Gerðir kirkjuþings - 2021, Blaðsíða 126
126 127
34. mál 2021-2022
Flutt af vígslubiskupi á Hólum.
Þingsályktun um um stefnu
þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta.
Kirkjuþings 2021-2022 samþykkir eftirfarandi stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum
innflytjenda og fólks á flótta:
Inngangur
Í kjölfar umræðu um 15. mál kirkjuþings 2019, tillögu til þingsályktunar um mótun
stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum fólks á flótta og innflytjenda samþykkti þingið að skipa
þriggja manna starfshóp til að móta stefnu og verklagsreglur kirkjunnar í þessum málum.
Var biskupi Íslands falið að skipa starfshópinn.
Starfshópurinn var skipaður formlega 29. nóvember 2019, en í honum eru sr. Ása
Laufey Sæmundsdóttir, dr. Kjartan Jónsson og sr. Toshiki Toma. Varamenn eru sr. Eva
Björk Valdimarsdóttir, sr. Hjalti Jón Sverrisson og sr. Magnús Björn Björnsson.
Hópurinn skilaði tillögum til kirkjuþings í september 2020 um þann hluta er varðaði
málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd. En í þessu skjali eru tillögur nefndarinnar um
allan málaflokkinn þ.e. innflytjendur og fólks á flótta (kvótaflóttamenn og umsækjendur
um alþjóðlega vernd) eins og upphafleg tillaga kirkjuþings 2019 kvað á um.
Kirkja Jesú Krists hefur verið fjölbreytileg allt frá tilurð hennar á hvítasunnudag er
Heilagur andi kom yfir lærisveina Jesú svo að þeir gátu talað mörg mismunandi tungumál
og boðað fagnaðarerindið fólki frá mörgum þjóðum (Post. 2). Páll postuli undirstrikaði
það er hann sagði: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls
maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú“ (Gal. 3:28).
Maðurinn er skapaður í Guðs mynd og sérhver manneskja er óendanlega mikils
virði. Kristin trú tengir okkur við Guð sem vill og getur snúið óttanum við annað fólk í
kærleika. Kærleikur Guðs gerir okkur kleift að elska náungann og er mikilvægasta aflið í
kristindóminum. Þess vegna ber þjóðkirkjunni að þjóna hælisleitendum í kærleika. „Kirkja
sem leggur aðeins áherslu á það sem fer fram innan veggja hennar verður fljótt ljót; kirkjan
er aðeins kirkja þegar hún er til fyrir aðra“ (Dietrich Bonhoeffer). Kirkjan er því ekki kirkja
Krists nema hún þjóni sínum minnstu bræðrum og systrum óháð trú og kirkjuaðild.
Þetta er dýrmætur grundvöllur kirkju Krists. Við þurfum að varðveita hann og styrkja.
Efla þarf þátttöku fólks með erlendan bakgrunn í helgihaldi og safnaðarstarfi. Það er
áskorun til kirkjunnar að hafa frumkvæði að því að ná til fólks af erlendum uppruna og gera
starf á meðal þess að eðlilegum hluta safnaðarstarfs svo að það endurspegli fjölbreytileika
íslensks þjóðfélags.
Þessi stefna tekur bæði til málefna innflytjenda og flóttafólks. Innflytjandi er samkvæmt
skilgreiningu Hagstofunnar ,,einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem
einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur. Flóttamaður er „hver sá sem
er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar,