Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Blaðsíða 53
jón símon markússon
Um áhrif tíðni á stefnu útjöfnunar
Rannsókn á beygingarþróun færeysku nafnorðanna vøllur og fjørður
1. Inngangur
Hér verður gerð grein fyrir ólíkum stefnum útjöfnunar í færeysku nafn-
orðunum vøllur og fjørður, sem bæði eru afkomendur fornvesturnor-
rænna u-stofna, sbr. fvnorr. vǫllr og fjǫrðr.1 Eins og flokkunin gefur til
kynna tilheyrðu orðin sama beygingarflokki í fornvesturnorrænu og sýndu
því sömu beygingarendingar.2 Einnig voru fjölskrúðug stofnsérhljóðavíxl
einkennandi fyrir beygingu u-stofna, sbr. t.d. fvnorr. nf./þf.et., þf./þgf.ft.
vǫll-, fjǫrð- ~ þgf.et., nf.ft. vell-, firð- ~ ef.et. og ft. vall-, fjarð-.
Hér er útjöfnun skilgreind þannig að beygingarmynd öðlist hliðarmynd
sem að forminu til er byggð á annarri stofnmynd sama orðs (t.d. Car -
stairs-McCarthy 2015:327). Þó er brýnt að átta sig strax á því að út jöfnun
breytir ekki eldri mynd í yngri, heldur eru yngri myndir viðbót við beyg-
ingardæmið (Bybee 2015:95). Enn fremur geta myndirnar sem til verða
við útjöfnun lifað öldum saman við hlið eldri myndanna, en þó er algeng-
ast að ein hliðarmynd sigri hina(r) á endanum (sjá t.d. Harald Bern harðs -
son 2004, 2005; Jón Símon Markússon 2017, 2021, 2022a, 2022b; Katrínu
Axelsdóttur 2015). Stig af stigi hefur stofnmyndin vøll- verið alhæfð um
allt beygingardæmi orðsins vøllur, en stofnmyndin vell- er með öllu horfin.
Íslenskt mál 44 (2022), 53–86. © 2022 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Ég þakka þremur ónafngreindum ritrýnum og ritstjórum Íslensks máls fyrir góðar
ábendingar. Einnig fá Bartal Torkilsson Kamban, Eivind Weyhe, Erna Björk Gestsdóttir,
Hjalmar P. Petersen, Katrín Axelsdóttir, Lena Reinert og Uni Johannesen þakkir fyrir
yfirlestur á fyrri gerðum greinarinnar og/eða aðstoð við fyrirspurnir mínar um orðanotkun
í færeysku. Archie Cretton skulda ég þakkir fyrir aðstoð við tölfræðina. Höfundur ber
ábyrgð á öllum villum sem eftir kunna að standa.
Árið 2018 bar ég hugmyndina að greininni undir Anfinn Johansen, lektor við Føroya -
málsdeild Fróðskaparseturs Færeyja, fyrstan manna. Ég fékk aldrei tækifæri til að þakka
honum í eigin persónu fyrir hvatningu og aðstoð við rannsóknina áður en hann lést 10.
janúar 2022. Í staðinn tileinka ég honum þessa grein. Rannsóknin var styrkt af Rannís,
styrknúmer 174253-015.
2 Fyrir utan fvnorr. kvk. hǫnd og hk. fé eru u-stofnar karlkynsorð í norrænu. Hér
verður aðeins fengist við beygingarsögu karlkyns u-stofna.