Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.10.2022, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.10.2022, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.10. 2022 heiðra sína upprunamenningu. Það er hægt að vera hvort tveggja; stoltur Kanadamaður og íslenskur,“ segir hún. „Ég skoðaði allt út frá bókmenntum, en bók- menntir hafa gegnt svo stóru hlutverki hjá þessu samfélagi í Kanada,“ segir Daisy og nefnir orð sem hafa lifað með fólkinu og lifa jafnvel enn. „Amma og afi! Góða nótt. En þau breyttu svolítið góðan dag í góðan morgun. Svo segja þau orðin vínarterta og skáld. Þessi orð lifa áfram.“ Fólk byrjaði oft að gráta „Þegar ég lauk við doktorsritgerðina fór ég aðra leið í bókmenntarannsóknum, en svo skemmtilega vildi til að upp kom tækifæri til að vera með í stóru rannsóknarverkefni um ís- lensku í Vesturheimi og samspil máls og menningar í þessu samhengi. Við fórum í rannsóknarferð árið 2014 og tókum alls konar viðtöl við fólk af íslenskum ættum, ekki ein- göngu í Kanada heldur líka í Norður-Dakóta. Þetta var svo skemmtilegt! Það var verið að rannsaka fólk sem ólst upp við íslensku og tal- aði jafnvel íslensku, en ég var að skoða menn- inguna frekar en tungumálið og gat því talað við alla, ekki bara þá sem töluðu smá íslensku. Ég skal segja þér að þetta er þessu fólki svo rosalega mikið mál og dýrmætt að fólk byrjaði oft bara að gráta. Ég spurði þau af hverju það skipti þau svona miklu máli að vera af íslensk- um ættum. Oft svöruðu þau að þau ættu svo rosalega góðar minningar af ömmu og afa, og stundum mömmu og pabba. Þau nefndu að Ís- lendingar væru svo barngóðir og þar væri svo mikil ást. Það voru svo sterkar minningar. Þau fengu í raun í arf þessa ást á íslenskri menn- ingu,“ segir Daisy. „Þetta hafði mikil áhrif á mig. Ég hafði skoðað og stúderað þessar bókmenntir en þarna í fyrsta sinn fann ég virkilega inni í mér hvað þetta var fólki mikið hjartans mál,“ segir hún og segist hafa orðið hissa á því hversu djúpt þessi íslenska arfleifð risti í sálir þessara Kanadamanna. „Kona þarna sagði afa sinn hafa sagt við sig: „Þó að þú missir allt í lífinu, þá týnirðu aldrei því að vera Íslendingur.“ Þetta var svo mik- ilvægt fyrir hana, að vera af íslenskum upp- runa, allt hitt voru bara hlutir og peningar,“ segir hún. „Fjölskyldubönd eru sterk á Íslandi og þau eru það líka hjá þessu fólki,“ segir Daisy og segir verkefni sem kallast Snorraverkefni afar vinsælt, en þá koma hingað ungmenni sem kynnast landi og þjóð og tengjast sínum skyld- mennum hér. „Þessir krakkar eru kannski einn áttundi ís- lenskir en velja að skoða þessa arfleifð frekar en kannski sínar ensku ættir. Einn sagði við mig: „Það er leiðinlegt að vera af enskum ætt- um, það er ekkert spennandi,““ segir hún og hlær. Draumurinn var að setjast hér að Daisy hefur að vonum farið á árlegu Íslend- ingahátíðina í Gimli í Winnipeg, Íslendinga- daginn, en hann var einmitt haldinn nú í sumar í 133. sinn. „Þetta er hátíð sem byrjaði sem einn dagur en er nú heil helgi; okkar verslunarmanna- helgi. Þar er mjög skemmtileg blanda af ís- lenskum og kanadískum hefðum. Fjallkonan er þar og er sú hefð mjög sterk. Svo er þar skrúðganga sem er meira kanadísk. En það var Anne Brydon mannfræðingur sem skrifaði um að hinn raunverulegi Íslendingadagur ætti sér stað á bak við tjöldin þegar fólk hittist og deilir æskuminningum sínum og sögum. Það er ekki aðgengilegt öðrum; það er fyrir Íslend- ingana,“ segir Daisy og segir Winnipeg afar fjölmenningarlega borg og er Íslendingadag- urinn sóttur af fleirum en þeim sem af íslensk- um ættum eru. Daisy bjó í Winnipeg alls í um sjö ár, fyrst þegar hún skrifaði meistara- og doktors- ritgerðir en síðar kenndi hún í fimm ár við ís- lenskudeildina í háskólanum þar. „Það voru ekki margir nemendur, ekki fleiri en tíu, og ekki allir af íslenskum uppruna. Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Daisy og fór hún þaðan til London og kenndi íslensku við UCL-háskólann. „Þar var staða sem kölluð var Halldór Lax- ness-staðan en þarna var íslenska kennd til BA-náms. Þarna kenndi ég í tólf ár,“ segir Daisy og hefur því kennt íslensku hálfa ævina eða svo, en hingað flutti hún árið 2011. Hér á landi hefur hún kennt íslensku sem annað tungumál við Háskóla Íslands sem aðjúnkt síð- an 2013, en fyrsta vinnan hennar var að kenna íslensku hjá Mími. „Ég ákvað loksins að láta af því verða að flytja hingað fyrir fullt og allt. Það var alltaf draumurinn. Ég sagði upp starfinu í London og flutti hingað án þess að hafa neitt starf. Ég ákvað bara að vera eins og ekta Íslendingur og segja: „Þetta reddast!““ segir hún og hlær. „Í gegnum árin hef ég eignast góða vini hér og á þessa frábæru fjölskyldu. Ég mætti hing- að með nokkrar ferðatöskur og maðurinn minn kom seinna með gáminn. Hann vinnur nú í hugbúnaðardeild Marels. Hann er frá Kanada en ekki af íslenskum ættum,“ segir hún og hlær. Messíasarduld og hámhorf Hvað fannst honum um að flytja til Íslands? „Ég var náttúrlega með Ísland vel á heil- anum þegar við kynntumst þannig að hann vissi það strax. Það var svolítið þannig: „Ef þú vilt mig þarftu að taka Ísland með. Við komum sem pakki,““ segir hún og skellihlær. „Honum fannst þetta voða spennandi og var alveg til í að kynnast öðrum löndum og menn- ingu og hér hefur honum verið tekið vel.“ Er eitthvað í íslenskunni sem þér finnst enn erfitt? „Að beygja rétt!“ segir hún og hlær. „Það er ennþá erfitt að vera alltaf að hugsa um að beygja rétt. Þær eru það erfiðasta við íslensku. Og kannski líka að skrifa formlega á íslensku, eins og fræðigreinar. Ég læt alltaf lesa yfir og fæ þær gjarnan til baka allar rauð- ar. Og ég sem hélt ég væri með allt á hreinu,“ segir hún og hlær. „En það er þannig með hvaða tungumál sem maður lærir, maður er aldrei búinn að læra allt. En ég elska íslensku og mér finnst allt svo skemmtilegt og áhugavert og ég vil alltaf læra meira,“ segir hún og segist enn vera að læra ný orð. „Ég lærði um daginn orðið messíasarduld. Og orðið hámhorf. Að hámhorfa.“ Glatað að byrja á ensku Finnst þér Íslendingar ekki nógu duglegir að tala íslensku við útlendinga? „Það er ekki mín reynsla en þá verð ég líka að taka það skýrt fram að þegar ég var á því stigi að ég þurfti mest á því að halda að fólk talaði íslensku við mig, þá var Ísland allt annað en núna. Fólk á Húsavík talaði ís- lensku við mig, enda var þetta lítill bær og fólk vissi hver ég var og að ég væri þarna til að læra íslensku. En ég heyri það hjá mann- inum mínum og nemendum mínum að það er rosa mikið vandamál að fá Íslendinga til að tala íslensku þegar þeir heyra hreim,“ segir hún. „Það eina sem ég hef rekið mig á er að þegar fólk sér nafnið mitt þá byrjar það stundum fyrst að tala ensku,“ segir hún og segir samfélagið orðið miklu flóknara en það var áður. „Kannski þurfum við að venja okkur á að byrja alltaf á að tala íslensku við alla. Eitt sem ég þoli ekki þegar ég fer á kaffihús er að þjón- ustufólk segir strax: „English please!“ Þótt það tali ekki íslensku getur það að minnsta kosti lært að segja góðan daginn, kaffi og takk. Í það minnsta! Það er algjörlega glatað að byrja á „English please!““ Orðið grýlukerti svo rómantískt Nú er rúmur áratugur síðan Daisy flutti til landsins og nýtur hún sín vel hér við íslensku- kennsluna. Eiginlega veit hún fátt skemmti- legra! „Ég kenni fólki frá ýmsum löndum. Sumir eru skiptinemar en aðrir búa hér og vilja læra að tala rétt. Það eru rosalega margir; allt frá hundrað til hundrað og fimmtíu nem- endur á fyrsta ári, en ég kenni aðallega tal- þjálfun í litlum hópum. Þetta er æðislegt og mikil forréttindi að fá að vinna við þetta. Það er svo gaman að vinna við að kenna fólki þetta frábæra tungumál og ég reyni að smita frá mér áhuganum. Það er mýta að íslenska sé svo miklu erfiðari en önnur tungumál og að það sé ómögulegt að læra hana; það er alls ekki satt. Það þarf ekki alltaf að hamast á málfræðinni heldur er líka hægt að leggja áherslu á hvað sé skemmtilegt við íslensku. Það eru svo mörg skemmtileg orð í íslensku. Við vorum einmitt að ræða það í morgun þeg- ar einhver spurði hvaða orð væri notað yfir þann sem talar mjög mikið. Ég sagði orðið vera málglaður og þeim fannst það alveg frá- bært orð!“ Áttu þér uppáhaldsorð í íslensku? „Þau eru mörg. Ég man eftir einu sem mér finnst svo æðislegt: grýlukerti. Mér finnst það svo rómantískt; grýla með kerti! Ég sá strax fyrir mér heilan þjóðsagnaheim. Svona orð eru svo skemmtileg. Og svo eru mörg frá- bær orðatiltæki, eins og að vera eins og álfur út úr hól.“ Ég er bara íslensk Kaffið er orðið kalt í bollunum og kominn tími til að slá botninn í samtalið. Síðasta spurningin er eftir. Er eitthvað við Íslendinga sem fer í taug- arnar á þér? „Agaleysi og skipulagsleysi. En ég reyni að læra af því. Stundum þegar ég fer til Hollands og einhver vill skipuleggja eitthvað með þriggja mánaða fyrirvara eða meir segi ég bara: „Eigum við ekki bara að slaka aðeins á?““ segir hún og segir reyndar Íslendinga hafa marga kosti umfram aðrar þjóðir. Hún nefnir samkennd, góðmennsku og sjálfs- traust. „Ég vildi stundum að ég hefði þetta sjálfs- traust sem margir hér hafa. Þið eruð alveg ágæt og meira að segja svo ágæt að ég vil bara vera hérna. Ég er íslenskur ríkisborg- ari og mjög stolt af því. Holland viðurkennir ekki tvöfalt ríkisfang þannig að ég er í raun ekki lengur Hollendingur. Ég er bara ís- lensk.“ ’ Kona þarna sagði afa sinn hafa sagt við sig: „Þó að þú missir allt í lífinu, þá týnirðu aldrei því að vera Íslendingur.“ Þetta var svo mikilvægt fyrir hana að vera af íslenskum uppruna, allt hitt voru bara hlutir og peningar. „Kannski þurfum við að venja okkur á að byrja alltaf á að tala íslensku við alla. Eitt sem ég þoli ekki þegar ég fer á kaffihús er að þjónustufólk segir strax: „English please!““ segir Daisy. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.