Heima er bezt - 01.07.2001, Qupperneq 67
- Ég veit það ekki, Alda mín. Ég get ekki lesið inn í
hugi fólks. Ég skal segja þér frá einum manni sem ég
þekkti og ætlaði að taka lífið sitt. Viltu þá hætta þessu
nuði um sjálfsmorð og dauðann?
- Já, já.
Alda varð háspennt. Amma hennar kunni svo mikið af
sögum. Hún hafði kynnst svo mörgu á lífsleiðinni að hún
var hafsjór af fróðleik. Margt kvöldið hafði hún frætt
hana og Ægi um gamla tímann, sagt frá lífi sínu og kennt
þeim ævintýri, vísur og þulur.
Jakobína starði fram fyrir sig og prjónarnir féllu í
kjöltu hennar.
- Það var einu sinni er ég var í vinnumennsku í næst
sveit, þá var á bænum vinnumaður sem hét Hannes. Hann
var mjög dulur, talaði lítið og söng aldrei. Það var dálítið
undarlegt þar sem hann var kominn af mikilli söngætt, en
aldrei kom það fyrir að Hannes svo mikið sem raulaði
fyrir munni sér. Hann var ekki mannblendinn og við
kynntumst aldrei mjög náið. Hannes kaus að vera út af
fyrir sig fremur en blanda geði við fólk.
Við vorum samtíða á bænum í þrjú ár. Eitt sumarið
kom kaupakona til okkar, ung, kát og fjörug. Eitthvað
held ég að hún hafi gefið Hannesi undir fótinn, eða að
minnsta kosti hefur hann tekið því svo. Stundum er fólk
misskilið ef það er almennilegt, mannblendið og hlýlegt,
en ég vissi aldrei hvernig þetta var. Að minnsta kosti fór
stúlkan sú um haustið og við fréttum svo skömmu fyrir
jól að hún hefði gift sig útgerðarmanni á Akureyri.
Líklega hefur geðheilsa Hannesar eitthvað brákast við
þessar fréttir. Það er svo einu sinni eldsnemma morguns
að við heyrum söng af skemmuloftinu. Við heyrum strax
að það er Hannes að syngja „Allt eins og blómstrið eina“.
Við hlupum auðvitað til, því eitthvað mikið hlaut að vera
að fyrst Hannes var að syngja. Þá sat karlinn á skemmu-
loftinu og var að dunda við að skera sig á háls. Gallinn
var bara sá að hann byrjaði aftan frá.
Jakobína gerði hlé á máli sínu en Alda starði á hana op-
inmynnt.
- Dó hann?
Jakobína hló.
- Nei, hann dó ekki. Það náðist að taka af honum hníf-
inn og stöðva blæðinguna. Hann missti mikið blóð og var
nokkrar vikur að ná sér. En eftir það varð hann sami
gamli Hannes sem sagði fátt og söng aldrei. Hann hallaði
að vísu alltaf á eftir þetta, en hann virtist þó ekki bíða svo
mikinn skaða af því. En sálmurinn bjargaði lífi hans. Ef
hann hefði ekki farið að syngja þá hefðum við ekki kom-
ið að honum og honunr kannski tekist að fyrirfara sér.
- Ja, hérna. En af hverju söng hann?
- Hvað veit ég. Kannski sjálfum sér til sáluhjálpar. En
svona geta menn farið út úr ástarsorg. Kannski hefur
Kjartan átt við ástarsorg að stríða.
Það fór hrollur um Öldu.
- Ekki vildi ég að einhver fyrirfæri sér út af mér.
- Nei, barnið mitt. Mundu bara að gefa mönnum ekki
undir fótinn. Vertu hreinskilin og passaðu meydóminn
þinn vel. Þegar þú svo giftir þig þá skaltu vera viss um að
hann sé sá eini rétti.
Stúlkan sat hugsi dálitla stund.
- Amma, heldurðu að ég ætti kannski ekki að fara með
Hrafni á vorballið á Klettstanga? Ég er búin að lofa því.
Gamla konan faldi bros. Hún vildi ekki láta stúlkuna
sjá hve henni var skemmt.
- Jú, það ætti að vera í lagi. Þið eruð skólafélagar og
vinir. Varla færuð þið að gera neitt ósiðlegt?
- Nei.
Alda blóðroðnaði. Það var svo undarlegt með ömmu
hennar. Það var eins og hún gæti lesið hugsanir. Hvað
sem hún sagði þá vissi hún stundum meira en annað fólk.
Það var barið að dyrum og Jakobína flýtti sér fram.
Hún heilsaði glaðlega og bauð í bæinn. Sigmundur allra-
gagn var kominn til að vita um líðan Sigríðar.
* * *
Það var komið kvöld og litlu sýslumannsdæturnar sofn-
aðar. Lína hafði breytt vandlega yfir þær og beðið Sollu
gömlu að líta eftir þeim. Solla var gömul kona sem bjó í
næsta húsi og gerði oft viðvik fyrir sýslumannsfrúna.
Hún launaði henni ríkulega og fannst ómetanlegt að eiga
hana að. Það var bindandi að eiga lítil börn og Lína gat
ekki hugsað sér að komast aldrei út úr húsi. Það var held-
ur ekkert heilsusamlegt fyrir ófrískar konur að stappa
bara á steingólfi allan daginn. Hún vildi komast út, anda
að sér fersku lofti og hreyfa sig.
Útivistaráhugi Línu var ekki eina ástæða þess að hún
fór út þetta kvöld. Kristján sýslumaður var að heiman og
hún ætlaði að nota tímann vel. Hann hafði komið inn hjá
henni frábærri hugmynd sem hún ætlaði að hrinda í fram-
kværnd. Hún ætlaði sér að virkja konurnar í þorpinu í
lögreglustörf og saman gætu þær klófest óþokkann sem
hafði farið ránshendi um bæjarhúsin á Hóli.
Þótt Lína væri dálítið forvitin og hefði gaman af að
segja sögur, þá var hún líka afar góðhjörtuð. Það fór dá-
lítið í taugarnar á henni þarna í afskektinni hve lítið var
að gera. Konur í Klettstanga voru bara konur. Þær unnu í
fiski og hugsuðu um heimili, en Línu fannst þær allt of
atkvæðalitlar. Þarna var karlaveldi og þeir bókstaflega
réðu lögum og lofum. Það var helst að Borghildur í
Brekkubæ gengi í stjórnunarstörf en hún var þá líka fjar-
stýrð af eiginmanninum. Þetta fór í taugarnar á Línu.
Heima hjá henni í Kaupmannahöfn var þessu öðruvísi
varið. Konur voru farnar að sækja í karlastörf og mennta
sig til þeirra. Þannig vildi hún hafa það.
Lína var mjög hrifin af manni sínum og það hafði verið
erfið ákvörðun að velja það að fylgja honum á Ströndina.
Hún elskaði hann afar heitt, en hann var af gamla skólan-
um og því var erfitt að breyta. Hann áleit að hlutverk
konunnar væri að eignast börn og hugsa um þau og heim-
ilið. Einu sinni hafði henni dottið í hug að sækja um
kennslu í Klettstangaskólanum. Hún gat kennt dönsku
betur en nokkur annar, en hann tók það ekki á mál.
Heima er bezt 307