Borgfirðingabók - 01.12.2016, Page 24
24
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
gæta að þekkti enginn þeirra sínar fætur frá hinna. Með þetta voru þeir
lengi í stöku ráðaleysi; þeir þorðu ekki að hreyfa sig því þeir vissu ekki
nema þeir kynnu að taka skakkt til og taka hver annars fætur og sátu
svona þangað til þar bar að ferðamann. Þeir kölluðu til hans og báðu
hann í öllum bænum að þekkja í sundur á þeim fæturna. Maðurinn
gekk til þeirra og sló með stafnum sínum á lappirnar á þeim og kannaðst
þá hver við sínar.“ (Þjóðsögur Jóns Árnasonar.)
SÝÐUR OG BULLAR Í ÞEIM ÖLLUM
Hverir og laugar, ekki síst goshverir, vöktu mikla athygli erlendra rann-
sóknarleiðangra sem gerðir voru út til Íslands á síðari hluta átjándu aldar
og í byrjun þeirrar nítjándu. Þá er mikið fjallað um jarðhita í ferða bók-
um íslenskra vísindamanna frá þessum tíma.
Norðan Hvítár, milli hennar og Norðurár, eru nokkrar smálaugar við
árbakkana og hjá Þverá. Helst þeirra er Veggjalaug. Fólk úr grenndinni
notar laugar þessar nokkuð, en þó eru þær lítið notaðar hjá hinum,
sem áður var getið. Þannig segja Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá
hverunum í Stafholtstungum í kafla Ferðabókar um hveri og laugar
í Borgarfirði. Þeir ferðuðust um héraðið, aðallega á árunum 1753 til
1755.
Höfundur greinarinnar hefur ekki séð getið um hverinn í landi Staf-
holtsveggja í eldri prentuðum heimildum. Vakin er athygli á að þarna er
hann nefndur Veggjalaug og það virðist vera það heiti sem lengst hefur
verið notað.
Veggjalaugar er einnig getið í bréfum sænska prestsins Uno von Troil
en hann var hér á ferð í rannsóknarleiðangri Josephs Banks árið 1772.
„Við Hvítá og Þverá eru víða heitar laugar og böð, og er Veggjalaug
þeirra kunnust.“ (Bréf frá Íslandi.)
Ekki er hægt að fullyrða af frásögnum Eggerts og Bjarna og von Troil
að þeir hafi sjálfir komið á staðinn. Frásagnir þeirra staðfesta hins vegar
að Veggjalaug hefur verið mesta og þekktasta jarðhitasvæði Mýrasýslu.
Skoski trúboðinn Ebenezer Henderson kom að laugunum árið 1815.
„Eftir klukkustundar ferð komum við að Stafholti, þar sem prófastur inn,
síra Pjetur Pjetursson, tók mjer hið bezta. Bærinn stendur á dálítilli hæð,
fyrir austan Norðurá, og er þaðan fögur útsýn til Skarðsheiðar, hinn-
ar eystri og hinnar vestri, og til hinnar einkennilegu og keilumynduðu
Baulu, ásamt tveim smærri fjöllum, sem amtmaðurinn sagði að væru