Skólavarðan - 2021, Qupperneq 4
4 SKÓLAVARÐAN HAUST 2021
KENNARASAMBANDIÐ / Leiðari
Barn sem finnur
tilgang í því sem það
fæst við sýnir oft
gríðarlega seiglu og
virðist þola ótrúlega
raunir og erfiðleika.
Leiðari
Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ
Um tilgang í námi
Í stórkostlegri þýðingu Halldórs
Laxness á Birtíngi eftir Voltaire er
þetta haft eftir Altúngu, lærimeistara
Birtíngs:
„Athugið hvernig nef manna
hafa verið gerð fyrir lonníetturnar;
enda höfum við líka lonníettur. Það er bersýnilegt
að fætur manna eru til þess gerðir að vera skóaðir,
enda höfum við öll eitthvað á fótunum. Grjót hefur
orðið til svo að hægt væri að höggva það sundur
og byggja úr því kastala; mesti greifinn í lands-
fjórðungnum verður að hafa best í
kringum sig; og til þess eru svínin
gerð að maður éti þau, enda erum við
étandi svín ár og síð: þar af leiðir að
þeir sem segja að alt sé í besta lagi
eru hálfvitar, maður á að segja að alt
sé í allrabesta lagi.“
Hér er rætt um tilgang, sem
er hugtak sem við skólafólk ættum
að taka reglulega til skoðunar og
ígrundunar. Hugtakið tilgangur
birtist oftar en hugtakið skóli í
aðalnámskrá og þá yfirleitt, eins og í
tilfelli Birtíngs, í einhverju samhengi
sem stýrir ferðinni.
Hvert barn sér í hendi sér að svín hafa ekki
þann eina tilgang að vera étin. Hafi svín einhvern
tilgang yfirleitt er ekkert ólíklegt að sá tilgangur sé
allskonar. Svín éta sjálf, hnusa af gróðrinum, njóta
veðurblíðunnar, leika sér og ærslast. Hver veit,
kannski kunna svín meira að segja að elska.
En hver er tilgangur barns í skóla?
Þetta stendur í aðalnámskrá grunnskólans: „Í við-
fangsefnum og aðferðum námsgreinanna kynnast
nemendur ólíkum sviðum veraldarinnar; heimi
hluta og hugmynda, náttúru og menningu. Þeir
fræðast um nærumhverfi sitt og fjarlæg heimshorn,
kynnast örheimi efnisagna og víðáttum geimsins.
Námsgreinar gefa nemendum færi á að kynna sér
og ræða siði og lífshætti, þekkingu og hugmyndir,
kenningar og staðreyndir, lögmál og reglur sem
gefa lífi þeirra og umhverfi merkingu og tilgang.“
Hér kemur að minnsta kosti fram að hlutverk
námsgreina sé að hluta til að glæða líf barna
tilgangi.
Þegar leikskólastjóri Aðalþings tók við
Íslensku menntaverðlaununum fyrir hönd skólans
fyrir stuttu var hann spurður hvort hann sæi ekki
mikinn mun verða á börnunum á þeim tíma sem
þau dveldu í skólanum. Svar hans var eitthvað á þá
leið að þegar börnin kæmu í skólana
væru þau hamingjusöm og ánægð.
Aðalatriðið væri að þau væru enn
hamingjusöm og ánægð við útskrift.
Mér þykir viturlegt að horfa
stundum á nám og skólastarf út frá
því sem við ætlum að varðveita frekar
en hinu sem við ætlum að bæta við
eða fjarlægja. Og ef það sem við erum
að reyna að bæta við er á kostnað
einhvers sem við viljum varðveita
þurfum við að hugsa okkar gang.
Einkenni manneskju sem finnur
tilgang í lífi sínu hefur lengi verið
þekkt. Þegar fólk er drifið áfram af
tilgangi umber það ótrúlegustu hindranir. Barn
sem finnur tilgang í því sem það fæst við sýnir oft
gríðarlega seiglu og virðist þola ótrúlega raunir og
erfiðleika. Kennari, sem horfir á barnið utan frá,
þarf að átta sig á því að þótt seigla og streð fylgist
að þá er það ekki streðið sem framkallar seigluna
heldur öfugt.
Ég hvet kennara til að lesa vel spjall í þessu
blaði sem ég átti við Pétur Þorsteinsson, skóla-
mann og mannvin á Kópaskeri, og hugleiða það
sem þar stendur. Sérstaklega þessi orð:
„Ég skildi loksins að það skiptir næstum engu
máli hvað lítil börn gera í skólanum, en öllu máli
hvernig þau gera það sem þau gera og hvers vegna
þau gera það sem þau gera.“