Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 2
2
Undanfarið ár hefur verið
viðburðaríkt og engar
hindranir í vegi fyrir því
að geta hist. Félagsfundir
voru margir með góðu
blandi af gamni og alvöru.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ setti okkur inn
í starfsemi samtakanna og
baráttumál þeirra. Rósa Kristjánsdóttir djákni,
innleiddi umræðu um dauðann og tilfinningar
honum tengdar og Sveindís Anna Jóhannsdóttir,
félagsráðgjafi upplýsti okkur um réttindi okkar
og skyldur.
Við skemmtum okkur ekki síður sjálf með félagsvist og
Bingó sem var vel sótt, enda tilvalin leið til að kynnast
fólki. Á fyrsta fundi haustsins var fjölbreytt umræða um
starfsemi félagsins og komu fram áhugaverðar hugmyndir
til hagsbóta fyrir starfsemi samtakanna, baráttumál og
áhugaverða afþreyingu sem vert er að skoða saman.
Mánaðarlegur hanndavinnuhittingur hefur áunnið sér sess
þar sem hress hópur hittist og ræðir allt milli himins og
jarðar frá öllum mögulegum hliðum.
Á aðalfundi í maí var ný stjórn kjörin og var Andrjes
Guðmundsson endurkjörinn formaður, Gunnhildur
Hlöðversdóttir, Fjóla Grímsdóttir og Helga S. Ragnarsdóttir
endurkjörnar í stjórn og inn komu Bjarnfríður
Guðmundsdóttir, Hrönn Árnadóttir og Eyþór Bjarki
Sigurbjörnsson en sá síðastnefndi sagði sig úr stjórn
fljótlega eftir stjórnarkjör og hefur ekki starfað með
stjórninni.
Eyjólfur Guðmundsson, Ragnhildur Steingrímsdóttir og
Þorsteinn Óskarsson létu af stjórnarstörfum og er þeim
þakkað vel unnin störf. Sérstakt þakklæti fær Eyjólfur sem
ávallt hefur verið óþreytandi í ýmsum verkefnum fyrir
félagið til margra ára.
Á aðalfundi gaf Ásmundur Þórisson félaginu nýjan
hátíðarfána en sá gamli úreltist með nýju nafni félagsins.
Þetta er höfðingleg gjöf og þökkum við honum kærlega
fyrir. Hann gaf okkur jafnframt borðfána sem verða nýttir
á mannamótum og til gjafa á viðeigandi stundum.
Við héldum áfram að gera tilraunir með að streyma
fundum beint til félaga okkar á Akureyri. Gekk það nokkuð
brösuglega en við vonumst til að ná betri tökum á tækninni
og höldum áfram þessum tilraunum. Unnið er að því að
fjölga hópum á landsbyggðinni sem gætu hist og fylgst
með fundum okkar í beinu streymi en til þess að svo megi
verða þarf að finna heimamenn sem eru til í að halda utan
um verkefnið á hverjum stað.
Mikil vinna fór í endurreisn Vísindasjóðs Lungnasamtakanna
en starfsemi hans komst aldrei á skrið af ýmsum ástæðum
eftir stofnun hans árið 2017. Ný stjórn var kjörin og gekk
hún í fyrirliggjandi verkefni af einhug og verður úthlutað
úr sjóðnum í fyrsta skipti í desember 2023.
Í lok maí fór undirritaður á aðalfund EFA (European
Federation of Allergy and Airways Diseases
Patients´Associations) sem haldinn var í Gent í Belgíu.
Fundurinn var hefðbundinn aðalfundur en líka vinnu- og
fræðslufundur. Lungnasamtökin höfðu frumkvæði að því
að koma á vinnuhóp innan EFA þar sem rannsakað verður
hvernig ferðamenn geti nálgast súrefnisþjónustu í hverju
landi fyrir sig á sem hagkvæmastan hátt. Þeir sem til þekkja
vita að þetta er flókið verkefni og mjög breytilegt og
jafnvel háð staðsetningu innan landanna.
Verkefni komandi vetrar verða á svipuðum nótum og
undanfarin ár, þ.e. að vinna að fræðslu og baráttu fyrir
réttindum og gæðum í þjónustu fyrir okkar félagsmenn.
Eitt af verkefnunum verður að fylgja því eftir að
súrefnisþjónustan verði betur skilgreind og farið verði eftir
samningum sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert en ekki
samkvæmt duttlungum þjónustuaðila. Lungnasamtökin
eru í góðu sambandi við SÍ sem munu vinna með okkur
í að koma þessu í góðan farveg.
Þegar rætt er um lungnasjúkdóma og velferð lungnasjúkra
hefur oft komið upp sú staða að takmörkuð þekking okkar
á fjölda lungnasjúklinga og mismunandi greiningar sem
þeir hafa fengið hefur háð okkur í umræðum um okkar
mál. Unnið er að því að fá tölfræðilegar upplýsingar frá
landlækni sem mun auðvelda okkur fjalla um okkar mál.
Við uppgjör síðasta árs var ákveðið að færa bókhald
og uppgjör félags til endurskoðunarfyirtækisins
Grant Thornton Endurskoðunar ehf. Frá stofnun
Lungnasamtakanna hefur Brynja Runólfsdóttir séð um
bókhald félagsins og fáum við seint þakkað framlag hennar
til félagsins.
Stjórn Lungnasamtakanna vonast eftir góðu og öflugu
vetrarstarfi og óskar þess að sem flestir láti sjá sig og eigi
skemmtilegar stundir á félagsfundum í vetur. Jafnframt
bindum við vonir við að vel takist til í réttindabaráttu
okkar.
Andrjes Guðmundsson, formaður Lungnasamtakanna.
Formannsspjall
Kæru félagar