Skólavarðan - 2021, Síða 29

Skólavarðan - 2021, Síða 29
HAUST 2021 SKÓLAVARÐAN 29 S á sem þetta ritar heyrði nafn Péturs Þorsteinssonar fyrst eftir að hafa starfað við kennslu í nokkur ár. Brátt fór hann að heyra nafnið ítrekað, ævinlega í því samhengi að eitthvað nýtt og spennandi í skólaþróun væri nú ekki nýrra en svo að Pétur hefði gert það nákvæmlega sama í skólanum á Kópaskeri fyrir áratugum. Eftir að hafa flett í gegnum gömul blöð var upplifunin eitthvað á borð við það sem ímynda má sér að fanginn í hellislíkingu Platóns hafi reynt þegar hann losaði af sér böndin og gekk út úr helli sínum og sá fyrirmyndir hverra skuggar höfðu fram að því verið allur veruleiki hans í botni hellisins. Sá skóli sem Pétur veitti forystu á Kópaskeri var stórmerkilegur fyrir margra hluta sakir. Nýleg netskrif fyrrum nemanda skólans sem nú býr í erlendri stórborg lýsa því hve afburða góður undirbúningur skólinn var fyrir lífið utan þess litla kassa sem alltof margir virðast búa í alla ævi og eru svo jarðaðir í. Það var ekki alveg auðsótt mál að fá Pétur í viðtal. Hann tók því að vísu ljúflega en honum er lítið um það gefið að hreykja sér af því sem hann hefur gert. Hann lifir fyrir líðandi stund og síðustu misserin hefur barátta hans gegn útskúfun og refsistefnu í fíkniefnamálum átt hug hans allan. Árum saman hefur hann barist gegn því sem hann telur miskunnarlausa hörkupólitík gegn ungmennum og öðru varnarlausu fólki. Og eftir að hafa lengst af verið hrópandi í eyðimörkinni er nú svo komið að margar þjóðir hafa tekið upp þá mannúðarstefnu sem Pétur hefur talað fyrir og umræða á þeim nótum er orðin hávær hér á Íslandi. Það er ekki í fyrsta sinn sem Pétur reynist á undan samtíma sínum. Fyrsta spurningin til Péturs var eins hefðbundin og hugsast getur.  X Hver er Pétur Þorsteinsson? „Ég fæddist 6. mars 1949 á Daðastöðum í Núpasveit. Faðir minn var af bændum kominn í allar ættir en móðir mín var dóttir skútuformanns á Bíldudal. Í henn- ar ættum voru sjómenn, smiðir og jafnvel fálkafangarar Danakóngs. Nágrannar mínir í æsku voru nítjándualdarfólk af bestu skúffu og bókmenntir og ljóðlist voru í hávegum höfð á flestum bæjum. Kaupfélag Norður-Þingeyinga sá um veraldlegar þarfir fólks en séra Páll Þorleifsson á Skinnastöðum þær andlegu. Þetta var ágætis kokteill. Enginn var ríkur og enginn bláfátækur – en mikil- vægast var að heyra aldrei talað illa um nokkurn mann, fyrir utan fáeina krata og sjálfstæðismenn í Reykjavík. Pabbi naut þess að rífast við þá í útvarpinu og hafði jafnan betur. Veröld sem var. Ég var svo stálheppinn að sleppa að mestu við barnaskóla og hafði þess í stað tíma til að lesa Lestrarfélag Núpsveitunga upp til agna, auk bókasafns heimilisins. Grímur Thomsen, Þorsteinn Erlingsson og Steingrímur voru mínir menn í bernsku, auk Grettis Ásmundarsonar, Hróa hattar og Línu langsokks. Unglingaskóla sótti ég í Skúlagarði og Lundi í Ax- arfirði og eftir landspróf lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri. Í MA lærði ég að meta áfengi, kosti uppreisnargirni umfram þægð, og umfram allt að efast um viðtekin sannindi. Satt að segja leiddist mér staglið svo óskaplega að ég sagði mig ítrekað úr skóla til að sleppa við að vera rekinn. Mér hefur alla tíð verið fyrirmunað að læra samkvæmt fyrirmælum, en haft yndi af því að sökkva mér í viðfangsefni sem heilla mig. Eftir stúdentspróf innritaði ég mig í líffræði í HÍ og ætlaði mér að verða fuglafræðingur. Verteraði yfir í félagsfræði þegar mér varð ljóst að fugla eða aðrar skepnur í heilu líki bæri sennilega ekki á góma fyrr en undir lok BS náms. Lífræn og dauðræn efnafræði í tvö ár var ekki heillandi kostur. Félagsfræðin var skárri, en Fylk- ingin, Mokka kaffi og Naustið voru miklu ánægjulegri skólastofur en Háskóli Íslands. Sleit endanlega námi í félagsvísindum með ófrávíkjanlegri kröfu um að skrifa lokaritgerð fyrsta árs, hjá pró- fessor Ólafi Ragnari Grímssyni, um efnið „Þingræðisskipulagið er prump“. Engu að síður hef ég enn mikinn áhuga á félagsvísindum, einkum afbrotafræði, og er sjálf- menntaður félagsdýrafræðingur að eigin sögn.“  X Hvernig stendur á því að þú varðst skólamaður? „Það var sögulegt stórslys enda var ég harður á móti skólum. Sumarið 1971, eftir mislukkað nám í líffræði og félagsfræði, ákvað ég að gerast bóndi í félagi við tvo vini mína. Við stofnuðum Félagsbúið á Daðastöðum, þrír ungir hippar með hár niðrundir olnboga og rangar skoðanir á öllum hlutum. Það þótti sveitungum mínum ekki ónýtur liðsauki og KNÞ lánaði okkur byggingarefni til að snara upp stærstu fjárhúsum á landinu, auk feiknalegrar votheyshlöðu og fyrsta fjölbýlishúsi í sveit á Íslandi. Í þá daga hjálpuðust menn að við byggingar; sveitungarnir hjálpuðu okkur og við þeim, eftir því sem unnt var. Engum datt í hug að nefna peninga. Til að fjármagna kaup á International Harvester dráttar- vél, plóg og herfi, gerðumst við félagar kennarar veturinn 1971 til 1972, en ég varð skólastjóri í Grímsey. Þá hafði ég enga bók lesið um skólamál aðra en Summerhill. Grímsey var ekki feitt brauð fjárhagslega en ákaflega lærdómsríkt og þar kynntist ég góðu fólki sem enn eru vinir mín- ir. Nemendur áttu að vera tíu, en urðu ellefu þegar ungur drengur, sex vetra, bankaði uppá og sótti um skólavist. Það var auðsótt mál. Eldri deildin var í skóla fyrir hádegi en sú yngri eftir hádegi. Ég var einn um alla kennslu og það var talið 80% starf. Þrátt fyrir óbeit mína á skólum var ég svo fastur í hefðinni að ég eyddi löngum tíma í að semja stundaskrár fyrir deildirnar mínar tvær á meðan bóndinn á næsta bæ stóð í heimaslátrun. Riffilskotin voru viðeigandi undirleikur við mitt gagnslausa puð. Eftir viku kennslu rann upp fyrir mér ljós. Stundaskrár voru hrein fjarstæða í Grímsey og í tilefni af þeirri hugljómun bárum við þær á eld útá tröppum. Þess í stað ákváðum við að velja verkefni vikunnar á reglulegum fundum og þar hafði hver maður eitt atkvæði og mitt vóg engu þyngra en atkvæði nemenda. Það kom fyrir að við tókumst harkalega á um verkefni vikunnar. Mér er einn fundur sérlega minnisstæður, en þá lagði ég til að við notuðum góða veðrið og stunduðum rannsóknir í fjörunni. Nemendur í eldri deild mótmæltu einarðlega og sögðust bókstaflega ekkert kunna í málfræði og vildu nota vikuna til að bæta úr því. Eftir snörp átök gengum við til atkvæða og tillaga mín var felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Eftir vikuna voru nemendur orðnir ansi sleipir í málfræði og skemmtu sér við að læra fornöfn utanað. Á öðrum fundi varð niðurstaðan sú að við þyrftum bara eina skólareglu – það á að vera vinnufriður í kennslustofunni og þeir sem ekki sætta sig við það verða að ganga út. Ég var sá eini sem var rekinn út fyrir að trufla námið Stundaskrár voru hrein fjarstæða í Grímsey og í tilefni af þeirri hugljómun bárum við þær á eld útá tröppum. Viðtal Rottusálfræðin verst Ragnar Þór Pétursson ræðir við Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri. Pétur Þorsteinsson / VIÐTAL

x

Skólavarðan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.