Heima er bezt - 01.07.2001, Qupperneq 68
Sýslumannsfrúin átti að vera heima en ekki úti á vinnu-
markaðnum. Lína hafði sætt sig við þetta lengi vel, þótt
hún væri ekki ánægð, en nú var hún eiginlega búin að fá
nóg. Þótt hún væri komin lagt á leið, þá var hún ekki til-
búin að sitja með hendur í skauti og flétta á sér hárið.
Hún hafði komið sér vel hjá hinum konunum og ef til vill
gæti hún fengið þær til að vera virkari og standa meira
uppi í hárinu á körlunum. Hana klæjaði í lófana að hafa
eitthvað þannig fyrir stafni.
Þrátt fyrir fyrirferðarmikla bumbuna var Lína léttstíg er
hún arkaði inn bæinn. Hún ætlaði í Gunnuhús. Þótt
Gunna væri eilítið létt á bárunni, þá kunni Lína vel við
hana. Hún var sjálfstæð, sá vel fyrir sér og var alveg sama
um umtal annara. Það var líklega hennar mál hvort hún
reykti vindla, drykki brennivín eða svæfi hjá kostgöngur-
unum.
Gunna var dálítið undrandi er hún opnaði fyrir Línu.
Hún heilsaði þó glaðlega.
- Er nokkuð að?
Lína blés mæðinni.
- Nei, ég þarf bara nauðsynlega að tala við þig.
Gunna bauð henni til stofu og vissi ekki alveg hvernig
hún átti að vera. Hún hafði setið með góða bók, vindilstúf
og koníakstár er Lína kom. Hún hafði ekki átt von á nein-
um gestum þetta kvöld.
Það virtist ekki koma mikið við Línu að sjá koníaks-
staupið eða vindilstubbinn. Hún lét fallast niður í hæg-
indastól og stundi við.
- Það getur verið býsna erfitt að ganga með þessi
blessuð börn, sérstaklega ef maður er að flýta sér.
Gunna brosti.
- Ég hef nú aldrei verið svo lánsöm að eignast börn, en
ég get ímyndað mér að það geti tekið á.
Lína hló.
- Ég kom nú reyndar ekki til að tala um börn eða með-
göngu, ég kom til að tala um karlmenn.
Nú var Gunna undrandi.
- Hvað áttu við?
- Mér finnst sumir karlmenn ósköp heimskir, þótt þeir
séu vel gefnir. Mér finnst að við konurnar ættum að hafa
meiri völd, ráða meiru. Þeir eru stundum svo skelfing
grænir greyin.
Gunna skellti upp úr.
- Ertu að meina eitthvað sérstakt, Lína mín?
- Já. Það munaði minnstu að hann Sigmundur lenti í
steininum fyrir þjófnaðinn á Hóli. Ég vissi að hann gat
ekki verið sekur. Ég held að við verðum að koma upp um
þennan verknað áður en búið er að loka einhvern saklaus-
an inni í kjallaranum hjá mér.
Gunnu svelgdist á vindlinum. Hún hóstaði nokkra
stund.
- Hvað eigum svið sosum að gera?
- Taka höndum saman. Það býst enginn við neinu
merkilegu af konum hvort sem er, svo að hinn seki er ef-
laust grandalausari gagnvart okkur. Ég veit bara ekki við
hverjar er best að tala. Borghildur er alveg komin að
Strönd og ætlar víst að kaupa Hól svo að það er ekkert
víst að hún komi aftur. Ætli hún skilji ekki bara við Jökul?
Gunna starði á Línu.
- Heyrðu mig, viltu koníak?
- Nei, ekki fyrr en barnið er fætt. Hann Kristján fengi
slag og lokaði mig inni ef ég lyktaði af brennivíni, komin
á steypirinn, en ef þú átt sterkt kaffi þá vil ég það.
Gunna flýtti sér fram til að ná í kaffi handa Línu. Hún
var mjög undrandi yfir þessari heimsókn og í fljótu
bragði skildi hún ekki hvað sýslumannsfrúin var að fara.
Það voru allir að tapa glórunni í plássinu þessa dagana.
Sýslumannsfrúin orðin kvennréttindakona, Kjartan búinn
að hengja sig og Brekkubæjarhjónin að skilja. Það var
eins og að þessa óveðursnótt hefði skyndilega allt orðið
vitlaust.
Lína tók við kaffibollanum og saup hressilega á.
- Þú sérð það Gunna mín, við verðum að gera eitthvað.
Kristján ætlar að fara að kalla á einhverja lögreglumenn
frá Akureyri til að yfirheyra okkur. Ég held að þá muni
nú taka steininn úr. Ef við getum ekki leyst einfalt þjófn-
aðarmál sjálf, þá erum við einfaldlega ekki sjálfbjarga. Ef
við náum þjófnum, þá er kannski von til þess að lífið hér
komist í fastar skorður. Við verðum til dæmis að fá Borg-
hildi heim aftur. Hver á að stjórna fiskvinnslunni? Varla
fer Jökull að koma í land til þess og guð hjálpi konunum
þá, eins og skapið í honum er.
Gunna kímdi og leyfði Línu að láta móðan mása. Hún
var ung og ör. En hún var alls ekki búin. Heldur leit
íbyggin á Gunnu.
- Ætlar þú að taka saman við Sigmund?
Gunna varð orðlaus.
- Hva, ég, af hverju?
- Þið eruð saman er það ekki?
- Ef þú meinar hvort við séum elskendur þá er svarið já,
en ég ætla ekki að giftast honum. Ég ætla alls ekki að
giftast.
Lína hugsaði sig um. Hún var nægilega ung til að skilja
þessa afstöðu. Það var ekkert að því að Gunna og Sig-
mundur ættu góðar stundir saman. Guðs blessun skaðaði
samt ekki. Gunna saup á koníakinu.
- Ég vil engar skuldbindingar. Hins vegar er mér mjög
vel við Sigmund og það var gott að fá hann til baka.
- Hvað var hann að gera í Reykjavík?
Gunna stundi.
- Hann neitar að segja mér það, en að minnst kosti var
hann vel fjáður er hann kom til baka.
Lína kinkaði kolli.
- Kristján veit ástæðuna og að minnsta kosti tók hann
hana góða og gilda. Ég er samt ekki viss. Hvað gerist ef
einhverjir ókunnir lögreglumenn koma og ef þeir finna
engan sökudólg. Taka þeir þá ekki Sigmund af því að
hann var að slá um sig með fé á sama tíma?
- Ég veit það ekki.
- Gerum eitthvað. Leggjum gildru fýrir þjófinn. Gunna,
þú verður að hjálpa mér, en Kristján má alls ekki vita
neitt. Við skulum upplýsa þetta mál.
308 Heima er bezt