Morgunblaðið - 23.12.2021, Side 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. DESEMBER 2021
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þetta er raðmorðingjasaga,“ segir
Sölvi Björn Sigurðsson um skáldsög-
una Kóperníku sem hann hefur ný-
verið sent frá sér. „Af einhverjum
ástæðum hafði mig alltaf langað til
að skrifa slíka sögu. Skrifa um hið
illa og vonda í manneskjunni, sem er
að mínu viti áhugaverð nálgun á
mannleikann og hið fjölbreytilega í
tilveru okkar. Mig langaði til að
skrifa bók sem væri spennandi og
keyrði lesandann áfram í átt að nið-
urstöðu. Jafnframt langaði mig að
skrifa sögulega skáldsögu um Kaup-
mannahöfn,“ segir Sölvi Björn, en
sögusvið bókarinnar er Kaupmanna-
höfn 1888 þar sem raðmorðingi
gengur laus og börn hverfa. Íslenski
unglæknirinn Finnur Kóperníkus
fær það verkefni að rannsaka lát
besta vinar síns.
Kallaði söguefnið og -sviðið á
mikla rannsóknarvinnu?
„Ég las það sem fyrir lá. Við búum
töluvert vel að því að það hafa marg-
ir skrifað mjög rækilega um Kaup-
mannahöfn fyrri tíma, enda okkar
gamla höfuðborg. Þannig að heim-
ildir skortir ekki. Svo fékk ég tæki-
færi á að dvelja í fræðimannsíbúð í
Jónshúsi í tvo mánuði sumarið 2020
og notaði tímann fyrst og fremst til
að finna fyrir borginni undir fótum
mínum. Ég vildi finna það á skinni
mínu hvernig aðalpersónunni liði á
sínu þrammi um borgina, reyndar
130 árum fyrr. Ég þurrkaði út nú-
tímann í huga mér og sá borgina
eins og hún var á þeim tíma.“
Fannst þér sögutíminn kalla á
ákveðið málsnið?
„Já, mér fannst sögutíminn kalla
á málsnið sem með einhverjum
hætti færi aftur í tímann. Samt sem
áður vildi ég ekki hafa það of fyrnt
þannig að það yrði leiðinlegt. Ef
málsniðið kallaðist ekki með ein-
hverjum hætti á við sögutímann er
ég ekki viss um að bókin hefði geng-
ið upp. Þannig að ég reyni að feta
línu í að skrifa bókmenntatexta í
anda texta þess tíma, en leyfa mér
líka að nota nýtt tungumál og pönka
þetta aðeins upp.“
Mjög einbeitt verk
Eiga einhverjar persónur bók-
arinnar sér fyrirmyndir í raun?
„Ein af stærri persónum bókar-
innar og besta vinkona Finns Kóp-
erníkusar heitir Marie Luplau,“ seg-
ir Sölvi Björn og bendir á að persóna
Luplau hafi verið innblásin af nöfnu
hennar sem var myndlistarkona sem
kenndi stúlkum myndlist í húsnæði
sínu á Gammel Kongevej 136-138. „Í
eigin lífi var hún ein af framgöngu-
konum kvenfrelsishreyfingarinnar í
Kaupmannahöfn á sínum tíma,“ seg-
ir Sölvi Björn og tekur fram að per-
sóna Nielsine Nielsen, sem sé fyrir-
ferðarminni í bókinni, eigi sér líka
fyrirmynd í raunveruleikanum.
„Hún var fyrsti kvenlæknirinn í
Danmörku. Aðrar persónur bók-
arinnar eru skáldaðar frá gruni, en
auðvitað eru alltaf einhverjar fyr-
irmyndir, hvernig sem maður leikur
sér og spilar síðan með það.“
En hvers vegna langaði þig að
skrifa raðmorðingjasögu?
„Ég hef mjög gaman af því að
horfa á raðmorðingjaþætti og lesa
svona bækur. Mig langaði bara í
þetta skiptið að gera það sem mér
finnst gaman, án þess að breyta mér
sem höfundi. Maður er auðvitað allt-
af sjálfum sér líkur hvað það varðar.
Mig langaði ekki að skrifa
b-litteratúr heldur bókmenntaverk
þar sem þetta element mætti vera
með,“ segir Sölvi Björn og tekur
fram að höfundur þurfi í ákveðnum
skilningi að hugsa eins og sálfræð-
ingur til að geta búið til trúverðugan
raðmorðingja í skáldsagnaformi.
„Maður verður að reyna að skilja
þann sem myrðir með trúverðugum
hætti. Þetta kemur allt fram í bók-
inni þannig að ég vil nú segja sem
minnst til að spilla ekki lestrinum.“
Stór hluti persóna er læknis-
fræðilega menntaður og nokkur lík
krufin í bókinni. Hvernig nálgaðist
þú það sem höfundur?
„Hugsanlega kynni þrælmennt-
aður læknir sem rýnir í lýsingar
mínar að gefa mér lága einkunn á
læknisprófinu, þótt þetta eigi nú allt
að vera í lagi,“ segir Sölvi Björn kím-
inn og upplýsir í framhaldinu að
hann hafi kynnt sér vel aðferðir við
krufningar og skurðaðgerðir eins og
þær eru framkvæmdar í nútímanum
og á sögutímanum. „Ég reyndi síðan
að finna trúverðugleika í þessum
fræðum. En auðvitað er skáldsaga
fyrst og fremst gerð fyrir lesandann,
hans skemmtun og upplifun. Eina
markmið höfundarins er að ná til les-
andans og geta veitt honum örlitla
gleði í smástund,“ segir Sölvi Björn
og tekur fram að sjálfum hafi honum
þótt gaman að dvelja í heimi sög-
unnar meðan hann var að skrifa bók-
ina. „Þótt bókin sé ekki stutt og tíma
hafi tekið að skrifa hana leiddist mér
aldrei meðan á því stóð.“
Fyrir tæpum tveimur árum
fékkstu Íslensku bókmenntaverð-
launin fyrir skáldsöguna Seltu. Upp-
lifðir þú einhverja pressu þegar kom
að því að senda frá þér þína fyrstu
bók eftir að verðlaunabókin kom út?
„Kannski fyndi ég til pressu ef
mér þætti þessi bók ekki vera betri
en Selta. Ég er sannfærður um að
þegar fólk er búið að lesa þessa bók
átti það sig á því að þetta er ekki
bara einhver glæpasaga sem ég
hristi fram úr erminni heldur vel
stúderað og mjög einbeitt verk rétt
eins og Selta, nema hvað mér finnst
þessi bara skemmtilegri.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Betri „Kannski fyndi ég til pressu ef mér þætti þessi bók ekki vera betri en
Selta,“ segir Sölvi Björn spurður hvort því fylgi pressa að fylgja Seltu eftir.
„Alltaf langað að skrifa slíka sögu“
- Bókin Kóperníka er bæði raðmorðingjasaga og söguleg skáldsaga um Kaupmannahöfn
- „Eina takmark höfundarins er að ná til lesandans og geta veitt honum örlitla gleði í smástund“
B
ókin Lóa og Börkur –
Saman í liði er fyrsta
skáldsaga Kjartans Atla
Kjartanssonar fjölmiðla-
manns en hann hefur áður skrifað
um körfubolta. Sagan segir frá
þeim Lóu og Berki, 15 ára gömlum
unglingum sem eru í sama skóla og
æfa bæði körfubolta með skólalið-
unum. Skólaliðin skipta miklu máli
í lífi nemenda í
Mýrarbrekku-
skóla í Reykjavík
og er umgjörðin
í anda ameríska
körfuboltans.
Það eru reglu-
lega leikir á milli
grunnskóla á Ís-
landi og er
spennan mikil. Í
byrjun sögunnar fellur einn liðs-
maður í drengjaliðinu, Tækni-
Tryggvi, niður og þar sem hann á
ekki afturkvæmt á völlinn er úr
vöndu að ráða til að halda þeirri
forystu sem liðið var með. Lóa seg-
ir frá upplifun sinni af þessu atviki
en það gerir Börkur líka og skiptist
bókin á þeirra frásögnum. Þau
upplifa þetta atvik sem og önnur
atvik í bókinni á misjafnan hátt en
titill bókarinnar gefur okkur vís-
bendingu um hvað gerist næst í
sögunni.
Börkur fær þá snilldarhugmynd
að fá Lóu í strákaliðið þar sem hún
er langbesti leikmaður kvennaliðs-
ins og gefur þeim bestu í karlalið-
inu ekkert eftir. Við þetta skapast
mörg ófyrirsjáanleg vandamál sem
ná hámarki í ferð liðsins austur á
land þar sem mikilvægur leikur fer
fram. Þar eru heldur betur brögð í
tafli og sumir svífast einskis til að
koma skoðunum sínum á framfæri.
Spennan er mikil í lok sögunnar og
nær höfundur að halda lesandanum
límdum við bókina með skemmti-
legum og lifandi lýsingum á at-
burðarásinni hvort sem það er í
samskiptum sögupersóna eða á ög-
urstundu í körfubolta.
Persónusköpun í bókinni heppn-
ast vel hjá Kjartani, hvort sem það
er meðvitað eða ekki þá er Lóa
hörð í horn að taka og lætur ekkert
troða sér um tær, en strákarnir
eru mýkri og tilfinningasamir.
Pabbi Barkar er áhugaverður en
frekari pirrandi stjórnmálamaður
en mamma hans er blíð og góð. Ég
sakna meiri breiddar í persónum
en Lóa er nánast eina kvenkyns
persónan þótt mæður þeirra Bark-
ar, Lóu og Njalla komi lítillega við
sögu.
Bækur sem fjalla íþróttaiðkun og
annað tómstundastarf sögupersóna
eru vinsælar hjá börnum sem ekki
hafa áhuga á ævintýrabókum og
vantaði tilfinnanlega bók um körfu-
bolta. Það kemur vel fram í þessari
sögu að höfundur hefur bæði
reynslu af og þekkingu á íþróttinni
sem hann nær að flétta inn í
spennandi frásögn um vináttu og
væntumþykju. Bókin er með góðu
letri og skemmtilega sett upp með
stuttum fréttum af atburðum inn á
milli sem brjóta söguna upp. Þótt
sagan fjalli um unglinga tel ég að
áhugasamir körfuboltaiðkendur á
aldrinum níu til fimmtán ára
myndu hafa gaman af þessari bók.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kjartan Atli Hann „hefur bæði reynslu af og þekkingu á íþróttinni sem hann
nær að flétta inn í spennandi frásögn um vináttu og væntumþykju“.
Körfuboltakrakkar kljást
Barnabók
Lóa og Börkur – Saman í liði
bbbnn
Eftir Kjartan Atla Kjartansson.
Sögur 2021.143 bls. innb.
RÓSA
HARÐARDÓTTIR
BÆKUR
Funahöfða 7, 110 Reykjavík | Sími 577 6666
KIEL/ - OG FRYSTITJEKI
., '*
-�-"%
,�rKu!,
Kæli- & frystibúnaður
í allar gerðir sendi- og flutningabíla
N Ý F O R M
H Ú S G A G N A V E R S L U N
Strandgötu 24 | 220 Hafnarfjörður | Sími 565 4100 | nyform.is
Mikið úrval af HVÍLDARSTÓ
með og án rafmagns lyftibún
Komið og
skoðið úrvalið
Óskum
landsmönnum
gleðilegra
jóla