Skessuhorn


Skessuhorn - 02.11.2022, Blaðsíða 4

Skessuhorn - 02.11.2022, Blaðsíða 4
MIÐVIKUDAGUR 2. NÓVEMBER 20224 Garðabraut 2a - Akranesi - Sími: 433 5500 - www.skessuhorn.is Skessuhorn kemur út alla miðvikudaga. Skilafrestur auglýsinga er kl. 14.00 á þriðjudögum. Auglýsendum er bent á að panta auglýsingapláss tímanlega. Skráningarfrestur smá- auglýsinga er til kl. 12.00 á þriðjudögum. Blaðið er gefið út í 3.700 eintökum og selt til áskrifenda og í lausasölu. Áskriftarverð er 4.110 krónur með vsk. á mánuði. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða kr. 3.550. Rafræn áskrift kostar 3.220 kr. Rafræn áskrift til elli- og örorkulífeyrisþega er 2.968 kr. Áskrifendur blaðs fá 50% afslátt af verði rafrænnar áskriftar. Verð í lausasölu er 950 kr. SKRIFSTOFA BLAÐSINS ER OPIN KL. 9-16 VIRKA DAGA Útgefandi: Skessuhorn ehf. skessuhorn@skessuhorn.is Ritstjórn: Magnús Magnússon, ritstjóri s. 894 8998 magnus@skessuhorn.is Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir gb@skessuhorn.is Valdimar K. Sigurðsson vaks@skessuhorn.is Guðrún Jónsdóttir gj@skessuhorn.is Steinunn Þorvaldsdóttir sth@skessuhorn.is Auglýsingar og dreifing: Díana Ósk Heiðarsdóttir auglysingar@skessuhorn.is Umbrot og hönnun: Siggi Sigbjörnsson umbrot@skessuhorn.is Bókhald og innheimta: Guðbjörg Ólafsdóttir bokhald@skessuhorn.is Prentun: Landsprent ehf. Leiðari Úrræðum ekki beitt Þrískipting valds í lýðræðisríki eins og okkar byggir á lagasetningu, eftir- liti með að lögum sé framfylgt og loks dómkerfi sem sektar þá sem gerast brotlegir við lögin. Ýmist eru lög sett til að við þegnar landsins förum eftir þeim eða/og þau eru sett í hendur ákveðnum stofnunum að framfylgja. Svo ef aðstæður breytast krefst það þess að Alþingi setji ný lög eða breyti þeim eldri. Einfaldur meirihluti á Alþingi ræður lagasetningu, en þingið kjósum við sjálf fjórða hvert ár í kosningum. Þetta er ágætt kerfi og mikils um vert að með gegnsæjum hætti sé valdið í raun í höndum okkar sem byggjum landið. Árið 1271 lét Noregskonungur gera lögbók fyrir Íslendinga sem nefndist Járnsíða. Þá kom fyrst fram orðatiltæki sem einatt hefur verið vitnað til þar sem segir: „…því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða.“ Allt frá þeim tíma hafa landsmenn gert sér grein fyrir því að meðal siðaðra þjóða verði að setja lög. En þrátt fyrir góðan vilja er það alltaf eitt- hvað sem misferst í okkar ágæta landi. Ýmist hefur dregist að setja lög sem allir geta farið eftir, nú eða að lögin séu einfaldlega brotin. Í þeim tilfellum er afar heppilegt að við höfum lögreglu, sem grípur inní, tuktar okkur eða beitir fjárvítum. Nærtækast er að nefna brot á umferðarlögum því það eru kannski þau lög sem flestum verður á að brjóta. Hver hefur til dæmis ekki orðið fyrir því óláni að aka á fjörutíu kílómetra hraða um götu sem einungis leyfir þrjá- tíu? Ég hygg að þeir séu margir enda eru nútíma bílar varla framleiddir til að aka svo hægt. En ég er ekki að kvarta yfir þessu, alls ekki. Ef einhver hefur metið sem svo að það sé lögbrot að aka á meira en þrjátíu kílómetra hraða framhjá skóla eða um stofnæð í þéttbýli, verð ég að hlíta því. Það hlýtur að hafa verið gild ástæða fyrir þeirri lagagjörð. En það eru önnur lög sem ég vil hér færa í tal. Það eru lög um dýravel- ferð og eru frá árinu 2013. Þar segir að ráðherra fari með yfirstjórn mála- flokks er varðar velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum stofnunar sem nefnist Matvælastofnun og skal hafa eftirlit með því að ákvæðum laga þessara sé framfylgt. Lög um dýravelferð eru að mínu viti mjög skýr. Í sjöttu grein þeirra segir: „Skylt er að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lög þessi. Ill meðferð dýra er óheimil.“ Ekki þarf að rökræða þetta né hártoga á nokkurn hátt. Þá segir í lögunum að leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögunum eða reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt þeim, skal sá sem verður þess var tilkynna það Matvælastofnun eða lögreglu svo fljótt sem auðið er. Tilkynningaskyldan er sömuleiðis skýr. Sé mál tilkynnt lögreglu skal hún tilkynna Matvælastofnun um það. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist og bregðast við með viðeigandi hætti, eins og rakið er í lögunum. Reglulega rata í fjölmiðla fréttir um mál þar sem rökstuddur grunur er um illa eða slæma meðferð á dýrum. Flest mál rata þó ekki í fjölmiðla, eru ein- faldlega leyst utan sviðsljóss þeirra. Svo eru önnur mál sem ítrekað rata í fjöl- miðla af því ekki er leyst úr þeim með viðeigandi hætti. Þegar almenningur verður þess var bregst hann við, enda er almenningi skylt í þessum lögum að tilsegja dýraníð og grun um illa meðhöndlun á skepnum. Mál sem tengist sama umráðafólkinu hefur verið í fjölmiðlum frá því í sumar. Snerta þau hross, sauðfé og nautgripi í umsjón sama eða sömu umráðaaðila. Jafnvel þótt ekki liggi vafi á að viðkomandi einstaklingar séu óhæfir um að halda skepnur, er kerfið ekki að virka. En eru það lögin sem eru óskýr, eða gölluð? Nei það er bara alls ekki svo. Í lögunum segir nefnilega: „Telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið getur stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harð- ýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar.“ Einfaldara getur það ekki verið. Eins og að framan greinir virðist því sem ráðherra og Matvælastofnun beri talsverða ábyrgð. Lögin eru nefnilega skýr, en úrræðum er einfaldlega ekki beitt. Sam- kvæmt lögunum eru því þrír aðilar að brjóta umrædd lög; nefnilega umráða- menn fyrrgreindra dýra, Matvælastofnun og loks ráðherra. Magnús Magnússon Eldur kom upp á geymslusvæði fyrir aflagða bíla á sorpmóttökusvæðinu við Höfðasel á Akranesi síðastliðinn fimmtudag. Starfsmenn endur- vinnslufyrirtækisins Málmu höfðu í umboði Terra verið að vinna við eitt bílhræ og fóru ekki að settum verklagsreglum. Skáru þeir hvarfa- kút undan bíl sem var ásamt um þrjú hundruð öðrum bílum í safnhaug á geymslusvæðinu. Neisti frá vinnu þeirra orsakaði brunann. Eldurinn breiddist hratt út. Slökkvilið Akraness og Hval- fjarðarsveitar var kallað út og sendi allan tiltækan mannskap á svæðið. Einnig barst liðsauki úr Borgarnesi til vatnsflutninga. Einn brunahani var á svæðinu og annaði hann ekki dælugetu og vatnsþörf slökkvi- liðsins. Því þurfti að keyra að tölu- vert miklu vatni að auki. Um tuttugu slökkviliðsmenn börðust við eldinn frá því um klukkan 14:30 og þar til slökkt hafði verið í á sjötta tímanum síðdegis. Eiginlegu slökkvistarfi lauk með því að haugurinn var rifinn í sundur og kældur til þess að koma í veg fyrir að eldur blossaði upp að nýju. Slökkvilið vann svo við frá- gang á svæðinu og var með vakt um kvöldið. Héldu síðustu menn heim á leið um miðnætti. Engum varð meint af í þessum stórbruna. Smásprengingar voru í haugnum þegar eldurinn var hvað mestur og mikinn og dökkan reyk lagði frá honum. Vafalítið var því mikið af eiturefnum sem bárust út í andrúmsloftið. „Það varð engum meint af. Við notuðum reykköfunar- búnað og svo spilaði veðrið stóran þátt, það var svo stillt að reykur- inn steig bara beint upp,“ sagði Jens Heiðar Baldursson slökkviliðsstjóri. Megin áhersla var lögð á það í slökkvistarfinu að hefta frekari útbreiðslu elds innan svæðisins. Það tókst prýðilega og má þakka að góð skil voru milli safnhauga á sorpmót- tökusvæði Terra eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd. Grjót- veggur og gámar aðskildu svæðin og heftu útbreiðsluna. Þá var lán í óláni að bílarnir sem brunnu höfðu verið tæmdir af olíu, rafgeymum og elds- neyti. Sömuleiðis tókst starfsfólki á svæðinu að koma í tæka tíð frá eldinum tanki sem notaður var til að tappa á úrgangsolíu af bílunum. Bílarnir sem brunnu voru tilbúnir til útflutnings og stóð til að flytja þá í skip eftir helgina. Jens Heiðar slökkviliðsstjóri segir að í ljósi þess að búið var að taka spilliefni úr bíl- unum hafi þetta verið umhverfis- vænni bruni en ella. Reyk frá eldinum lagði hátt í loft upp og lagðist reykjarslæðan svo smám saman yfir Akrafjall og út á Faxaflóa. Reykurinn sást vel af höfuð borgarsvæðinu og herma heimildir Skessuhorns að fólk þar hafi fyrst látið vita af eldi handan við Akrafjall. mm Stórbruni á sorpmóttökusvæði á Akranesi Hér var eldurinn við það að ná hámarki. Glöggt sést á þessari mynd hvernig grjótgarður og gámar aðskildu safnhauga á svæðinu og komu þannig í veg fyrir enn meiri útbreiðslu eldsins. Ljósm. mm. Eitraður kolsvartur reykur steig upp og lagðist svo hægt og rólega eins og slæða yfir Akrafjall og út á flóann. Ljósm. mm. Þessi mynd var tekin skömmu eftir að eldurinn byrjaði að breiða úr sér um svipað leyti og slökkvilið var að mæta. Ljósm. ki Sprautað á eldinn. Ljósm. gsv. Á sjötta tímanum síðdegis var búið að slökkva eldinn en unnið við að færa bílhræin og kæla þau. Reykurinn að mestu gufa vegna vatnsins sem sprautað var á brennheitt stálið. Ljósm. mm.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.