Skólavarðan - 2021, Qupperneq 19
HAUST 2021 SKÓLAVARÐAN 19
Kennaramenntun / DANMÖRK
N ý dönsk rannsókn
sýnir að menntun
danskra grunn-
skólakennara
stenst ekki
samanburð við
nágrannalöndin. Sömu sögu er að segja af
viðbótar- og endurmenntun kennara.
Rannsóknastofnunin Damvad
Analytics (DA) gerði rannsóknina
fyrir Danska menntunarráðið (Rådet for
Børns Læring) sem er ráðgjafarnefnd
danska menntamálaráðuneytisins. Í
rannsókninni var menntun kennara í
Danmörku borin saman við kennara-
menntun í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi,
Eistlandi, Hollandi, Skotlandi og þýska
sambandsríkinu Hessen. Sérfræðingar frá
viðkomandi löndum unnu að rannsókn-
inni í samvinnu við DA.
Styttri menntun og lakara skipulag
endurmenntunar
Á vefsíðu danska kennarablaðsins, Fol-
keskolen.dk, hefur verið fjallað ítarlega
um rannsóknina. Charlotte Rønhof,
formaður Danska menntunarráðsins,
dró þá ályktun eftir að hafa lesið
skýrsluna sem DA skilaði að menntun
danskra kennara jafnaðist engan veginn
á við samanburðarlöndin og varðandi
viðbótar- og endurmenntun kennara
væri Danmörk enn aftar á merinni.
„Við vissum fyrirfram að hér hjá
okkur er kennaramenntunin styttri en í
löndunum sem við berum okkur saman
við. Ég hafði hins vegar ekki áttað mig á
að við værum svona langt á eftir varðandi
endurmenntun kennaranna.“
Í Danmörku er eingöngu boðið upp
á kennaranám í starfsgreinaskólum (Pro-
fessionshøjskoler) þar sem námið miðast
við fjögur ár. Þetta er sama fyrirkomulag
og í Hollandi og Skotlandi, en í Svíþjóð er
grunnnám kennara fjögur ár og hálft ár til
viðbótar fyrir sérgreinakennara. Í Hessen
er námið mislangt, þrjú ár hið minnsta en
lengst fimm ár og veitir mismikil réttindi
til kennslu. Í Eistlandi, Finnlandi og
Noregi tekur fimm ár að fá starfsréttindi
sem kennari.
Nefndin sem var lögð niður
Í Danmörku hefur um árabil farið fram
mikil umræða um kennaramenntunina,
einkum hvort æskilegt væri að lengja
hana í fimm ár sem lyki með kandi-
datsprófi. Það myndi jafnframt opna leið
til doktorsnáms. Í tíð ríkisstjórnar Lars
Løkke Rasmussen (2015 – 2019) var
skipuð nefnd sérfræðinga sem ætlað var
að skoða þessa leið og meta kosti hennar
og galla. Minna varð úr starfi nefndarinn-
ar en til stóð því menntamálaráðherrann
í núverandi ríkisstjórn lagði hana niður.
Í staðinn var stofnaður vinnuhópur
sem ráðherrann nefndi þróunarhóp.
Þessum hópi, sem á að skila af sér síðar
í haust, er ætlað að benda á leiðir til
úrbóta, án þess að námið verði lengt
umfram núverandi fjögur ár.
Kennaraskólunum lokað
Árið 2008 ákvað danska þingið,
Folketinget, að öllum kennaraskólum
landsins skyldi lokað og námið færi eftir-
leiðis fram í nýstofnuðum sérgreinaskól-
um. Þessar breytingar voru frá upphafi
gagnrýndar og margir telja það mistök að
kennaraskólunum hafi verið lokað. Meðal
þeirra er Caroline Holdflod Nørgaard,
formaður samtaka kennaranema. Í
nýlegu viðtali við Folkeskolen.dk sagðist
hún álíta að sérstaða kennara-
námsins hafi horfið þegar það
varð hluti sérgreinaskólanna.
„Andrúmsloftið sem einkenndi
kennaraskólana er ekki til
staðar í starfsgreinaskólunum,
kennaranámið er orðið að
tannhjóli í stóru gangverki.
Stjórnendur hafa í mörg horn
að líta og kennaranámið skipar
ekki þann sess sem því ber.“
Margir skólamenn hafa á
síðustu árum lýst svipuðum
sjónarmiðum.
Caroline Holdflod
Nørgaard sagðist, í áðurnefndu
viðtali, ekki vera að kasta rýrð
á sérgreinaskólana, þaðan hefðu margir
góðir kennarar útskrifast. En það væri
hægt að gera betur, til dæmis með því að
taka upp aukna samvinnu við háskólana í
landinu. „En það eru stjórnmálamennirn-
ir sem ákveða.“
Í skýrslu DA er dregin upp dökk
mynd af ástandinu varðandi viðbótar- og
endurmenntun danskra kennara. Sam-
kvæmt því sem fram kemur í skýrslunni
fer ekki fram í Danmörku nein skipuleg
viðbótar- og endurmenntun starfandi
kennara.
Í Svíþjóð, Skotlandi og Eistlandi
er gerð krafa um að kennarar fái árlega
viðbótar- og endurmenntun. Í Svíþjóð
eiga kennarar rétt á 104 tímum á ári,
í Skotlandi 65 tímum og í Eistlandi
er kennurum gert að stunda 160 tíma
faglegt nám á hverjum fimm árum í starfi.
Milljarður árið 2014
Eftir miklar breytingar á kennslufyrir-
komulagi grunnskólanna (folkeskoler-
eformen) árið 2014 ákvað ríkisstjórn
Helle Thorning-Schmidt að verja einum
milljarði danskra króna (20 milljarðar
íslenskir) til viðbótar- og endurmenntun-
ar kennara. Jafnframt var sett fram
markmiðslýsing þar sem fram kom að
árið 2020 skyldu 95% allrar kennslu í
dönskum grunnskólum vera í höndum
kennara með sérþekkingu á viðkomandi
sviði. Þetta markmið var langt frá því að
nást og nú er miðað við árið 2025.
Þegar Folkeskolen.dk leitaði
skýringa á þessari seinkun hjá mennta-
málaráðuneytinu var svarið að þegar
langur tími væri til stefnu hætti fólki til
að slá hlutunum á frest og eftir mikið átak
árin 2014 og 2015 hafi áhugi kennara
ekki verið sá sami. Þeim kennurum sem
stundað hafa viðbótar- og endurmenntun
hefur fækkað frá árinu 2016.
Dorte Andreas, varaformaður
samtaka skólastjórnenda í grunnskólum,
sagði í viðtali við Folkeskolen.dk að hún
gæti tekið undir það með ráðuneytinu
að eftir breytingarnar í grunnskólunum
árið 2014 hefði orðið ákveðin vakning,
sem svo hefði smám saman fjarað út. En
skýringarnar væru hugsanlega
fleiri, „það er einfaldlega svo
mikið að gera hjá kennurum,
þeir hafa í sífellt fleiri horn
að líta í starfinu og eiga nóg
með það. Þótt það sé gott og
gagnlegt að sækja sér viðbót-
armenntun krefst það tíma og
orku. Sem kennarar hafa ekki,“
segir Andreas.
Í Eistlandi, Skotlandi og
Hollandi fá allir kennarar sem
eru að hefja störf sérstaka leið-
sögn fyrsta árið í starfi. Ekkert
slíkt er gert með skipulegum
hætti í Danmörku þótt sumir
skólar sinni slíkri aðstoð þegar
nýir kennarar bætast í hópinn. Formaður
danska menntunarráðsins sagði í
viðtali við Folkeskolen.dk að þetta sýndi
glögglega að Danir væru langt á eftir
nágrannaþjóðunum í þessum efnum.
Fimmti hver án menntunar
Í maí síðastliðnum birti Danska kennara-
sambandið niðurstöður könnunar sem
unnin hafði verið fyrir það. Tölurnar sem
þar birtust vöktu mikla athygli.
Árið 2019 voru 18,1% þeirra
sem starfaði við kennslu í dönskum
grunnskólum án kennaramenntunar. Í
sams konar könnun sem gerð var árið
2012 var talan 10,3%. Í viðtali á vefsíðu
samtakanna sagði Gordon Ørskov,
formaður dönsku kennarasamtakanna,
þetta ískyggilegar tölur: „maður spyr sig
hvað valdi, er það með ráðum gert að
ráða ófaglært fólk til starfa, útskrifast of
fáir kennarar, af hverju velja margir sem
ljúka kennaranámi aðra vinnu? Hver sem
skýringin kann að vera er þetta algjörlega
óviðunandi“.
Fjöldi réttindalausra kennara er
mjög mismunandi eftir sveitarfélögum
en í sumum þeirra voru rúmlega 30%
kennaranna án kennsluréttinda árið 2019.
Og 10,6% þeirra sem sinntu kennslu
þetta ár höfðu einungis lokið grunn- eða
menntaskólanámi. Gordon Ørskov segir
rannsóknir hafa sýnt að kennarinn sé
mikilvægasti þátturinn í öllu skólastarf-
inu. „Kennsla er flókið viðfangsefni og til
að sinna því þarf menntun.“
Við vissum fyrirfram
að hér hjá okkur er
kennaramenntunin
styttri en í löndunum
sem við berum okkur
saman við.
Charlotte Rønhof, formaður Danska
menntunarráðsins