Borgfirðingabók - 01.12.2016, Blaðsíða 262
262
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
tókst að útvega 300 ríkisdala frá konungi til að koma á fót vefsmiðju að
Leirá árið 1751. Eftir að framkvæmdum við byggingu verksmiðjuhúsa
Innréttinganna í miðbæ Reykjavíkur var lokið árið 1754 var vefsmiðjan
að Leirá flutt þangað. Hrefna Róbertsdóttir, sagnfræðingur, hefur
kannað mjög tengsl „Hinnar íslensku vefarafabrikku“ og Innréttinganna
og kemst að því að það voru sömu menn sem stóðu að vefarafabrikkunni
og áttu hlut í Hinu íslenska hlutafélagi og bókhald vefsmiðjunnar fyrir
árin 1751-1754 er varðveitt með heildaruppgjöri Innréttinganna. Árið
1756 var hinu 300 dala framlagi konungs frá 1751 breytt úr láni í styrk
til Innréttinganna. Þessi rök ásamt fleiri rökum færir Hrefna fyrir því að
Hið íslenska hlutafélag hafi byrjað starfsemi sína að Leirá í Leirársveit,
en ekki í Reykjavík.6 Það er því ekki úr vegi að telja vefsmiðjuna að Leirá
upphafið að allsherjarviðreisninni.
Árið 1752 var tækjabúnaður aukinn að Leirá, m.a. var keyptur rokk-
ur, hespa og litunarefni, vefstóll var kominn áður. Árið 1754 fluttist
vef smiðjan frá Leirá til Reykjavíkur í Aðalstræti, en hún var fyrsta fram-
kvæmd Hins íslenska hlutafélags. Einnig hafði verið starfrækt vefsmiðja
á veg um Innréttinganna að Bessastöðum, sem var flutt til Reykjavíkur
1755-1756. Vefsmiðjurnar í Reykjavík voru starfræktar til ársins 1803.
HVERNIG VAR ÞJÁLFUN OG KENNSLU STARFSMANNA HÁTTAÐ?
Til vefsmiðjunnar að Leirá var þýski taumeistarinn Adam Ritter ráðinn
árið 1751, til þriggja ára. Hann átti að útskrifa sveina í handverki og
veita almenna tilsögn um meðhöndlun ullarinnar, auk þjálfunar starfs-
fólksins í hinum ýmsu störfum. Einnig átti hann að útvega áhöld og
sjá til þess að verkfæri skorti ekki við framgang nýrra vinnubragða í
vefnaði og ullarvinnu í landinu. Hluthöfum hafði verið boðið að senda
fólk sitt til skemmri dvalar að Leirá til að nema verkhætti hjá Ritter, að
lágmarki tvær vikur í senn. Fastur kjarni handverksmanna var þó alltaf
í vefsmiðjunum, þ.e. þeir sem voru útskrifaðir sveinar.7 Adam Ritter
var meistari þar frá því starfsemin hófst og hélt svo áfram í Reykjavík
eftir að vefsmiðjan fluttist þangað. Hann starfaði til 1756 og flutti þá til
Danmerkur aftur og bar við of lágum launum.8
6 Hrefna Róbertsdóttir, Landsins forbetran, bls.109-111
7 Hrefna Róbertsdóttir, Landsins forbetran, bls. 113-117
8 Hrefna Róbertsdóttir, Landsins forbetran, bls. 194-195