grefur slík þróun undan
burðarstoðum vísindanna sjálfa.
Ekki má þrengja svo að þjóðfélag-
inu í baráttu við eina hættu að við bú-
um til sjálfstæða ógn úr annarri átt.
Hér þarf að finna jafnvægispunkt.
Máttur þekkingar er mikill en vís-
indin (scientia) mega ekki kæfa hóf-
semi (prudentia) og visku (sapi-
entia). Sjálfsagðar öryggisreglur
mega ekki umbreytast í rimla. Ótt-
inn má ekki verða svo yfirgnæfandi
að menn gangi viljandi inn í búr
þeirra sem lofa vernd og eftirliti.
Skortur á rökræðu
Þegar litið er yfir þróun umræð-
unnar um C19 tel ég að greina megi
viss óheillamerki. Í miklum og jafn-
vel vaxandi mæli hefur áhersla verið
lögð á það að við „látum sérfræð-
ingana ráða“. Sérfræðiþekking er
góð eins langt og hún nær, en vanda-
málið við hana er hversu þröngt slíkt
sjónsvið er. Í umræðum um flókin og
vandasöm viðfangsefni þarf að opna
umræðuna og fá fram sem flest sjón-
armið. Þetta er gert til að afstýra því
að við hlaupum á okkur, missum
jafnvægið og keyrum út af veginum
til hægri eða vinstri.
Við núverandi aðstæður hvílir
sönnunarbyrðin á stjórnvöldum vilji
þau halda áfram skerðingum og höft-
um á borgaralegu frelsi í nafni C19.
Þetta er grundvallaratriði sem virð-
ist hafa gleymst í stöðugum straumi
blaðamannafunda og óttastjórnunar.
Í ljós hefur komið að stór hluti
stjórnmálamanna, embættismanna
og almennings hefur brennandi
áhuga á að hafa vit fyrir öðrum og
fyrirskipa, með góðu eða illu, hvern-
ig okkur hinum ber að lifa. Þetta hef-
ur m.a. birst í því að „beturvitar“
hafa sprottið fram úr ýmsum horn-
um með fyrirskipanir til annarra,
kröfur um alls kyns takmarkanir eða
með hótunum í garð þeirra sem í
krafti heilbrigðs efa ganga ekki í takt
eða samþykkja ekki nýjar háttsem-
isreglur og tilmæli umyrðalaust.
Samantekt
Niðurstaða þeirrar reynslu sem
síðustu 18 mánuðir hafa fært Íslend-
ingum og öðrum Vesturlandabúum
er sú að lýðræðið, réttarríkið og aðr-
ar undirstöður frjálslyndrar stjórn-
skipunarhefðar standa á veikari
grunni en okkur hafði áður órað fyr-
ir. Þeir veikleikar sem C19 hefur op-
inberað sýna að ótti getur hæglega
leitt okkur í stjórnskipulegar ógöng-
ur. Ef við viljum vera frjáls þurfum
við að taka ábyrgð á eigin frelsi, orð-
um okkar og gjörðum. Slík persónu-
leg og samfélagsleg ábyrgð jafn-
gildir því þó alls ekki að við tökum
upp vélræna, fyrirskipaða, hugs-
unarlausa hegðun, þar sem öllum
heilbrigðum efa og gagnrýni hefur
verið úthýst. Okkur ber að hugsa
sjálfstætt og veita virkt málefnalegt
aðhald. Ef við gerum það ekki getum
við sjálfum okkur um kennt þegar
frjálslyndið og lýðræðið umbreytast
endanlega í innantómt skrum.
Eftir Arnar Þór
Jónsson »Ekki má þrengja svo
að þjóðfélaginu í
baráttu við eina hættu
að við búum til sjálf-
stæða ógn úr annarri
átt. Hér þarf að finna
jafnvægispunkt.
Arnar Þór Jónsson
Höfundur er lögmaður.
Hvað höfum við lært?
Litríkt Haustlitir setja svip sinn á gróðurinn enda veturinn á næstu grösum.
Eggert