Kirkjublaðið - 17.12.1945, Qupperneq 24
22
KIRKJUBLAÐIÐ JÓLIN 1945
Svavar Hermannsson:
JÓL 1 BERLÍN
Á jólunum 1944 hafði hið mikla heimsstríð staðið
í 5J4 ár. Hver þjóðin á fætur annari hafði dregizt
inn í hringiðu styrjaldarinnar og orðið að þola þján-
ingar þær, sem stríðinu voru samfara. Höfuðborg
Þýzkalands, Berlín, hafði vissulega ekki farið var-
hluta af ógnum stríðsins. Eins og annarsstaðar í
landinu hafði hér nálega hver fjölskylda misst einn
eða fleiri meðlimi, sem fallið höfðu eða særzt á víg-
völlunum. Ofan á þetta bættist langvarandi skortur
á lífsnauðsynjum og æ harðari vinna, og sífelldur
ótti um líf og eignir vegna hinna miklu loft-
árása, er undanfarna mánuði hafði sérstaklega verið
beint gegn Berlín og þegar höfðu lagt mikinn hluta
borgarinnar í rústir. Undir þessum dapurlegu kring-
umstæðum bjuggust nú Berlínarbúar til að fagna
jólunum eftir föngum. Hver sem gat reyndi að út-
vega sér jólatré, þó að það væri oft aðeins hægt með
því að ferðast marga kílómetra. En ánægjusvipur-
inn skein af hinum fölu og þreytulegu andlitum
fólksins, er hraðaði sér heim til heimila sinna með
þó ekki væri nema litla grenihríslu í hendinni, er
nota átti sem jólatré. Skömmu fyrir jól hafði borg-
arstjórnin úthlutað aukaskammti af matvælum og
ofurlitlu af kaffi í tilefni af jólunum.
Loksins rann upp aðíangadagur jóla. Berlínarbúar
risu snemma morguns úr rekkju að venju, klæddust
og drukku gervikaffið sitt og hröðuðu sér síðan til
vinnu. Kvöldið áður hafði verið loftárás, og ennþá
lá reykjarmökkur yfir borginni, og römm reykjar-
lykt barst að vitum manns. Rústir hinna hrundu og
brunnu húsa voru draugalegar á að líta í hálfrökkr-
inu. Allstaðar streymdi fólkið til vinnustöðva sinna
og hugsaði með eftirvæntingu um, hvað dagurinn og
aðfangadagskvöldið mundi færa. Myndu óvinirnir nú
koma með drápsvélar sínar einnig þetta kvöld, eða
mundi hinum þreyttu og hrjáðu Berlínarbúum leyft
að njóta sinnar fátæklegu jólagleði í friði. í flestum
fyrirtækjum og opinberum stofnunum var aðeins
unnið til hádegis. Fólkið óskaði hvort öðru gleðilegra
jóla, og hver og einn flýtti sér til heimilis síns. Heima
fyrir höfðu húsmæðurnar ærið að starfa. Af litlum
efnum varð að búa til jólamatinn og helzt að baka
eitthvað með kaffinu, sem í þetta sinn var ósvikið
baunakaffi í stað gervikaffisins, sem var hinn dag-
legi drykkur. Ef til vill var einnig til eitthvað af
niðursoðnum ávöxtum, eða öðru gcðgæti, sem geymt
hafði verið til hátíðarinnar.
Um kvöldið kl. 6 fóru margir Berlínarbúar að
hlýða á jólamessu. Messað var í þeim kirkjum, er
ennþá höfðu ekki orðið sprengikúlum óvinanna að
bráð, en annars á einhverjum öðrum stað. Margar
af hinum fegurstu kirkjum Berlínar voru löngu eyði-
lagðar af loftárásunum. Þar á meðal hin fagra Kaiser-
Wilhelm-Gedáchtniskirche. Aðeins turnar hennar
gnæfðu við himin svartir og sótugir. Að innan var
allt brunnið og eyðilagt. Að aflokinni kirkjugöngu
settust síðan Berlínarbúar til borðs og létu sér
verða gott af jólamatnum, þó að hann væri í fátæk-
legasta lagi. En skortur í mat og drykk var þó ekki
það, sem aðallega olli Berlínarbúum hryggðar um
þessi jól. Sorgin um fallna ástvini og óttinn um örlög
þeirra, er ennþá börðust á vígvöllunum, kölluðu fram
margt andvarp og olli því að jólagleðin varð í þetta
sinn aðeins dauft endurskin fyrri daga.