Gerðir kirkjuþings - 2021, Page 64
64 65
Þegar kjörskrá hefur verið gerð getur viðkomandi kannað á þar til gerðu vefsetri hvort
nafn hans er á kjörskrá. Við aðgang að vefsetrinu er notuð almenn innskráningarþjónusta
sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykill Þjóðskrár Íslands.
10. gr.
Leiðréttingar á kjörskrá.
Athugasemdir vegna kjörskrár skulu berast kjörstjórn eigi síðar en fimm sólarhringum
áður en tilnefning hefst, sbr. 3. mgr. 11. gr. Kjörstjórn skal þegar taka til meðferðar
athugasemdir sem henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á
henni. Kjörstjórn skal í síðasta lagi gera leiðréttingar á kjörskrá tveimur sólarhringum
áður en tilnefning hefst. Ef kjörstjórn verður þess áskynja að villa hafi átt sér stað við
kjörskrárgerðina skal hún leiðrétt. Óheimilt er að breyta kjörskrá ef skilyrði 6. gr. hafa ekki
verið uppfyllt fyrir þann tíma sem þar greinir.
Berist kjörstjórn athugasemd þess efnis að nafn skuli tekið af eða sett á kjörskrá skal
það þegar, sannanlega, tilkynnt hlutaðeigandi nema athugasemdin stafi frá honum
sjálfum. Skal hlutaðeigandi veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma
að athugasemdum. Kjörstjórn skal þegar í stað tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöðu
málsins. Skal það gert með sannanlegum hætti.
Kjörstjórn skal fram að þeim degi er tilnefning hefst leiðrétta kjörskrá ef henni berst
vitneskja um andlát manns sem er á skránni.
Ákvörðun kjörstjórnar um leiðréttingu á kjörskrá má skjóta til yfirkjörstjórnar
þjóðkirkjunnar. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en einum sólarhring
áður en tilnefning hefst.
11. gr.
Tilnefning til biskups Íslands og vígslubiskups.
Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 4. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að
þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs biskups Íslands.
Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 5. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að
þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs vígslubiskups.
Tilnefning skv. 1. og 2. mgr. skal hefjast a.m.k. fimm vikum áður en kjör til biskups
Íslands eða vígslubiskups hefst.
12. gr.
Framkvæmd og fyrirkomulag tilnefninga.
Tilnefningin skal vera rafræn og standa í fimm sólarhringa samfellt. Skal henni lokið
a.m.k. fjórum vikum áður en kosning biskups Íslands eða vígslubiskups hefst.
Kjörstjórn sér um undirbúning og ákveður nánari framkvæmd tilnefningarinnar,
en rekstrarskrifstofa þjóðkirkjunnar skal sjá til þess að aðgangur sé tryggður að öruggu
kosningakerfi til að nota við tilnefninguna. Tryggt skal að kerfi það sem notað er sé þannig
úr garði gert að ekki sé hægt að breyta tilnefningu án þess að það sé greinanlegt. Óheimilt
er að kanna hvern viðkomandi tilnefndi í kerfinu.