Kraftur - 2023, Blaðsíða 31

Kraftur - 2023, Blaðsíða 31
Tekur tíma að byggja sig upp Egill reynir að hreyfa sig á hverjum degi en hefur þurft að berjast við líkamlega þreytu. „Ég lét skoða hormónakerfið í mér í byrjun árs og þá kom í ljós að testósterónið í mér væri bara ekkert eða mjög lágt þannig að ég fæ uppbót af því og það gerði mikið fyrir mig. Nú er mér aftur farið að vaxa skegg og fá styrk. Ég er viss um að fleiri karlmenn þurfa að kanna stöðuna eftir meðferð og mæli ég með því að láta kíkja á þetta. Ég ber á mig gel á hverjum degi en það tekur margar, margar vikur að byggja upp magnið í líkamanum.“ Eins þarf Egill að taka taugalyf því hann var með taugastingi í fótum og tánum og það var mikið álag á líkamann og því átti hann erfitt með að hvíla sig. En eftir að hann fékk lyfin hefur honum liðið betur. Væri til í lengri sólarhring Egill byrjaði að vinna strax í nóvember og segist að eftir á að hyggja hafi hann kannski ekki verið tilbúinn. „Mér var rúllað um Svíþjóð og Lund í hjólastól í júlí og var byrjaður að vinna sem teymisstjóri hjá Reykjavík urborg í nóvember. Ég var stundum ansi þreyttur eftir vinnuna enda var ég búinn að vera sófakartafla lengi eftir veikindin. En mér fannst mikilvægt að koma mér aftur af stað í lífinu.“ Egill starfar líka sem varaborgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg og hefur tekið að sér starf hjá Krafti þar sem hann tekur á móti fólki sem hefur nýlega greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra sem eru að koma inn í félagið. Honum finnst nauðsynlegt að geta miðlað sinni þekkingu áfram til þeirra sem að standa frammi fyrir þessu stóra verkefni sem krabbamein hefur í för með sér. Hann fókuserar á að njóta lífsins ekki síst barnanna vegna. „Ég horfi bara framan í þau á hverjum degi og hugsa alltaf að ef ég hefði dáið þarna í byrjun árs 2022 þá væri ég ekki með þeim. Mér finnst óþægileg tilfinning að þau myndu ekki muna eftir mér. Svo ég ætla mér að tóra eitthvað lengur og sjá þau vaxa úr grasi. En þessi tilfinning kemur stundum yfirþyrmandi yfir mig þegar ég er með þeim. Það munaði svo litlu að þetta hefði klikkað og þá hefðu þau ekki munað eftir mér. Þess vegna reyni ég að taka öllum tækifærum sem að bjóðast og nýta tímann og njóta hans og þá sérstaklega með þeim,“ segir Egill að lokum. Viðtal Kraftur B ls. 31

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.