Borgfirðingabók - 01.12.2016, Blaðsíða 32
32
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Jón Jónsson jarðfræðingur skilgreinir muninn þannig: „Frá öndverðu
hefur almenningur hér á landi skipt jarðhita í tvo flokka, hveri og laugar.
Laugar eru volgar, en í hverum er vatnið sjóðandi. Þó er þess að gæta,
að suða í hver er ekki ávallt sönnun þess, að um suðuhita sé að ræða,
því að oft virðist sjóða í hver, sem er þó aðeins 70-80 °C heitur. Það er
jafnvel ekki óvanalegt að sjá „suðu“ í hver, sem er ekki nema 40-60 °C.
Stafar þetta af lofttegundum, sem í vatninu eru. Dr. Gunnar Böðvarsson
hefur (1960) aftur á móti skipt jarðhitasvæðunum í háhitasvæði og
lághitasvæði. Þessi skipting er vitaskuld eðlilegri, þar sem hún nær til
alls jarðhita.“ (Náttúra Íslands.)
Guðmundur Sigvaldason jarðeðlisfræðingur vekur athygli á því í
sínu mikla riti sem kom út 2005 að flokkun eftir hitastigi á yfirborði
er engan veginn skýr. „Volgrur eru vatnslindir með hita yfir meðallagi
umhverfisins, en kaldari en 30-40 °C. Laugar eru heitari, en vatnshverir
eru oftast nærri suðumarki eða sjóðandi.“ (Jarðhitabók.)
Veggjalaug var 95-99 gráðu heit og flokkast án alls vafa undir
skilgreiningu á hver og það gera einnig aðrar helstu jarðhitauppsprettur
á hverasvæðinu. Nægir að vísa til lýsingar Hendersons hér að framan
því til staðfestingar. Aftur á móti eru minni augu á hverasvæðinu, ekki
eins heit, og gætu flokkast sem laugar. Borgarfjörður telst lághitasvæði
samkvæmt skiptingu hverasvæða í lág- og háhitasvæði.
TOGAST Á UM VELGJUNA
Jarðhitasvæðið á Laugalandi er á lágum hól, um 70-80 metra að þvermáli.
Hverasvæðið er vestan vegar að barnaskólanum. Veggjalaug er stærsti
hverinn. Þvermál skálar hennar var um 1,5 metri en utan um hana er
nú steypt þró, 2 x 2 m, og er vatn úr henni leitt í safnþró. Minnihverinn
er um 5 metrum norðar. Þvermál hans var 0,8 metrar en um hann hefur
einnig verið steypt þró. Kvennaskólahverinn er nær barnaskólanum, um
25 metra norðan við Minnihver. Vatnið kemur upp um nokkur augu
og hafa þau öll verið virkjuð. Tekur hann nafn sitt væntanlega af því að
hann var virkjaður fyrir húsmæðraskólann. Hann er stundum einnig
nefndur Skólahver.
Fleiri minni uppsprettur eru á hverasvæðinu, alls 12 samkvæmt
skýrslu Orkustofnunar frá 1979. Þær eru ýmist kallaðar augu eða leðju-
pyttir. Sú sem gefur mest opnaðist þegar grafið var fyrir grunni gróður-
húss númer 9. Þessar minni uppsprettur eru 40 til 80 stiga heitar. Þá eru