Hönnun: húsgögn og innréttingar - 01.09.1987, Blaðsíða 20
Ávaxtaskálar
og öryggisleysis, klæðaburður
minn og fas stakk í stúf og mér
stóð stuggur af jafnhversdagslegum
hlut og strætisvagni. En ég var
ákveðin í að taka þetta allt með
trompi og komast fljótt inn í
borgarlífið."
FEIMINN í MENNTÓ
En hvar skyldi Magnús
Kjartansson hafa alið manninn á
meðan Kogga teiknaði og teiknaði
fyrir austan? Jú, hann teiknaði og
teiknaði fyrir sunnan.
„Ég er Reykvíkingur. Úr
Austurbænum, en samt KR-
ingur!", sagði hann með áherslu
og var auðvitað krafinn nánari
skýringar.
„Afi minn og amma bjuggu rétt
hjá KR-heimilinu. Það var ein
ástæðan. Svo þóttu mér svörtu og
hvítu búningarnir afskaplega
fallegir. Ætli það hafi ekki verið
aðalástæðan!" Magnús fylgir
yfirlýsingunni úr hlaði með
tvíræðu brosi, svo ég hafði
eiginlega ekki hugmynd um hvort
það bæri að taka hann alvarlega.
Þegar hér var komið sögu,
glumdi hávær popptónlist yfir hinn
virðulega matsal á Hótel Borg, svo
það varð vonlaust að halda uppi
samræðum af nokkru viti.
Auðmjúkur þjónn upplýsti, að
þetta væru Skriðjöklar að æfa fyrir
tónleika síðar um kvöldin, en
hávaðann myndi lægja eftir örfáar
mínútur. Við biðum þess róleg.
Kogga tjáði okkur Magnúsi á
táknmáli, að Skriðjöklarnir væru
að norðan. Hann svaraði, á sama
máli og sagðist oft undra sig á því
hvað hún Kogga vissi. . . um
ótrúlegustu hluti. Handapatið barst
síðan að Akureyrarbæ, kostum
hans og göllum og endaði með
yfirlýsingu Magnúsar um að hann
hefði aldrei komið í umrætt pláss.
„Ha, hefurðu aldrei komið til
Akureyrar?", hrópaði Kogga upp
yfir sig í mikilli forundran. „Hann
Magnús er alltaf að koma mér á
óvart!"
Akureyringarnir hættu fljótt
spileríinu og fólkinu í salnum gafst
aftur kostur á að melta sérrétti
dagsins. Við Magnús tókum upp
þráðinn við KR-heimilið.
„Mamma mín var ekkja og vann
mikið úti. Ég sótti þess vegna
töluvert til föðurforelda minna
vestur í bæ. Afi var mikill
listsafnari og náinn vinur Kjarvals,
Þórbergs og fjölda annarra
listamanna. Ég kynntist því ýmsum
stefnum og straumum á því heimili
og sá snemma myndir á veggjum
— öfugt við Koggu.
Þetta var afskaplega lifandi og
litríkt fólk, sem ég hitti hjá afa og
ömmu. Ungmennafélagsandinn
sveifenn yfir vötnunum. Ég tel mig
raunar mjög heppinn að hafa
kynnst þessu fólki og
hugsunarhætti þess."
Magnús fór í bóknám og lauk
stúdentsprófi úr hinum virðulega
Menntaskóla í Reykjavík árið
1969, áður en hann hvarf á vit
listagyðjunnar í Myndlista og
handíðaskólanum. Hann kvað það
hafa komið eins og af sjálfu sér að
hann fór að mála:
„Sem barn málaði ég leirfígúrur,
síðan smíðaði ég flugmódel, en
eftir að ég rakst óvart á liti inni í
geymslu komst fátt að annað en
málverkið", sagði Magnús og
kímdi aftur, þannig að ég vissi ekki
hvort hann var að segja satt eður
ei. „Og nú er ég eiginlega kominn
aftur í leirinn", bætti hann við.
Grafalvarlegur.
Hvað með menntaskólaárin,
„bestu ár ævinnar"? Magnús
Kjartansson málaði í menntó. Hélt
meira að segja sýningu á þessum
árum. „Ég var alltaf heima að
mála. Fór lítið. . . enda mjög
feiminn og óframfærinn. Ég þorði
einfaldlega ekki út á lífið.
Þetta breyttist, þegar ég kom í
Myndlistaskólann. Þá fór ég strax
að verða svolítið „bóhem", en það
var ógurlega mikil upplifun að
koma í þennan skóla eftir agann í
MR. Þetta var forkostulegt
ævintýr."
Sömu sögu var að segja um
Koggu, nýsloppna úr ströngum
heimavistarskóla í sveit. Hver
dagur í Handíðaskólanum var
henni sem opinberun. Næstum
eins og allt gæti gerst.
HANDVERK í MEIRI
METUM ERLENDIS
í skólanum hittust þau og hafa
búið og unnið saman í ein 16 ár
síðan. Magnús hefur lagt
aðaláherslu á málverkið, Kogga á
leirinn, en undanfarin ár hefur
hann þó í síauknu mæli farið að
vinna með henni við leirlistina.
Nánar um það og nú töluðu þau
hvort í kapp við annað:
„Það hefur lengi verið draumur
hjá okkur að miðla leirlistinni sjálf,
vera í nánu sambandi við fólk í því
20