Morgunblaðið - 26.11.2021, Page 78
78 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. NÓVEMBER 2021
H
ádegisleikhús Þjóðleik-
hússins hóf göngu sína í
Leikhúskjallaranum í
haust og verða þar í vet-
ur sýndir fjórir einþáttungar sem
valdir voru úr um 250 innsendum
verkum. Eftir heimsókn gulklædda
parsins í verki Bjarna Jónssonar sem
frumsýnt var í september var nú í
nóvember komið að rauðklæddum
konum. Má svo búast við græn-
klæddu fólki í janúarsýningunni og
loks bláu í mars til að binda saman liti
regnbogans? Litaþemað hingað til
hefur að minnsta kosti gefist mjög vel
og sett skemmtilega og heildstæða
áferð á hádegisleikhúsröðina.
Í verki sínu Rauða kápan teflir Sól-
veig Eir Stewart saman tveimur kon-
um sinni af hvorri kynslóðinni, sem
við fyrstu sýn eiga lítið sameiginlegt
en ná óvæntri tengingu. Áður en leik-
urinn hefst hafði sú eldri, Sigrún
(Edda Björgvinsdóttir), stuttu áður í
misgripum tekið með sér kápu
þeirrar yngri, Unu (Snæfríður
Ingvarsdóttir), enda kápur þeirra
nákvæmlega eins hvað varðar lit og
lögun – sem vekur áhugaverðar
spurningar um það hvort og hvernig
fötin endurspegla þann sem klæðist
þeim. Konurnar hafa mælt sér mót á
veitingahúsi til að skiptast á kápum
og þar hefst leikurinn. Þó yfirbragð
kvennanna og fatastíll sé um margt
ólíkur vekur strax athygli að Eva
Signý Berger klæðir þær í svart/
hvítar flíkur sem undirstrika það
þjónustuhlutverk sem þær hafa báð-
ar tekið sér í lífinu. Sá munur er þó á
að Una getur að öllum líkindum lagt
þjónsbúninginn á hilluna þegar heim-
spekináminu lýkur, meðan Sigrún
hefur augsýnilega átt erfiðara með að
fóta sig í nýju hlutverki eftir að „þjón-
ustuhlutverki“ hennar í 30 ára löngu
hjónabandi lauk.
Texti Sólveigar er lipur og fer vel í
munni. Ýmislegt er látið ósagt, en
skilst milli línanna. Rauða kápan veit-
ir áhorfendum mun betri innsýn í
persónu Sigrúnar en Unu, sem þjón-
ar fremur því hlutverki að veita Sig-
rúnu nauðsynlegan mótleik til að hún
geti gert upp hluti úr fortíðinni og
fengið nýja sýn á hlutina.
Á aðeins tæpum hálftíma næst að
draga upp einstaklega sterka mynd
af konu sem telur sig eiga auðvelt
með að sjá í gegnum annað fólk en
hefur þó reynst ótrúlega glámskyggn
á ýmislegt í lífinu. Styrkur sýningar-
innar liggur ekki síst í frábærum leik
Eddu Björgvinsdóttur sem hefur full-
komið vald á tímasetningum við-
bragða sinna, líkamstjáningunni, tón-
falli raddarinnar, augngotum og
þöglum leik þar sem lesa má tilfinn-
ingar og hugsanir út úr andliti henn-
ar. Það jafnast hreinlega á við
masterklass í leik að fylgjast með
Eddu fara á kostum á sviðinu.
Hilmar Guðjónsson leikstýrir verk-
inu og hefur gott auga fyrir sviðsetn-
ingunni og dýnamík persóna. Líkt og
í uppfærslunni Út að borða með
Ester eftir Bjarna Jónsson sitja
áhorfendur hringinn í kringum upp-
hækkað leiksviðið og býðst að snæða
gómsæta súpu sem innifalin er í
miðaverðinu. Í báðum uppfærslum
hafa leikstjórar og leikendur gert sitt
besta til að hafa sviðsumferðina lipra
og kvika þannig að áhorfendur þurfi
ekki að horfa á hnakka sama leikara
of lengi í senn. Engu að síður er með
hringuppstillingunni alltaf ákveðin
hætta á því að áhorfendur missi af
lykilviðbrögðum persóna sitji þeir
ekki réttum megin og því spurning
hvort mögulega færi betur á því að
leika aðeins á þrjár hliðar til að
tryggja betri sjónlínur.
Hádegisleikhúsið hefur farið ákaf-
lega vel af stað og er vonandi komið
til að vera sem kærkomin viðbót í
leiklistarflóruna. Ekki spillir heldur
fyrir hversu góður andi ríkir í Leik-
húskjallaranum þar sem vel er tekið á
móti leikhúsgestum með næringu
fyrir bæði líkama og sál.
Skapa fötin manninn?
Frábær „Það jafnast hreinlega á við masterklass í leik að fylgjast með Eddu fara á kostum á sviðinu,“ segir í rýni.
Þjóðleikhúsið
Rauða kápan bbbbn
Eftir Sólveigu Eiri Stewart. Leikstjórn:
Hilmar Guðjónsson. Leikmynd og bún-
ingar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann
Friðrik Ágústsson. Leikarar: Edda Björg-
vinsdóttir og Snæfríður Ingvarsdóttir.
Frumsýning í Leikhúskjallara Þjóðleik-
hússins miðvikudaginn 11. nóvember
2021, en rýnt í 3. sýningu á sama stað
föstudaginn 19. nóvember 2021.
SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR
LEIKLIST
Hitt kynið nefn-
ist myndlistar-
sýning sem opn-
uð var í síðustu
viku á kaffihús-
inu Mokka við
Skólavörðustíg.
Þar sýnir Katrín
Matthíasdóttir
verk sín og seg-
ist hafa fengið
titilinn að láni frá grundvallarriti
femínískra fræða, Le Deuxième
Sexe eftir Simone de Beauvoir.
Hún segir sýninguna óð til
kvenna, móður sinnar og allra
kvenna og að ásjóna fáeinna
þeirra sé fest á pappír. „Hvað
hefur það í för með sér að vera
kona í dag? Þið megið sko bara
spá í það sjálf. Til dæmis hér og
nú – eða á eftir – eða síðar,“
skrifar Katrín meðal annars í
tilkynningu.
Hitt kynið á Mokka
Eitt verka Katrínar
Steven Meyers
hefur verið ráð-
inn deildar-
forseti kvik-
myndadeildar
Listaháskóla
Íslands. Í til-
kynningu segir
að með ráðn-
ingu hans sé
brotið blað í
sögu kvikmyndalistar á Íslandi
sem nú verði í fyrsta sinn kennd
á háskólastigi hér á landi.
Steven lauk BA-gráðu í
félagsfræði frá University of
Michigan, diplómu í kvikmynda-
gerð frá Academy of Film and
Television (FAMU) í Prag og
MFA í kvikmyndaleikstjórn frá
Columbia University School of
the Arts. Hann hefur starfað
sem ráðgjafi hjá Kvikmynda-
miðstöð Íslands frá árinu 2013
og hafði áður starfað við hand-
ritsráðgjöf fyrir ýmsa kvik-
myndaframleiðendur frá árinu
2007. Steven hefur auk þess leik-
stýrt og skrifað handrit að fimm
stuttmyndum sem hafa m.a. ver-
ið sýndar á Palm Springs og á
Clermong-Ferrand stutt-
myndahátíðunum.
Steven Meyers
deildarforseti
Steven Meyers
Sigrún Inga Hrólfsdóttir hefur verið
valin í rannsóknarstöðu innan Lista-
safns Reykjavíkur sem hefur það
markmið að rannsaka hlut kvenna í
íslenskri listasögu, að því er fram
kemur í tilkynningu frá safninu.
„Tillaga Sigrúnar um rannsókn og
sýningu sem byggir á list Hildar Há-
konardóttur var valin úr þrettán
fjölbreyttum umsóknum,“ segir í til-
kynningu og að dómnefnd hafi talið
viðfangsefni Sigrúnar líklegt til að
hafa áhrif á sýn manna á hlut Hildar
í samhengi íslenskrar listasögu.
Hildur hafi á löngum ferli tekið á
málefnum samtíma síns og nýtt til
þess fjölbreytta miðla, þó mest vefn-
að, fjallað um kynjapólitík og sam-
félagsmál, verið virk í Rauðsokka-
hreyfingunni og verið ein fárra
kvenna í SÚM auk þess að hafa verið
skólastjóri Myndlista- og hand-
íðaskóla Íslands frá 1975-78 og átt
þannig þátt í mótun myndlist-
armenntunar á Íslandi.
Í tilkynningunni segir um Sigrúnu
að hun sé starfandi myndlistar-
maður og eigi að baki öflugan feril
bæði undir eigin nafni og með
Gjörningaklúbbnum. „Hún hefur
staðið að útgáfum og birt greinar og
fetar hér inn á frekari brautir fræði-
mennsku. Sigrún lauk námi við
Myndlista- og handíðaskóla Íslands
1996 og stundaði síðan framhalds-
nám við Pratt Institute í New York.
Sigrún lauk meistaraprófi í heim-
speki frá Háskóla Íslands árið 2016.
Hún var deildarforseti myndlistar-
deildar Listaháskóla Íslands 2016 -
2021. Alls bárust 13 tillögur frá fjöl-
breyttum hópi fræðimanna sem
báru með sér að hér er á ferðinni
viðfangsefni sem vert er að gefa
gaum. Í valnefnd sátu Ólöf Kristín
Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns
Reykjavíkur, Edda Halldórsdóttir
listfræðingur við deild safneignar og
rannsókna í safninu og Æsa Sigur-
jónsdóttir dósent í listfræði við
Háskóla Íslands,“ segir þar. Rann-
sóknarstaðan er unnin í samstarfi
við listfræði við Háskóla Íslands og
hlaut hún öndvegisstyrk Safnaráðs
til þriggja ára og verður auglýst aft-
ur árið 2022.
Rannsakar Sigrún I. Hrólfsdóttir.
Sigrún Hrólfsdóttir
í rannsóknarstöðu
HEIMILI ENSKA BOLTANS
Á VEFNUM