Borgfirðingabók - 01.12.2016, Blaðsíða 38
38
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Þetta atriði þótti okkur svo skemmtilegt að það var endurtekið á
kvöld vöku seinna um veturinn, því auðvitað vorum við beðin um að
koma fram og skemmta, sýna fólki hvað við hefðum lært á námskeiðinu.
Og þessi sérkennilegi söngur gerði lukku!
Fleira var brallað á þessari kvöldvöku.
Kristjana á Brúarreykjum var sett í barnavagn og Dóra í Bifröst
„mamma hennar“ ók henni inn á sviðið. Etthvað gekk það brösulega,
því þótt Kristjana væri ekki stór, var hún samt ansi mikið þyngri en ung-
barn. Hjólin skjögruðu undir vagninum og hann ætlaði alveg að liðast
í sundur, en það tókst samt að koma volandi „krakkanum“ upp á borð,
skipta um bleyju á honum, gefa honum pela, og eitthvað fleira.
Haustið 1976 héldu sömu aðilar annað leiklistarnámskeið. Þá var Kári
Halldór leiðbeinandi, og mun lengi í minnum hafður ódrepandi áhugi
hans á að fræða mannskapinn sem mest og best. Kennslan dróst yfirleitt
fram á nótt, svo að þeim sem þurftu að vakna snemma þótti nóg um.
Einu sinni þegar komið var vel fram yfir miðnættið, gall við í einni
frúnni: „Jæja, nú má ég ekki vera að þessu lengur. Ég verð að fara og
sækja manninn minn í tukthúsið!“.
Kára Halldóri brá svo að hann varð orðlaus í bili, - og þurfti þó
nokkuð til! Ekki gat hann vitað, að Siggi hennar Dóru tók stundum að
sér vaktir hjá lögreglunni í Borgarnesi.
Leikdeild UMF Stafholtstungna var formlega stofnuð 3. febr. 1977, og
þá í mars var aftur haldið námskeið með Kára Halldóri.
Hann aðstoðaði við val á fyrstu verkunum, sem leikdeildin réðst í
að sýna, vann undirbúningsvinnu og raðaði í hlutverkin. Valdir voru
tveir einþáttungar, „Nakinn maður og annar í kjólfötum”, sem í leikgerð
Kára nefndist „Nakin kona og önnur í pels“, - og svo Tjekovþátturinn
„Ruddinn”.
Ekki er til þess vitað, að leikgerð Kára Halldórs af þessum leikþætti
Dario Fo hafi verið sýnd annars staðar en hjá leikdeildinni okkar. En
kynskiptingin í hlutverkunum kom til af því, að upphaflega voru 5
karlhlutverk í þættinum en aðeins 2 kvenhlutverk, en þarna var mun
meira framboð af konum en körlum.
En hvar átti að sýna? Það var langt komið að byggja félagsheimili á
Varmalandi, og skelfing langaði okkur til að hafa leiksýningarnar þar.