Strandapósturinn - 01.06.2020, Qupperneq 108
107
en festist ekki á, einn og einn marhnútur beit á. Við fórum heim í kjall-
arann með færin, heldur vonsviknir. Okkur skildist nú að það að hafa stóra
króka var ekki nóg til að fá stóran fisk.
Seinna þetta sumar fékk Jakob sonur Axels stórlúðu á færi. Jakob og
Axel sögðu okkur Hössa frá hvernig það hafði gengið fyrir sig. Lúðan var
þung í drætti og ,,tók rykk við hvört“ sagði Jakob. Jakob hafði þá gefið
færið rólega út aftur, svo lúðan sliti sig ekki lausa og halað inn þegar lúðan
gaf eftir. Svona hafði þetta gengið um stund, þar til lúðan að endingu sást
frá bátnum. Axel sagði að hann hefði haft riffilinn tilbúinn, til að skjóta
lúðuna í hausinn þegar færi gafst. Óvænt hafði lúðan tekið á sig rykk og
slitið sig lausa. Axel og Jakob sögðu að þeir ætluðu að leggja haukalóð á
fjörðinn í von um að fá lúðu. Ég og Hössi vorum spenntir, höfðum aldrei
séð stórlúðu. Við vonuðum að lúðan færi að bíta á haukalóðina hjá Axel
og Jakob.
Um kvöldið kom mamma og spurði okkur Hössa hvort við hefðum
skorið krókana af haukalóðinni hjá Axel. Ha, nei, hvaða lóð, hvaða króka,
sögðum við í kór, skildum ekki hvað mamma var að tala um. Mamma fór
með okkur upp að reykkofanum og benti okkur á staðinn þar sem hauka-
lóðin hans Axels hafði legið. Þá skildist okkur hvað mamma var að tala um
og að við hefðum gert eitthvað miður gott. Mamma sagði að við yrðum
að fara strax yfir til Axels og biðja hann fyrirgefningar á þessu uppátæki.
Við mölduðum í móinn og þegar við vorum komnir hálfa leið hlupum við
í burtu, fórum uppá loft og settum slagbrand fyrir hurðina á herberginu
okkar.
Daginn eftir, þegar við sátum í eldhúsinu og borðuðum, stóð mamma
upp og tók í axlirnar á okkur og sagði; ,,þið komið með mér og biðjið Axel
fyrirgefningar, þið komið núna”. Við fylgdum mömmu, þorðum ekki annað,
mamma var ekki vön að vera svona ákveðin. Áður en við vissum af vorum
við komin yfir bæjarlækinn og nálguðumst húsið hjá Axel. Við spyrntum
við fótum og spurðum hvort við gætum ekki farið seinna að biðja Axel
fyrirgefningar. Mamma sagði ekki orð, hélt fast í axlirnar á okkur og gekk
hratt yfir túnið. Skömmin og óttinn jukust með hverju skrefi sem við
nálguðumst húsið hjá Axel. Hvað mundi Axel gera við okkur? Þegar við
vorum komin langleiðina yfir túnið þoldi Hössi ekki meira, tók á sig rykk,
sleit sig lausan og hljóp í burtu.