Kraftur - 2023, Blaðsíða 35
Viðtal
B
ls. 35
„Mín reynsla er auðvitað ekki það sem máli
skiptir í þessu en ég man þegar ég heimsótti
mömmu þegar hún fékk fyrsta lyfjakúrinn. Þá var
hún inni á stærstu stofunni. Hún var auðvitað
óörugg og í algjörlega ókunnugu umhverfi og að
gera eitthvað sem hún hafði aldrei gert áður. Sat
þarna með fjölda fólks og þegar ég kom að heilsa
upp á hana þá var ég í raun og veru að tala við
allavega fjóra. Þetta er auðvitað ekki hægt. Sjá svo
hjúkrunarfólkið sem á að gæta topp öryggis í allri
sinni vinnu, svona þrengsli gera það mjög erfitt,
það segir sig sjálft. Það er ekki hægt annað en hafa
áhyggjur af því að það sé ekki hægt að ná bestum
árangri af meðferðinni sem verið er að veita við
þessar aðstæður.“
Nálgunin í krabbameinsmeðferð eigi að vera
heildræn en það sé ómögulegt að veita slíka
meðferð vegna bágborinnar aðstöðu. Starfsfólkinu
sé þannig í raun gert ókleift að sinna sinni vinnu
eins og það myndi vilja.
Kaffistofan eins og sardínudós
Halla segir að þegar Krabbameinsfélagið hafi farið
af stað að ræða þetta og vekja athygli á aðstöðunni
þá hafi málið ekki verið í neinni umræðu.
„Starfsfólkið virðist mér ekki kvarta mjög mikið.
Það vinnur örugglega margt af hugsjón og bítur
bara á jaxlinn, það er vant því að vinna við erfiðar
aðstæður. Og sjúklingarnir og aðstandendurnir
bera auðvitað mjög mikla virðingu fyrir þeim sem
eru að sinna þeim og sjá hvað þau er að leggja sig
fram við erfiðar aðstæður. Þeir kvarta ekki heldur.
Við skulum ekki gleyma því að í mörgum tilvikum
er fólk beinlínis að berjast fyrir lífi sínu. Það ætlar
ekki að setja neitt í uppnám í þeirri stöðu og svo
líka hefur það bara svo mikla samkennd með
fólkinu sem er að sinna því að það þegir bara. En
þegar við fórum að skoða þetta og fórum að tala
við fólk þá auðvitað segja allir sömu söguna. Bara
þetta að geta ekki staðið upp og liðkað sig aðeins.
Að þurfa að bíða og bíða. Einhver sagði: Það er
oftar en einu sinni, oftar en tvisvar sem ég hef bara
sagt: Ég verð svo stutt, ég skal bara fá lyfin hér, þá
kemst næsti í stólinn.“
Halla líkir aðstöðunni, til dæmis á kaffistofu
sjúklinga, við sardínudós.
„Fólki finnst þetta ömurlegt og það er bara fyrir
neðan allar hellur að bjóða fólki í þessari stöðu upp
á þessa aðstöðu.“
Landspítalinn eigi hugmyndir um lausn
Halla segir að þegar félagið hafi verið sem mest að
skoða þessi mál hafi þau fengið upplýsingar um að
það sé veitt lyfjameðferð á 11B fyrir 1,3 milljarða á
ári. Það sé engin smáræðisfjárfesting, fyrir utan alla
þá fjárfestingu sem fólk leggur sjálft í sína meðferð.
„Í mínum huga þá snýst þetta um
það að ef við ætlum að fá hámarks-
ábata af þessari fjárfestingu þá
verðum við að bæta aðstöðuna.
Við verðum að veita meðferð við
þannig aðstæður að sem bestur
árangur náist. Það er ekki við
þessar aðstæður í dag, ég er alveg
klár á því,“ segir Halla og bendir á
að Landspítalinn eigi hugmyndir
um lausn á vandanum og hún hafi
verið forsenda fyrir því að félagið
tók ákvörðun um að veita fé til
verkefnisins á sínum tíma.
Kraftur
Það sé ekki endilega lausn til mjög langs tíma og
kannski ekki einu sinni besta lausnin en sú lausn
sem Landspítalafólk taldi besta á þeim tíma.
Lausnin fólst í að klára svokallaða K-byggingu
spítalans. Lausnin sé að byggja lyftuhús svo hægt
sé að nýta alla bygginguna fyrir sjúklinga, innrétta
húsnæðið upp á nýtt og færa dag- og göngudeild
blóð- og krabbameinslækninga þangað. Halla segir
að kostnaðaráætlun hafi verið til fyrir þessa lausn
en eftir því sem hún komist næst núna standi líklega
ekki til að fara í þær framkvæmdir.