Morgunblaðið - 26.11.2021, Side 32
32 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. NÓVEMBER 2021
OKKUR VANTAR ALLAR
GERÐIR BÍLA Á SKRÁ!Sími 567 4949 | Bíldshöfða 5, 110 Rvk. | bilahollin.is
BMW - X5 XDRIVE40E M-TECH
RN. 340550. Nýskráður 9/2018, ekinn 68 þ.km.,
bensín/rafmagn, svartur, sjálfskiptur, dráttarkrókur,
fjarlægðarskynjarar, bluetooth, GPS, 360° myndavél.
Verð 8.790.000 kr.
FORD - MUSTANG MACH-E PREMIUM
RN. 340632. Nýskráður 3/2021, ekinn 14 þ.km.,
rafmagn, hvítur, sjálfskiptur, 360° myndavél,
fjarlægðarskynjarar, bluetooth, hiti í framrúðu.
Verð 8.990.000 kr.
TOYOTA - LAND CRUISER 150 SERIES RN. 331619.
Nýskr. 10/2017, ekinn 76 þ.km., dísel, ljósgrár,
sjálfskiptur, 6 gírar, GPS, bakkmyndavél, brekku-
bremsa, hraðastillir, dráttarkrókur, bluetooth,
kastarar, hiti í stýri. Verð 9.250.000 kr.
JEEP - GRAND CHEROKEE OVERLAND
RN. 191828. Nýskráður 3/2016, ekinn 77 þ.km.,
bensíns, hvítur, sjálfskiptur, leiðsögukerfi, bluetooth,
bakkmyndavél, glertopplúga, fjarlægðarskynjarar.
Verð 8.590.000 kr.
VIÐTAL
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Innri gerð íslensks lýðræðis er þannig, að þeg-
ar reynir á, þá bregðumst við af atorku og á
mjög skapandi hátt við,“ segir Ragnar Hjálm-
arsson, doktor í stjórnarháttum, sem nýlega
varði doktorsritgerð sína við Hertie-háskólann í
Berlín, en hún fjallar um hvernig ríki geta gert
upp við söguna eftir stórfelld efnahagsáföll.
„Þegar áfall dynur yfir, þá viltu vita sannleik-
ann, hvað gerðist, hver ber ábyrgð, hvernig
bætum við skaðann og hvernig byrgjum við
brunninn, og við brugðumst við öllum þessum
spurningum eftir hrunið,“ segir Ragnar.
Ragnar segir að eftir vatnaskil í sögu þjóða,
hvort sem það eru átök eða stórfellt efnahags-
áfall, standi stjórnmálamenn og samfélagið allt
frammi fyrir ákveðnu vali. „Það er annaðhvort
að veðja á batann, einblína á framtíðina og vona
að allt verði í lagi, eða þá hvort reynt verði að
svara þessum spurningum sem koma upp í sam-
félaginu eftir svona vatnaskil.“
„Það sem mér þótti áhugavert var að á Ís-
landi höfðum við frelsi í einangrun okkar til þess
að búa til á staðnum alla þessa ferla til að takast
á við þessar erfiðu spurningar. Ýmsir ferlanna
gengu vel, og skiluðu góðum árangri fyrir ís-
lenskt samfélag,“ segir Ragnar og nefnir þar
sérstaklega rannsóknarnefnd Alþingis og svo
störf sérstaks saksóknara. „En aðrir ferlar
reyndust verr og ollu jafnvel skaða. En burtséð
frá því hver útkoman var, þá var það mest
heillandi hversu víðtækar aðgerðirnar voru og
hvernig staðið að samþykkt þeirra. Þetta hef ég
kallað „sköpun í einangrun“.“
Ragnar bendir á að Ísland hafi verið fyrsta
landið sem fór illa út úr alþjóðlegu fjár-
málakreppunni, þannig að Íslendingar hafi ekki
haft neinar fyrirmyndir um hvernig ætti að
bregðast við. Hvorki Alþjóðagjaldeyrissjóð-
urinn, Evrópusambandið né stjórnvöld hinna
norrænu ríkjanna, sem veittu fjármagni í efna-
hagsáætlun okkar, hafi haft áhrif á þá ferla sem
Íslendingar réðust í. „Það sem var líka áhuga-
vert í þessu ferli „umbreytingarréttlætis“ var,
að við vorum ekki meðvituð um reynslu annarra
ríkja sem hafa beitt áþekkum ferlum,“ segir
Ragnar.
„Við litum aldrei á þessa ferla sem einstaka
þætti í stærra uppgjöri, en samt, einhvern veg-
inn brást íslenskt lýðræði við á þann hátt að við
beittum þeim öllum. Þess vegna segi ég að ís-
lenskt lýðræði sé skrambi gott.“
Ragnar bætir við að eftir alþjóðlegu fjár-
málakreppunna hafi sambærilegum ferlum ver-
ið beitt í öðrum ríkjum sem einnig urðu illa úti í
kreppunni. Hann hafi tekið þátt í rannsókn-
arverkefni meðfram doktorsnáminu þar sem
borin voru saman reynsla sex ríkja, Íslands, Ír-
lands, Portúgals, Spánar, Grikklands og Kýpur,
og hafi Ísland skorið sig úr í þeim alþjóðlega
samanburði. „Það voru stofnaðar rannsókn-
arnefndir á Grikklandi og á Írlandi. Þær reynd-
ust ekki mjög árangursríkar. Stjórnvöld á Kýp-
ur reyndu líka að setja rannsóknarnefnd á fót,
en hún sprakk áður en hún gat hafið störf.“
Rannsóknarnefndin reyndist vel
Ragnar hrósar rannsóknarnefnd Alþingis, og
segir hana hafa unnið mikið og þarft starf.
Hann segir mikilvægi hennar ekki síst sjást í
því að nefndin hafi veitt Íslendingum ákveðið
mótefni gegn populískum stjórnmálum. „Það
sem góðar rannsóknarnefndir gera er að þær
draga úr þeim „leyfilegu lygum“ sem halda má
fram í opinberri umræðu. Það varð til ákveðinn
grunnur sem við gátum unnið með,“ segir
Ragnar og bætir við að stjórnmálamenn til bæði
hægri og vinstri hafi samþykkt niðurstöður
nefndarinnar, þó að þeir hafi lagt ólíkar
áherslur á hvað skipti mestu máli. „En, það sem
var mikilvægara var að eignarhaldið á þessari
sögu var í höndum almennings. Þannig að þegar
við förum í kosningarnar 2013 til dæmis, þá ríf-
umst við ekki um hver gerði hvað eða hvað olli
hruninu. Við erum ekki með þennan jarðveg
ósættis sem annars staðar reynist svo frjór fyrir
pópúlísk stjórnmál.“
Þá segir Ragnar athyglisvert að þeir stjórn-
málaflokkar, sem hér hafi sprottið upp í and-
stöðu við „kerfið“, hafi einnig tekið skýrslu
nefndarinnar upp á sína arma. „Þeir kalla eftir
umbótum, ekki kollsteypum. Í öðrum ríkjum
hafa andkerfislegir kraftar brotist út á annan
hátt og verri hátt, þannig að vinna rannsókn-
arnefndarinnar reyndist íslensku samfélagi og
stjórnmálum afskaplega vel.“
Þá hafi hin ríkin sem Ragnar vísar til í rann-
sókn sinni reynt að draga bankamenn til
ábyrgðar en með mismiklum árangri. „Á Íslandi
voru rannsökuð á annað hundrað mál, og á end-
anum voru hátt í fjórða tug bankamanna sem
fengu dóma, og margir hverjir þunga dóma.“
Ragnar nefnir til samanburðar að á Spáni hafi
ellefu bankamenn fengið dóma og sjö á Írlandi,
einn á Kýpur og enginn í Grikklandi, en að þeir
dómar hafi verið styttri en hér og gjarnan skil-
orðsbundnir. Ragnar segir einnig að starf sér-
staks saksóknara hafi orðið til að styrkja mjög
alla umgjörð rannsókna á efnahagsbrotum, sem
nýtist okkur til frambúðar.
„Ísland var svo eina landið sem reyndi að
draga stjórnmálamenn til refsiábyrgðar fyrir
stefnumótun þeirra. Það reyndist ekki góð hug-
mynd,“ segir Ragnar. Þá hafi íslenska leiðrétt-
ingin verið algjört einsdæmi þegar kom að
greiðslu skaðabóta til ætlaðra fórnarlamba. Það
sé síðan annað mál hvort það hafi verið viturleg
ráðstöfun á almannafé. Að lokum nefnir Ragnar
að stjórnarskrá hafi verið breytt á Írlandi,
Spáni, í Portúgal og Grikklandi, en á mun tak-
markaðri hátt en til stóð hér á Íslandi.
„Þannig að Ísland var sér á báti. Við tókum
upp alla þessa ferla, en í þeim fræðum sem ég
hef numið er talið best að ríki beiti ekki einum
eða tveimur þeirra heldur beiti þeim öllum. Sem
er einmitt það sem íslensk stjórnvöld gerðu á
endanum.“ Ragnar segir aðspurður að það hafi
ekki endilega verið upphafleg áætlun íslenskra
stjórnvalda heldur hafi eitt leitt af öðru. „En
það sýnir hvað varðar íslensk stjórnmál og ís-
lenskt stjórnkerfi að við erum mjög góð í að
bregðast við áföllum og við höfum frelsi til at-
hafna hér, sökum þess hversu smátt samfélagið
er og boðleiðir stuttar. Önnur ríki hafa ekki það
frelsi. Hins vegar háir það okkar opinberu
stefnumótun að við getum átt erfitt með að gera
áætlanir til lengri tíma.“
Landsdómsmálið óheppilegt
Ragnar segir um Landsdómsmálið að enginn
pólitískur leiðtogi hefði viljað þá niðurstöðu
sem varð á Alþingi, að Geir H. Haarde yrði einn
ákærður fyrir Landsdómi. „Ég held að sú nið-
urstaða hafi komið öllum á óvart,“ segir Ragn-
ar. Hann segir Landsdómsmálið einkum sýna
hversu óheppilegt það hafi verið að nota dóm-
stóla en ekki kjörklefa eða rannsóknarnefndir
til að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar fyrir
stefnumótun sína.
„Í þessu kristallast einnig hvað lærdómarnir
af ferlum sem enda í átökum eru gagnlitlir og
rýrir. Það kom ekkert nýtt fram sem varpaði
ljósi á fortíðina. Dómsmálið leiddi ekki til
neinna mikilvægra umbóta á stjórnsýslu eða
stofnunum og það hafði „pólaríserandi“ áhrif á
stjórnmálin. Það gerði stjórninni erfitt fyrir að
teygja sig yfir til stjórnarandstöðunnar á tím-
um þegar samstöðu var þörf og allur þessi
málarekstur hægði á okkar pólitíska bata. Einu
raunverulegu umbæturnar sem rekja megi til
Landsdómsmálsins eru að fundargerðir ríkis-
stjórnarinnar eru núna birtar opinberlega.“
Til áréttingar bendir Ragnar á að starf rann-
sóknarnefndarinnar hafi leitt til öflugra um-
bóta á þeim skorti á á samhæfingu sem háði
stjórnvöldum í viðbrögðum þeirra við hruninu.
„Þessar umbætur birtast okkur í yfirstandandi
krísu, þar sem nú eru fjölskipaðar ráðherra-
nefndir sem samhæfa og skipuleggja viðbrögð
hins opinbera. Það er gagnlegri lærdómur en
að fólk geti farið inn á heimasíðu Stjórnarráðs-
ins og séð hvaða mál voru rædd á ríkisstjórn-
arfundi.“
Kantarnir verði að líta í eigin barm
Ragnar segir að stjórnarskrármálið undir-
striki hversu stórfelld vatnaskil var um að ræða
í íslensku samfélagi á þessum árum, þar sem
hin ríkin sem hann skoðaði í rannsóknum sínum
hafi farið út í veigaminni breytingar en hér var
reynt að þessu leitinu til. „Fræðin segja okkur
að að stjórnarskrárbreytingar eftir meiri háttar
áföll geti farið fram á þrennan hátt. Í fyrsta lagi
að að það koma inn nýir aðilar sem knýja fram
nýja stjórnarskrá. Önnur leið, og á hinum kant-
inum, er að sitjandi valdhafar halda velli og
framkvæma fegrunaraðgerðir á stjórnar-
skránni. Þriðja leiðin er leið samninga og sátta
milli þess nýja og þess sem er. Því miður bárum
við ekki gæfu til að fara þann milliveg.“
Afleiðingin er sú, að stjórnarskrármálið er
núna fast í skotgröfum. „Fólk sem vill leggja
gott til og fólk sem vill fá hreyfingu á þetta mál,
það er dregið í dilka, og kantarnir nærast hvor á
öðrum. Þetta er ástand sem íslensk stjórnmál
líða almennt fyrir.“ Ragnar segir að hann telji
mikilvægast að bæði þeir sem vilji umbreyta
stjórnarskránni og hinir sem vilji sem minnstu
breyta horfi aðeins á það hversu ágengt þeim
hafi orðið. „Það hvílir á þeirra herðum að endur-
skoða afstöðu sína og fara að hugsa um þetta
meira út frá því hvaða sátt er möguleg.“
Ragnar segir brýnt að leysa stjórnarskrár-
málið með sátt, því það sé farið að liggja eins og
mara á þjóðinni. „Bæði þarf íslensk stjórn-
skipun að leiðrétta ýmsa hluti eins og stöðu for-
seta og auðlindamálin, en það er líka ákveðinn
fórnarkostnaður að halda málinu í þessari
ósjálfbæru stöðu. Hér er að alast upp kynslóð
sem trúir því, með réttu eða röngu, að verið sé
að hafa af þeim stjórnarskrá,“ segir Ragnar.
„Ég bý í landi, Þýskalandi, þar sem vegna sögu
þess máttu bara vera stoltur af tvennu, knatt-
spyrnulandsliðinu og stjórnarskránni. Ef við
gætum alið upp kynslóð sem væri stolt af ís-
lenskri stjórnarskrá og gæti fundið útrás fyrir
sitt þjóðernisstolt í grunnlögunum okkar, þá
væri til mikils að vinna.“
Krísur ýta undir pólitíska sköpun
Ragnar segir að krísan núna sé um flest ólík
þeirri síðustu, þá fauk yfirbyggingin en núna
hafi undirstöður gefið sig, og þar á hann fyrst
og fremst við túrismann. „En við eigum að
staldra við og íhuga hvernig við ætlum að læra
af þessari krísu,“ segir Ragnar og bætir við að
krísur séu tími pólitískrar sköpunar. „Og það á
að leyfa þeim sköpunarkrafti að vera frjáls.“
„Þessi ár eftir hrun voru meiðandi, þau voru
meiðandi fyrir stjórnmálin okkar og ein-
staklinga, og sá sársauki situr eftir í fólki. Það
er því mikilvægt að þegar við tölum um þessi ár
að við tölum um þau af sanngirni og tillitssemi.
Við gerðum margt gott og við lærðum mikið, –
og það eru enn þá sár sem þarf að græða,“ segir
Ragnar að lokum.
Við gerðum margt gott og lærðum mikið
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Stjórnarhættir Ragnar Hjálmarsson hefur rannsakað viðbrögð Íslendinga við hruninu.
- Ragnar Hjálmarsson, doktor í stjórnarháttum, segir að íslenskt lýðræði hafi staðið sig
vel í eftirmálum hrunsins - Mikilvægt að tala um árin eftir hrun af sanngirni og tillitssemi