Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 12

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 12
12 var í 90% vinnu. Svo var ég að skúra hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga þrisvar í viku þannig að það var nóg að gera hjá mér. Ég vann alveg þangað til sjötta júní en þá var ég að gera mig klára fyrir næturvakt klukkan tíu um kvöldið þegar mér leið allt í einu eins og einhverju hefði hreinlega verið hent í mig. Ég var komin með fjörtíu stiga hita en fannst ég ekki getað afboðað mig með svona skömmum fyrirvara. Að vísu hefði ég ekki haft þrek til að opna útidyrnar, hvað þá meira, svo að ég hringdi og afboðaði mig og lá yfir helgina í veikindum.“ Kaflaskil Á mánudeginum hringdi hún á læknavaktina og fékk þau svör að hún fengi ekki tíma strax hjá lækni nema bera það undir hjúkrunarfræðing fyrst. „Það tókst loksins og hún tók af mér blóðprufu þar sem kom í ljós að ég var með einhverja sýkingu. Þá fékk ég að tala við lækninn sem setti mig á lyf við lungnabólgu. Ég fór heim og tók lyfið og ætlaði svo bara að mæta í vinnuna þegar ég væri orðin hressari.“ Af því varð þó ekki, þar sem þau kaflaskil urðu í lífi Kolbrúnar að hún mætti ekki aftur til vinnu. Eftir þessi veikindi segist Kolbrún hafa gert sér ljóst að hún þyrfti að leita sér lækninga sjálf. „Það var enginn að grípa mig í þessum aðstæðum. Ég hafði verulegar áhyggjur af veikindum mínum og sá fram á að ég myndi sennilega ekki fá þá þjónustu sem ég þyrfti heima. Ég var hvorki sett í myndatöku né blásturspróf, það var ekkert verið að spandera í það,“ segir hún og brosir tvíræðu brosi. Hún hringdi því í systur sína sem hafði verið hjá lungnalækni og leitaði ráða. Þetta var í júní og í framhaldinu pantaði hún tíma hjá sérfræðingi en komst ekki að fyrr en í nóvember sem hún var ekki alveg sátt við. Systir hennar fór í málið og skömmu seinna var Kolbrún komin með tíma hjá Stefáni Þorvaldssyni, lungnalækni. Lungnabilun á lokastigi „Stefán var mjög snöggur að sjá hvað væri að mér. Ég var send í lungnamyndatöku og rannsóknir og að þeim loknum sagði hann að lungnastyrkurinn hjá mér væri ekki nema 25% og að ég væri með lungnabilun á lokastigi. Hann sagði að það væri svo mikil þétting í öðru lunganu að hann gaf hálfpartinn í skyn að ég gæti verið með krabbamein í lunganu.“ Kolbrún þurfti því að koma aftur eftir mánuð í myndatöku og fékk tíma á þriðjudegi. Að henni lokinni sagðist Stefán hringja í hana í síðasta lagi á föstudeginum og láta hana fá niðurstöðurnar. „Ég kannski nagaði ekki af mér neglurnar,“ segir hún og hlær, „því að ég hætti þeim ávana um leið og ég hætti að reykja. En auðvitað var ég búin að vera mjög kvíðin þennan mánuð. Ef maður er kominn með krabbamein, hvað gerir maður þá? Ég var náttúrulega búin að upplýsa krakkana um hvað gæti hugsanlega verið að til að þau væru undir það búin.“ Lottóvinningur Á föstudeginum heyrist ekkert í Stefáni og Kolbrún bíður til klukkan fjögur. „ Andskotinn! Þarf ég að bíða alla helgina?“ segist hún hafa hugsað. Fjórum mínútum seinna hringdi hann og baðst innilega afsökunar á að hafa hringt svona seint en hann hafði sjálfur verið að bíða eftir niðurstöðunum. „Hann sagði bara að það væri eins og ég hefði unnið í lottóinu,“ segir Kolbrún og brosir breitt. „Þú ert ekki með krabbamein! Ef ég hefði verið með krabbamein ofan á lungnabilun á lokastigi hefði það ekki verið gæfulegt. Það hefði eiginlega ekki verið auðvelt að meðhöndla það.“ Eftir þessa greiningu sótti Stefán um endurhæfingu fyrir Kolbrúnu á Reykjalundi. Áður en hún fór þangað fékk hún hins vegar veirusýkingu í lungun og þegar hún komst svo loks í innlögn í októberlok hélt hún áfram að veikjast. „Ég var mjög seig að næla mér í allt sem var í boði og náði mér meira að segja aftur í COVID,“ segir hún á sinn gráglettna hátt. Reykjalundur – dásamlegur staður! Þrátt fyrir þessa óheppilegu byrjun á dvölinni ljómar Kolbrún hreinlega þegar hún rifjar þennan tíma upp. „Að fara á Reykjalund er eitthvað sem er varla hægt að lýsa því það er svo dásamlegur staður! Oft þegar maður kemur á ýmsar stofnanir er eins og þessi mannlegu gildi gleymist. En á Reykjalundi er maður svo umvafinn. Það eru allir að leggja sig fram við að koma þér á einhvern betri stað og finna út hvað sé að plaga þig. Maður þarf ekki að biðja um neitt, heldur er maður bara leiddur áfram í það sem þarf að gera. Það var alveg sama hvert þú fórst, það var alls staðar gleði í loftinu og fólk að bjóða góðan dag og sýna umhyggju. Helst hefði ég bara vilja setjast þarna að,“ segir hún og hlær. „En það var nú ekki í boði.“ Erfiðar fréttir að fá svona vél Kolbrún segir að dvölin á Reykjalundi hafi verið mjög lærdómsrík. „Þarna var ég leidd á mjög fagmannlegan hátt í gegnum það erfiða ferli að verða súrefnisþegi. Það voru óneitanlega svolítið erfiðar fréttir að þurfa að fá svona vél og mér brá. Auðvitað er það ógnvekjandi að vita að maður sé með lífsógnandi sjúkdóm. Það er ekki eins og maður sé bara tilbúinn að deyja. Maður gerir ýmislegt til að halda sér á lífi og til þess reynir maður náttúrulega að fara eftir því sem manni er ráðlagt. Mér þótti eiginlega erfiðast að segja krökkunum mínum þetta. En þau eru svo heilsteypt að þau bara hristu hausinn og sögðu að þetta yrði ekkert mál. Barnabörnin mín voru líka fljót að læra og eru núna mjög spennt að fá að slökkva og kveikja á tækinu. En þau spyrja mig líka stundum „Amma ertu ennþá lasin?“ Reykjalundur í Mosfellsbæ

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.