Kraftur - 2023, Blaðsíða 26

Kraftur - 2023, Blaðsíða 26
Börnin gáfu mér styrk til að halda áfram Hvað með börnin? Kristjana og Atli eru sammála um að það hefði verið vel þegið að fá aðeins meiri aðstoð með börnin. En þau vita að fólk vill hjálpa en yfirleitt veit það ekki hvernig. Svo eru bara allir uppteknir við sitt, það eru allir á fullu og allir að glíma við eitthvað. „Fyrri helming lyfjameðferðarinnar fannst mér alveg ómögulegt að gera þetta með tvö lítil börn en þegar fór að líða að lokum og ég alveg búin á því fór ég að sjá fegurðina í því. Þegar ég var örmagna á líkama og sál og fannst ég ekki geta meir, fékk ég styrk til að halda áfram vegna þeirra. Atli þurfti að vera mikið með börnin og ég var hreinlega eins og einhver skuggi þarna með þeim. Eins og einhver aukahlutur. Við erum mjög þakklát fyrir alla þá hjálp sem við fengum en eftir þessa reynslu hvet ég þá sem eru með krabbameinssjúkling í sínum innsta hring að bjóðast til að hjálpa til með börnin. Bara koma og sækja þau og ekki láta aðstandandann eða sjúklinginn um skipulagninguna. Það er alltaf erfitt að biðja um aðstoð,“ bætir Kristjana við. Atli og Kristjana reyndu að láta ástandið hafa sem minnst áhrif á krakkana en vera samt eins heiðarleg og unnt er við dóttur sína um krabbameinið en með tilliti til aldurs hennar. Sonur þeirra hefur meðtekið minna af því sem hefur verið að gerast, enda einungis eins og hálfs árs þegar ferlið hófst. „Við leyfðum henni að sjá lyfjabrunninn og töluðum um krabbameinið við hana en þegar hún spurði t.d. úr hverju bróðir pabba dó þá sögðum við henni ekki að það hefði verið krabbamein. Við vildum ekki að hún myndi ekki tengja krabba- meinið þannig,“ segir Kristjana. B ls .2 6 Það var erfitt fyrir börnin að hafa ekki móður sína hjá sér. Kristjana hefur þurft að dvelja frá börnunum t.d. tvær vikur á sjúkrahótelinu eftir skurðaðgerðina. „Dóttir mín kíkti þá í heimsókn og mamma mín þurfti að rífa hana hágrátandi í burtu þegar hún þurfti að fara heim. Hún vildi bara vera hjá mér og það tók mig alveg tvo daga að jafna mig andlega á þessari heimsókn. Eftir skurðaðgerðirnar var ég í margar vikur að verja mig þegar hún kom að mér og sífellt að passa að fá ekki högg á sárin. Ég held að hún hafi upplifað það sem höfnun að mæta ekki opnum örmum þegar hún kom til mín,“ segir Kristjana. Þau segja dóttur þeirra tala um að hún eigi mömmu með krabbamein í leikskólanum og ein vinkona hennar á líka mömmu sem hefur gengið í gegnum krabbameinsmeðferð. „Svo eru þessi börn svo fyndin og hún þolir greinilega ekki ójafnvægið sem henni finnst vera á mér núna. Í síðustu viku sagði hún - mamma þú ert bara með eitt brjóst, ég vildi að þú værir með tvö ennþá. Ég myndi annað hvort vilja að þú værir með tvö brjóst eða engin brjóst. Ég vona að þú fáir krabbamein í hitt brjóstið svo það þurfi að taka það líka,“ segir Kristjana hlæjandi. Kraftur Ljósmynd: Dagný Dögg Steinþórsdóttir

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.