Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2008, Blaðsíða 53
Við mágurinn lögðum af stað úr
Reykjavík klukkan rúmlega tíu morg-
uninn eftir. Við áttum að byrja að veiða
klukkan þrjú en það er dágóður spölur
austur að sjóbirtingsánni og ég vildi
hafa nægan tíma til að fá mér að borða á
Hvolsvelli, skoða veiðibókina þegar aust-
ur kæmi og gera græjurnar klárar.
Í ljós kom að mágurinn virtist þekkja
ána betur en lófann á sér en raunar
fór sú vitneskja fyrir lítið því næstu
klukkustundirnar sást svo gott sem ekk-
ert í lófann á honum fyrir bjórdósum og
viskípelum. Hann opnaði fyrsta baukinn
í Ártúnsbrekkunni og var kominn í það
sterka í Kömbunum.
– Djöfulsins vitleysingar eru þetta,
muldraði hann og þurrkaði viskíbrákina
af vörunum á sér með handarbakinu.
– Hvað meinarðu? spurði ég og hafði
augun á veginum.
– Þessir vitleysingar sem fara alltaf
aftur og aftur í þessa heimskulegu á.
– Hvað meinarðu? endurtók ég annars
hugar.
– Hvað meina ég? Bara að þetta eru
vitleysingar. Það er ekkert að hafa þarna
og hefur aldrei verið.
– Nú? Af hverju segirðu það?
– Ég veiddi þarna áratugum saman með
einhverjum bölvuðum vitleysingum sem
aldrei fengu bein en vildu samt alltaf fara
aftur og aftur. Þeir trúðu sama söngnum í
bóndavitleysingnum sem sagði að sjóbirt-
ingsvöðurnar væru til vandræða, það væri
svo mikið af fiski að hann væri farinn að
sullast yfir tún og engi. Ég hætti að fara
og hef ekki farið í tíu eða tuttugu ár. Sá
aldrei bein þarna!
– En af hverju ertu þá að fara núna?
– Greiðasemi við vitleysinginn hann
Bjössa mág minn. Hann vildi ekki senda
þig einan, sagði mágurinn, skrúfaði
tappann á viskípelann og fékk sér fjórða
bjórinn. – Er þér sama þótt ég reyki í
bílnum?
– Nei, helst ekki, svaraði ég og horfði á
hann kveikja sér í sígarettu.
– Andskotans vitleysingar allir saman,
blés hann út úr sér með reyknum.
– Já, þú segir það, muldraði ég til að
segja eitthvað.
Klukkan ellefu bað mágurinn mig að
kveikja á fréttunum í útvarpinu. Hann
hlustaði með andakt, annað slagið hnuss-
aði í honum, inn á milli dæsti hann og
að lokum teygði hann sig í takkann og
slökkti á tækinu.
– Þetta eru nú meiri vitleysingarnir.
Eintómt píp frá A til Ö, allan fréttatímann
út í gegn. Vitleysingar að tala við vitleys-
inga um vitleysinga. Ég er alveg gáttaður
á þessu liði. Mágurinn slokraði í sig rest-
inni úr fyrsta viskípelanum og sagðist
síðan vilja koma því að, en í algjörum
trúnaði þó, að mágur hans, en besti vinur
minn, hann Bjössi, væri mesti vitleysing-
urinn af þeim öllum. Tótal asshól, eins og
drafandi mágurinn orðaði það.
– Ég held að það sé ekki til annar eins
vitleysingur og hann Bjössi. Hann fer ár
eftir ár í þennan drullupoll fyrir austan
með einhverjum vitleysingum og trúir
alltaf eins og nýju neti því sem bóndavit-
leysingurinn segir.
– Ég fer með honum að veiða – ertu þá
að segja að ég sé vitleysingur? spurði ég
og velti því andartak fyrir mér hvort ég
ætti að sitja undir slíkum ávirðingum, sá
fljótt að það yrði engu tauti við þennan
mann komið og hafði mig því hægan.
– Ef þú ert vitleysingur þá verðurðu
bara að eiga það við sjálfan þig, sagði
mágurinn, fékk sér aðra sígarettu og opn-
aði enn einn bjórinn.
Við brunuðum í gegnum Hellu og mág-
urinn opnaði annan viskípela með þeim
ummælum að í Rangánum veiddu engir
nema vitleysingar, þetta væri skítaspræna
með eldisfiski og klósettpappír. Þegar við
nálguðumst Hvolsvöll sagðist hann þurfa
út að míga.
– Já, ég þarf hvort eð er að taka bensín.
– Helvítis vitleysingarnir, búnir að
breyta sjoppunni, tautaði mágurinn og
steig völtum fótum út á planið fyrir utan
bensínstöðina. – Andskotinn, það er búið
að snúa öllu á hvolf hérna, slefaði hann
út úr sér þegar hann settist aftur upp í
bílinn á að giska hálftíma seinna, með
kokteilsósuslettur á skyrtunni og blátt
hamborgarabréf í öðru munnvikinu.
Sjómannablaðið Víkingur - 53
Ragnar Hólm Ragnarsson
Vitleysingarnir
Ferðin sem aldrei var farin
Á þessum stól hefði mágurinn sómt sér vel.