Skólavarðan - 2021, Síða 43
HAUST 2021 SKÓLAVARÐAN 43
Jórunn Einarsdóttir / VIÐTAL
kennslan auðvitað fyrst upp í hugann og
sú staðreynd að hér er fjöldi fólks sem
hefur ekki aðgang að íslensku og fullt af
fólki úti um alla Evrópu og allan heim
svo ég spurði mig hvers vegna ég færi
þá ekki að sinna þessum stóra hópi,“
segir Jórunn frá vangaveltum sínum að
meistaranáminu loknu.
Hún játar að á þessum tíma hafi
hún verið mjög upptekin af því að
kennsla væri eitthvað sem aðeins væri
hægt að framkvæma í kennslustofu, en
nú er staðan hins vegar sú að kennsla
Jórunnar fer nánast að öllu leyti fram
gegnum skjá – og reyndar voru þeir
kennsluhættir til komnir löngu fyrir tíma
heimsfaraldursins sem loks er í rénun
eftir langa mæðu.
„Ég stofna Kötlu 2018 og því löngu
farin að kenna gegnum skjá fyrir Covid,
en svo sprakk þetta alveg út í Covid. Fólk
fór þá að eiga mun auðveldara með að
tileinka sér þessa tækni og hætta að líta á
skjáinn sem einhvern flöskuháls eins og
hann var í augum margra áður. Núna er
þetta ekki lengur eitthvað sem fólk setur
fyrir sig,“ segir Jórunn og viðurkennir í
framhaldinu aðspurð að hún sé reyndar
ekki mjög glúrin í markaðssetningu,
viðskiptavinir hennar leiti mun fremur
til hennar eftir að hafa heyrt af henni
og þeirri kennslu sem hún starfrækir
gegnum Kötlu.
Líður vel í Danmörku
„Ég nota nú bara mest samfélagsmiðla
og fólk sendir mér fyrirspurnir. Mitt
kennsluform hefur fram að þessu mest
verið einkakennsla þar sem ég er bara
með einn og einn nemanda í einu, en auk
þess hef ég verið með námskeið í íslensku
í Jónshúsi fyrir nemendur sem komast
ekki á þeim tíma þegar íslenskuskólinn
á vegum sveitarfélagsins er,“ útskýrir
Jórunn.
Starfsemi hennar teygir stafræna
anga sína þó víðar, meðal annars til
Íslands þar sem Jórunn vinnur nú að
því í samstarfi við Öryggismiðstöðina að
búa til íslenskunámskeið handa erlendu
starfsfólki fyrirtækisins sem ætlað er
að nýtast því við að ná betur utan um
starfsemi vinnuveitandans og eigin
starfsvettvang.
Jórunn og Ágúst eru að hennar sögn
ekki á þeim buxunum að flytjast búferl-
um á næstunni. „Okkur líður rosalega
vel hérna, kunnum vel við Danina og
höfum bara komið okkur þannig fyrir
að lífið er bara nokkuð ljúft,“ segir hún,
en Ágúst starfar sem heimilislæknir í
Kaupmannahöfn. „Þannig að við erum
bara í góðum málum,“ eru lokaorð
Jórunnar Einarsdóttur, íslenskukennara
í Kaupmannahöfn sem áttaði sig á því
að þegar maður er kennari þá er maður
kennari þótt hefðbundin kennslustofa sé
ekki alltaf vettvangurinn.
Jórunn Einarsdóttir íslenskukennari segir að lífið í Danmörku sé „bara nokkuð ljúft“ og hún sé ekki á þeim
buxunum að flytjast búferlum á næstunni.