Heilbrigt líf - 01.06.1942, Page 7
það með sér. Þar við bætast svo húsnæðisvandræðin, sér-
staklega nú allraseinustu árin. Og nýtízku íbúðirnar, bæði
hér og víða erlendis, virðast vera gerðar sem einfaldastar
og þannig, að sem minnstrar heimilishjálpar þurfi við auk
fjölskyldunnar, og því ekki ætlað húsrúm fyrir vinnu-
stúlkur.
Barnkoman eða fæðingatalan, hefir löngum verið mjög
há hér á íslandi og hærri en víðast hvar annars staðar í
nágrannalöndunum. En nú fer hún ört lækkandi. Við er-
um farin að fylgjast þar með tízkunni, eins og í mörgu
öðru. Ekki sízt þess vegna er það mikilsvert, að sem bezt
sé búið að fæðandi konum og væntanlegum nýjum þegn-
um þjóðfélagsins. Á þeim árum, sem hér er um að ræða.
hefir íbúatala Reykjavíkur farið ört hækkandi, en þrátt
fyrir það hefir tala fæðinga sama sem staðið í stað. Þær
voru 787 árið 1931 og 831 árið 1932. Árin 1939 og 1940
voru þær 842 og 786. En það lætur nærri, að flestöll árin
séu fæðingar í Reykjavík um % til 1/3 hluti allra fæðinga
á landinu. Það væri því ekki vanþörf á, að um þessar fæð-
ingar væri vel hugsað, þar sem líka þetta er eini staður-
inn á landinu, þar sem veruleg tök eru á því að búa kon-
um reglulega góð skilyrði til fæðingarhjálpar.
Aðsókn fæðandi kvenna á fæðingadeildina hefir yfir-
leitt farið vaxandi ár frá ári og fæst gleggst yfirlit yfir
það á línuriti A, sem hér fylgir. Strax annað árið jókst að-
sóknin mjög, enda greiddi þá Sjúkrasamlag Reykjavíkur
fyrir fæðandi konur á deildinni, þótt ekkert sérlegt væri
að. Næsta ár dró samlagið úr þessum greiðslum og minnk-
aði þá aðsóknin nokkuð, en síðan hefir hún aukizt stöð-
ugt. Fróðlegt er líka að athuga hlutfallið milli fæðinga á
fæðingadeildinni og allra fæðinga í Reykjavík, og er það
sýnt á línuriti B. Sú athugun sýnir, að þessi tvö línurit
fylgjast að. Því fleiri sem fæðingarnar verða á fæðinga-
deildinni, því meir hækkar hundraðstalan miðað við allar
Heilbrigt. líf