Gerðir kirkjuþings - 2021, Side 6
6 7
Setningarræða forseta kirkjuþings, Drífu Hjartardóttur
Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir, fv. forsetar kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar og
góðir gestir.
Ég vil byrja á að þakka Jónasi Þóri, organista Bústaðakirkju og Erni Árnasyni, leikara,
fyrir skemmtilegan tónlistarflutning.
Hugur okkar er hjá Grímseyingum en kirkjan þeirra, Miðgarðakirkja, brann til kaldra
kola í septembermánuði sl. Auk kirkjuhússins sem var friðað brunnu ýmsir merkir
kirkjugripir svo sem eins og altaristafla frá árinu 1879. Töluvert var af útskornum munum
í kirkjunni þ.á m. skírnarfontur og einnig voru þar tvær kirkjuklukkur úr kopar.
Svona tjón er aldrei hægt að bæta til fulls þar sem um merk menningarverðmæti er
að ræða með mikla sögu auk þess sem um er að ræða tilfinningatengsl sóknarbarna og
annarra til kirkjunnar. Aðdáunarvert er hve íbúar í Grímsey tóku þessu óláni af miklu
æðruleysi og hafa þeir sýnt að þeir munu hefjast handa af bjartsýni og dug við að koma sér
upp nýju guðshúsi sem er þeim svo mikilvægt. Við svona aðstæður er ómetanlegt að hafa
svigrúm til styrkveitinga frá þjóðkirkjunni til að styðja við byggingu nýrrar kirkju.
Heimsfaraldur Covid 19 og hvernig kirkjunnar fólk brást við á jákvæðan hátt.
Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með því hvernig prestar, starfsfólk og söfnuðir brugðust
við í heimsfaraldrinum á svo fjölbreyttan hátt og nýttu tæknina til að koma til móts við
safnaðarfólk. Þar sýndi kirkjan hvers hún er megnug þegar aðstæður breytast skyndilega
og hugsa þarf upp á nýtt hvernig kirkjuleg þjónusta er veitt t.d. við útfarir, þegar í gildi
eru samkomutakmarkanir. Ég vil lýsa, f.h. kirkjuþings þjóðkirkjunnar, yfir þakklæti til
alls þess fólks, vígðra jafnt sem óvígðra, launaðra jafnt sem sjálfboðaliða, sem lagði sitt
af mörkum til að halda úti þjónustu kirkjunnar við þessar erfiðu aðstæður sem við erum
loksins að komast út úr.
Kirkjuþing er nú háð í síðasta skipti á þessu kjörtímabili.
Á þessu kjörtímabili hafa mörg stór mál verið til umfjöllunar á þinginu. Má þar einkum
nefna þá mikilvægu stefnumótun sem fram hefur farið á grundvelli samþykktar
þingsins frá 2019 og sem birtist okkur í nokkrum málum á þessu kirkjuþingi sem öll eru
þjóðkirkjunni þýðingarmikil. Þá hafa miklar skipulagsbreytingar verið til lykta leiddar.
Skipulagsbreytingar sem segja má að byrjað hafi verið að ræða á árinu 2007 þegar þáverandi
kirkjuþing samþykkti að hefja endurskoðun laga um þjóðkirkjuna. Breytingaferlið hefur
því staðið yfir í 17 ár og nær yfir fjögur kjörtímabil kirkjuþings. Fjölmargir einstaklingar
hafa lagt af mörkum til stefnumótunarinnar og skipulagsbreytinga þeirra sem hér um
ræðir. Vil ég f.h. kirkjuþings þjóðkirkjunnr færa þeim öllum alúðarþakkir fyrir þeirra
mikilsverða framlag.
Þetta síðasta þing kjörtímabilsins einkennist af því sem að framan er sagt um
stefnumótun og skipulagsbreytingar en mörg mál sem það hvort tveggja varða eru lögð
fram. Enn fremur mun þingið þurfa að fjalla um þröngan fjárhag kirkjunnar og ráðast
gegn þeim rekstrarhalla sem við blasir.