Heilbrigt líf - 01.06.1942, Qupperneq 40
setrum. Það er t. d. í frásögur fært, að Hannes Finnsson,
biskup, lét gera salerni í Skálholti á ofanverðri 18. öld,
svo að sennilega hefir þá ekki verið neitt salerni á sjálfu
biskupssetrinu. Þá er það og talið með tíðindum á 18. öld-
inni, að Magnús Ketilsson, sýslumaður, byggði salerni á
bæ sínum. En, hvernig sem þessu er farið, þá er það víst,
að í byrjun 19. aldar eru salernin horfin úr sveitunum,
að minnsta kosti afar sjaldgæf. Það er ekki fyrr en eftir
miðja öldina, sem þau fara að gera vart við sig á ný, og
ekki fyrr en eftir síðustu aldamót, sem þau ná verulegri
útbreiðslu.
En hvernig stóð svo á allri þessari ótrúlegu afturför
og ómenningu? Við vitum það ekki með vissu, en senni-
lega hefir margt borið til þess. Fyrst má þá telja, að það
var ekki hlaupið að því að gera viðunandi salerni heima
við bæinn, ekki sízt ef innangengt var í það. Það var ekki
um annað að tala en að byggja það úr torfi, eins og önn-
ur bæjarhús, og einnig hlandforina, ef hún var nokkur.
Það hefir verið erfitt að tæma hana og hreinsa. Það hefir
líka þótt óþrifalegt verk, og verið oft dregið á langinn
meðan hjá því varð komizt. Af öllu þessu hefir svo hlotizt
viðbjóðslegur óþrifnaður, ólykt og flugur, ekki sízt að
sumrinu. Þá skorti og öll hentug tæki til þess að hirða
salernið og hreinsa. Lítið mun hafa verið um hentug ílát
fyrir kamarsmykju. Vagn var enginn og ekki svo mikið
sem hjólbörur. Útisalernin, langt frá bæ, komu ekki að
notum í illviðrum, og heimasalernunum fylgdi óþrifnað-
ur. Það voru í raun og veru engin undur, þó að þessi ófull-
komnu salerni legðust niður, og að menn kysu heldur af
tvennu illu að vera salernislausir. Við allt þetta bættist
svo allskonar óáran, hnignun og úrræðaleysi. Móðuharð-
indin í lok 18. aldar eru gott sýnishorn of verstu árunum.
Á slíkum tímum hlaut öllu að hnigna. Það getur og verið,
að hugsunarháttur fólksins hafi átt nokkurn þátt í þessu,
38
Heilbrigt líf