Morgunblaðið - 14.07.2022, Qupperneq 18
VIÐTAL
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@mbl.is
Einfalda þarf stjórnskipulag Land-
spítalans og til lengri tíma þarf að
breyta því hvernig hann er fjármagn-
aður til að hann geti staðið í fremstu
röð í samanburði við önnur ríki.
Þetta segir Björn Zoëga, forstjóri
Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, í
samtali við Morgunblaðið. Björn var í
gær skipaður stjórnarformaður
Landspítalans samhliða því sem ný
stjórn var skipuð. Hann hefur frá því
í desember jafnframt sinnt starfi ráð-
gjafa heilbrigðisráðherra samhliða
störfum sínum á Karolinska, hvar
hann mun áfram starfa sem forstjóri.
„Landspítalinn hefur um nokkurt
skeið staðið frammi fyrir ýmsum
áskorunum og það er því ýmislegt
sem þarf að gera til efla starfsemi og
rekstur sjúkrahússins, auka þjónustu
við sjúklinga sem og starfsánægju,“
segir Björn, spurður um helstu verk-
efnin framundan.
„Við höfum ekki náð að þróa spít-
alann og rekstur hans nægilega vel
og þurfum að gera betur ef við ætlum
að reka nútíma háskólasjúkrahús. Ég
hef þó trú á því að það sé hægt að
gera og í nýrri stjórn situr öflugt fólk
sem getur aðstoðað nýjan forstjóra
við að breyta því sem þarf að breyta.“
Flókinn rekstur
– Og hvað er það helst?
„Fljótt á litið þarf að einfalda
stjórnskipulagið,“ svarar Björn að
bragði. „Eins og vill oft verða á svona
stofnunum, og ég kannast við það frá
öðrum sjúkrahúsum líka, erum við
komin með of margt fólk sem er ekki
að vinna við það að þjónusta sjúk-
linga. Fjöldi þeirra hefur aukist
meira en þeirra sem vinna í beinu
sambandi við sjúklinga, og það geng-
ur ekki upp til lengri tíma. Það þarf
ákveðið jafnvægi í því. Við þurfum að
fækka stjórnlögum og einfalda hlut-
ina.“
Björn staldrar sjálfur við þessi orð
og útskýrir að rekstur sjúkrahúsa sé
flókinn og ólíkur rekstri fyrirtækja. Á
meðan fyrirtæki geti framleitt vörur
getur sjúklingur sem kemur inn á
spítala fengið um 18 þúsund mismun-
andi greiningar, 14 þúsund mögu-
leika um inngrip og tugi þúsunda val-
kosta um lyfjagjöf. Það sé því ekki
hægt að ákveða fyrirfram hvernig
þjónustu við alla sjúklinga sé háttað.
„Umræðan um það hvort sjúkra-
húsið sé nægilega vel fjármagnað og
hvernig það er fjármagnað hefur
staðið yfir lengi, en sambærileg um-
ræða á sér einnig stað erlendis í til-
fellum þar sem sjúkrahús eru rekin
fyrir opinbert fé – þá sérstaklega í að-
draganda kosninga.
Í grunninn snýst þetta þó um að
sjúkrahús fái greitt fyrir þá þjónustu
sem þau veita. Það má kalla það
framleiðslutengda eða þjónustu-
tengda fjármögnun. Þá greiðir ríkið
fyrir ákveðna þjónustu og veit hvað
það fær fyrir peninginn. Ég hef talað
fyrir þessu áður. Það er búið að taka
allt of langan tíma að koma á slíku
skipulagi hér á landi og við verðum
líklega með síðustu þjóðum í hinum
vestræna heimi sem taka upp það
fyrirkomulag í stað þess að hafa
sjúkrahúsið á föstum fjárlögum.“
Björn nefnir að vandamál Karo-
linska sjúkrahússins hafi verið sam-
bærileg. Sjúkrahúsið var um tíma
tekið af framleiðslutengdri fjár-
mögnun og sett tímabundið á föst
fjárlög. Það leiddi þó til þess að fram-
leiðsla þess lækkaði undir 90% af því
sem áður var og biðraðir mynduðust.
Að sama skapi hafi Karolinska verið
með of marga millistjórnendur.
„Á ákveðnu árabili voru ráðnir
fimm starfsmenn á skrifstofu eða í
stjórnendastörf hjá Landspítalanum
fyrir hvern einn klínískan starfs-
mann. Það gengur ekki til lengri tíma
og reynir verulega á þolrif þess fjár-
magns sem sjúkrahúsið hefur.“
Áskorun að hitta á núllið
Það virðist óhjákvæmilegt að ræða
um rekstur spítalans og fjármögnun,
eins og hér hefur verið gert að hluta,
enda snýst meginþorri umræðunnar
um þá þætti. Björn tekur undir það
en ítrekar að það eigi ekki bara við
hér á landi. „Það má segja að það sé
áskorun að hitta á núllið í svona
rekstri,“ segir hann.
„Ég get nefnt sem dæmi að mér
var ætlað að skila 63 milljónum
sænskra króna í hagnað á Karolinska
í fyrra en skilaði að lokum 740 millj-
ónum í hagnað. Þá fékk ég gagnrýni á
mig fyrir að skila of miklum hagnaði,
meðal annars frá stéttarfélögunum
og öðrum sem spurðu af hverju ég
hefði ekki eytt þessu fjármagni.
Hagnaðurinn var síðan tekinn af
sjúkrahúsinu og nýttur með öðrum
hætti af sýslunni sem sjúkrahúsið til-
heyrir og nýtist því ekki í ár, hvorki
til fjárfestinga né í annað. Þetta kem-
ur í veg fyrir hvata til að skila góðum
rekstri og er ástæða þess að sjúkra-
hús erlendis eru nú rekin sem fyrir-
tæki í fullri eigu ríkisins eða annarra
opinberra aðila, en með þeim hætti
verður hagnaðurinn eftir í rekstr-
inum og nýtist sem slíkur.“
– Við fáum reglulegar fréttir af því
að rekstur Landspítalans sé í járnum
með tilheyrandi myndum af sjúkra-
rúmum í bílageymslum og fleira. Er
einhver von til þess að spítalinn verði
vel rekinn?
„Já, við náðum þeim árangri á ár-
unum eftir hrun. Við fengum að vísu
stuðning frá stjórnvöldum til að fara í
gegnum hrunið en reksturinn var
góður og okkur tókst að skila afgangi
af rekstrinum,“ segir Björn.
„Það er hægt með góðu skipulagi
og vönduðum vinnubrögðum. Sumir
tala eins og þetta sé skip sem sé ekki
hægt að snúa við en ég er ekki sam-
mála því. Mesta áskorunin er að við-
halda ákveðnum stöðugleika. Um leið
og eitthvað byrjar að ganga vel þá
byrjar strax krafan um að fara í fjöl-
breytt verkefni sem standa mögulega
ekki undir sér.“
Meta starfsmannaþörfina
– Þú talar um að einfalda skipulag
og minnka umfang í stjórnskipulagi
spítalans. Það hefur áður verið fjallað
um að stjórnendum á Karolinska var
undir þinni stjórn fækkað um rúm-
lega 500. Þarf ekki að fara í sambæri-
legar aðgerðir hér til að bæta rekstur
Landspítalans?
„Við þurfum að bregðast við því
hvernig spítalinn er rekinn, meta
starfsmannaþörfina og einfalda
reksturinn. Það er hlutverk þeirra
sem veita honum forystu,“ segir
Björn. „Við þurfum óhjákvæmilega
að spyrja okkur að því hvort við séum
með of marga millistjórnendur á spít-
alanum. Ef það er raunin þá þyngir
það rekstur spítalans og ákvarðanir
eru teknar of langt frá starfsfólkinu á
gólfinu – sem á að stýra ansi miklu,
enda með sjúklinginn við hliðina á sér
og veit hvað þarf að gera. Við breytt-
um þessu á sínum tíma en svo hefur
því verið breytt nokkrum sinnum til
baka.“
Björn segir líka mikilvægt að velta
því upp hvernig verkaskiptingu innan
spítalans sé háttað. „Það eru fleiri
spítalar að fara í gegnum þá nafla-
skoðun um þessar mundir og reyna að
finna rétta jafnvægið í því hvaða stétt
á að gera hvað,“ segir Björn.
„Við höfum ekki endalaust af
starfsfólki til að sinna öllum verk-
efnum. Þetta er vissulega viðkvæmt,
líka erlendis, og því ekki séríslenskt
vandamál. Ég var nýlega á fundi með
evrópskum stjórnendum háskóla-
sjúkrahúsa og þar var bara eitt mál á
dagskrá; hvernig við ætlum að manna
spítalana næstu árin eftir Covid-
faraldurinn og hver á að gera hvað.
Þetta er stærsta málið í öllum helstu
ríkjum Evrópu.“
– Og liggur einhvern lausn fyrir?
„Það er engin ein heildarlausn en
fólk getur miðlað af reynslu enda eru
nokkrar þjóðir sem hafa byrjað að
vinna í þessu á undan okkur,“ segir
Björn og nefnir sérstaklega Finnland
þar sem stjórnendur sjúkrahúsa þar í
landi séu komnir lengra í þessari þró-
un en margir aðrir.
„Þeirra þekktasta dæmi er að þeg-
ar hjúkrunarfræðingur er ráðinn þá
er hann ráðinn á spítalann, ekki bara
ákveðna deild. Við þurfum að hafa
sveigjanleika þannig að hjúkrunar-
fræðingur hafi þekkingu til að sinna
störfum á einstaka deildum en geti
líka unnið á milli deilda. Mér sýnist að
við getum lært mikið af Finnum hvað
þetta varðar. Þeir hafa lengi haft
minna fjármagn á milli handanna og
hafa því þurft að skoða þessi mál. Það
eru hins vegar flestir spítalar að glíma
við þörf á starfsfólki eftir faraldurinn.
Það er ekki nóg að bæta bara fjár-
magni inn í rekstur spítala, það þarf
líka að vera starfsfólk til staðar.“
Huga að rannsóknarstarfi
Spurður um stöðu spítalans í al-
þjóðlegum samanburði og aðrar
áskoranir, segir Björn að huga þurfi
vel að rannsóknarstarfi hans í sam-
starfi við Háskóla Íslands.
„Það er ýmislegt sem bendir til
þess að við höfum dregist aftur úr í
þeim efnum, sem er líka slæmt fyrir
háskólann og alþjóðlegan samanburð
hans við aðra skóla,“ segir Björn.
„Það þarf líka að endurskoða og
meta menntun heilbrigðisstarfsfólks.
Það skýtur óneitanlega skökku við að
vera með kvóta á fjölda nemenda í
greinum þar sem þörf verður á auknu
vinnuafli næstu árin. Sumir segja að
spítalinn geti ekki menntað fleiri en
ég er ekki sammála því. Við þurfum
að hugsa út fyrir boxið til að leysa
þessi mál, það er hægt að mennta fólk
á öllum tíma sólarhringsins en ekki
bara á skrifstofutíma yfir veturinn.
Þá má líka velta upp þáttum eins og
því að við þurfum ekki að sérhæfa
okkur í öllu. Við eigum að geta sent
sjúklinga út í flóknari aðgerðir eða
flutt sérfræðinga til landsins hlut úr
ári til að gera þær aðgerðir. Það má
nefna sem dæmi að í Svíþjóð er búið
að ákveða að 5% af flóknustu aðgerð-
unum verða gerðar á örfáum sjúkra-
húsum. Það þýðir vissulega að ein-
hverjir þurfa að ferðast langt til að
komast í aðgerð en á móti kemur að
við náum að búa til betri sérfræðinga
með aukinni sérhæfingu og reynslu.
Við höfum ekki stærðarhagkvæmnina
til að gera allt sjálf hér á landi.“
Björn segir þó að lokum hann hafi
mikla trú á því að hægt sé að breyta
heilbrigðiskerfinu hér á landi til betri
vegar.
„Við þurfum að vera óhrædd við að
prófa nýja hluti og breyta hlutunum.
Við eigum aldrei að sætta okkur við
stöðnun,“ segir hann.
„Fólk sem vinnur með sjúklingum
er með tilgang sinn á hreinu, það vill
sinna sjúklingum vel. Stjórnendur
spítalanna þurfa að styðja það mark-
mið þeirra og skapa þeim góð starfs-
skilyrði.“
Einfalda þarf stjórnskipulag
- Björn Zoëga var í gær skipaður stjórnarformaður Landspítalans - Spítalinn staðið frammi
fyrir áskorunum- Snýst í grunninn um að sjúkrahús fái greitt fyrir þá þjónustu sem þau veita
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Landspítalinn Björn Zoëga, fv. forstjóri Landspítalans, hefur verið skipaður formaður stjórnar spítalans.
18 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. JÚLÍ 2022
Starfsmannafatnaður
fyrir hótel og veitingahús
Höfðabakka 9, 110 Reykjavík | Sími 561 9200 | www.eddaehf.is
Hótelrúmföt kristin@run.is | Starfsmannafatnaður thorhildur@run.is
Eigum allt fyrir:
• Þjóninn
• Kokkinn
• Gestamóttökuna
• Þernuna
• Hótelstjórnandann
Hótelrúmföt
Sérhæfum okkur í sölu á rúm-
fatnaði og öðru líni fyrir hótel