Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 6
6
Örugglega eitthvað að rugla!
Kallið kom svo loksins föstudaginn 15. september. „Ég hafði
farið að vinna klukkan sjö um morguninn og þegar ég kom
heim klukkan fjögur, sat Eiríkur í rauða Maraþonbolnum
sem hann hafði fengið mánudeginum áður hjá Lungna-
samtökunum. Hann sagðist hafa ákveðið að fara í honum
í ræktina um morguninn. Eftir kvöldmat fáum við systur
okkur kvöldkaffi saman en við hittumst daglega og jafnvel
tvisvar á dag. Önnur systir mín býr á móti okkur. Ég hafði
ekki tekið símann með mér. Ég man að þegar síminn
hringdi hjá systur minni var klukkan 20:47 og Eiríkur sagði:
„Kallið er komið.“ Eyrún segist hafa sagt honum að vera
ekki með þetta bull! „Jú, Eyrún, kallið er komið!“ Þá sagðist
hún hafa heyrt að honum væri alvara. „Ég hleyp því yfir
og segi stelpunum að bíða aðeins. „Hann er örugglega
eitthvað að rugla!“
Fimm hleðslutæki
Eyrún segist hafa spurt Eirík hvað hann væri að meina en
hann sagði sem fyrr að kallið væri komið og að hann væri
bara að bíða eftir einni hringingu og að þetta væri alveg
satt! „Í einhverju fáti fer ég að setja uppþvottavélina í gang
sem var alger óþarfi að gera og öskra á systur mínar að þær
verði að koma yfir og hjálpa mér. Þær koma og það var nú
bara þeirra vegna sem ég var með eitthvað af viti með mér.
Úlpu og einhver nærföt en svo var ég með eitthvað um
fimm hleðslutæki,“ bætir hún við og við skellum báðar upp
úr. „Ég veit ekki alveg af hverju,“ heldur hún áfram hlæjandi
„og eitthvert fáránlegt drasl sem ég hafði ekkert við að
gera. En þetta hafðist og átta mínútur yfir níu hentumst
við af stað suður í sjúkrabílnum og Eiríkur ennþá í rauða
Maraþonbolnum.“
Búið að stoppa umferðina
Á leiðinni var þeim sagt að flugfélagið Ernir myndi
fljúga með þau til Svíþjóðar en svo var þeim tilkynnt að
þeir gætu því miður ekki mannað vélina en að flugvél
frá Icelandair yrði tilbúin fyrir þau. „Við brunuðum
því beint út á Reykjavíkurfluvöll. Þegar við komum
að Hvalfjarðargöngunum segir Eiríkur að eitthvað sé
greinilega að því að allt sé stopp. Við höfum orð á því við
sjúkraflutningamennina og þeir segja að þetta sé bara
fyrir okkur. Það var sem sé búið að stoppa umferðina og
við brunum í gegnum göngin og beint upp í vél, hálf tólf
um kvöldið og mig minnir að við höfum lent í Svíþjóð um
klukkan þrjú. Þar beið okkar sjúkrabíll sem fór með okkur á
Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg. Þar biðum við þangað
til Eiríkur fór af stað í aðgerðina korter yfir eitt um hádegið
daginn eftir. Þá var búið að gera allar blóðprufur og allt
sem þurfti.“
Í millitíðinni segir Eyrún að Ágúst Einarsson, sem er prestur
í Gautaborg, hafi sagt að hann væri búinn að útvega henni
gistingu á Johannesvilla sem er við hliðina á deildinni þar
sem Eiríkur lá. „Þannig að það rúllaði allt og gekk upp. Svo
fór hann í aðgerðina og klukkan hálf átta var hringt í mig
og þá var hann búinn. Þetta tók því ekki nema sjö tíma.“
Hafði hjálparlínuna
Nánast hver einasta mínúta í þessari atburðarás er
ljóslifandi fyrir hugskotsjónum Eyrúnar. Þótt hún hafi orð
á hvað allt hafi gengið fljótt og vel fyrir sig bætir hún við
eftir smá hlé: „Þessi bið var nú ekkert sérstök. Ég get nú
ekki sagt það. Sem betur fer hafði ég hjálparlínuna, þ.e.a.s.
systur mínar. Þær hjálpuðu mér í gegnum oföndunina og
allt sem átti sér stað þarna. Þannig að það gekk allt saman
upp,“ segir hún með glettnisblik í auga.
Upplýsingagjöfin
Spurð hvort það hafi ekki verið einhver á spítalanum sem
hún gat talað við meðan hún var að bíða, svarar hún:
„Ágúst var alltaf til staðar og til hans gat ég leitað hvenær
sem var. Ég talaði samt mest við fjölskyldu mína og vini.
Annars þurfti ég svolítð að sækja mér upplýsingarnar sjálf
á spítalanum meðan ég beið. En svo þegar kom að þessum
praktísku upplýsingum eins og fyrir heimferðina, þá voru
manni lagðar lífsreglurnar varðandi lifnaðarhættina og
lyfin.“Í framhaldi af þessari umræðu bætir Eyrún því við
að á sama tíma hafi sér þótt mjög gott að vera einni með
sjálfri sér og fá að melta þetta í friði. „Þetta hlutverk, að
vera aðstandandi, er alveg nógu mikið þó að maður sé ekki
líka almannatengill,“ segir hún og hlær sínum skemmtilega
hlátri.
Gott að eiga góða að
„Maður þarf á öllu sínu að halda og sérstaklega húmornum.
Svo veit ég ekki hvernig væri ef maður ætti ekki svona góða
fjölskyldu,“ bætir hún við á alvarlegri nótum. Helgina eftir
segir Eyrún að börnin þeirra hafi svo komið til Svíþjóðar.
„Tvö þeirra sem búa á Íslandi komu út og tvö sem búa í
Danmörku komu yfir. Þau komu bara öll saman, keyrðu
til okkar og voru heila helgi og gátu heimsótt Eirík. Svo
eyddum við tíma saman. Mikið hlegið og mikið gaman. Það
er alltaf svoleiðis. Þetta eru englar sem maður á.“
Eyrún segist hafa tekið sér frí frá vinnu og að hún hafi notið
ótrúlega mikils stuðnings þaðan. „Stofnunin hefur staðið
þétt við bakið á mér og sagt mér að taka bara minn tíma
og hafa ekki áhyggjur af neinu. Ótrúlega vel staðið að. Svo
á ég alveg rosalega góða vinnufélaga sem eru búnir að vera
frábærir. Þéttan og góðann hóp. Alger gull!“
Langur biðtími
Þau Eiríkur og Eyrún voru í tæpar fjórar vikur í Svíþjóð og
komu svo heim til Íslands föstudaginn 13. október. Allt
hefur gengið samkvæmt áætlun eftir aðgerðina. Fyrir utan
töfina vegna COVID lengdist biðtíminn að sögn Eyrúnar þar
sem allt þurfti að passa. „Rúmmál lungnanna, blóðflokkar
og fleira. Hann er líka með eitthvert mótefni í blóðinu sem
við vissum reyndar ekki af fyrr en núna í apríl á þessu ári
og það setti sitt strik í reikninginn. En það hafðist. Þetta
var alla vega lengri biðtími en væri annars. Þess vegna var
maður búinn að henda tékklistunum nokkrum sinnum og
taka upp úr neyðartöskunni og allt,“ segir hún og hlær.