Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 22

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 22
22 Heilsulæsi, sjúklingafræðsla og þátttaka í eigin meðferð Frá ritstjórn sjúklingafræðslu á Landspítala Stjórn Lungnasamtakanna fór þess á leit við ritstjórn sjúklingafræðslu á Landspítala að skrifa grein í blað samakanna um þátttöku sjúklinga í eigin meðferð og þá fræðslu sem stæði til boða í þeim efnum. Var þeirri beiðni vel tekið og eftirfarandi eru fróðlegar upplýsingar um mikilvægt málefni. Miðstöð sjúklingafræðslu á Landspítala Á Landspítala er starfandi Miðstöð sjúklingafræðslu sem stofnuð var árið 2020. Miðstöðin heyrir undir skrifstofu  framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga á spítalanum. Hugmyndin um stofnun hennar er sótt í stefnuskjal sem spítalinn setti fram um þátttöku sjúklinga og aðstandenda í meðferð, fyrst árið 2008 en var síðan endurskoðað árið 2019. Miðstöð sjúklingafræðslu er ætlað meðal annars að: f Hafa forystu um samræmingu í þróun og miðlun fræðslu til sjúklinga, aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks. f Innleiða gagnreyndar aðferðir sem styðja við nám og styðja við heilsulæsi þeirra. Á miðstöð sjúklingafræðslu er starfandi ritstjórn sem vinnur með höfundum fræðsluefnis að því að allt fræðsluefni sé sett fram með heilsulæsi notenda í huga og innihald þess sé samkvæmt bestu þekkingu hverju sinni. Landspítali hefur um langt árabil gefið út fræðsluefni fyrir sjúklinga og aðstandendur um meðferð sem þar er veitt, þjónustu spítalans og margt fleira en þörf var á að samræma þá útgáfu og innleiða nýjungar í miðlun þeirra. Heilsulæsi Hugtakið heilsulæsi hefur talsvert verið í umræðunni síðustu ár. Með því er átt við þekkingu, hvatningu og getu fólks til að nálgast, skilja, meta og nota upplýsingar sem tengjast heilsu þess til að taka ákvarðanir í daglegu lífi varðandi notkun heilbrigðisþjónustu, fyrirbyggingu sjúkdóma og heilsueflingu. Þannig er sú skylda sett á herðar heilbrigðisstarfsfólks að það taki tillit til heilsulæsis í samskiptum sínum við sjúklinga, hvort sem um er að ræða ráðgjöf, stuðning eða fræðslu. Enn fremur að allt fræðsluefni sem er útbúið og miðlað uppfylli kröfur um einfalt orðalag, skýrleika, hjálplega notkun myndefnis o.s.frv. Notkun tækni- og veflausna Nútíminn gerir æ meiri kröfur til sjúklinga hvað varðar notkun tækni- og veflausna. Dæmi um það eru kröfur um að fylla út umsóknir sem tengjast heilsu manna á netinu, að sækja og nota smáforrit (öpp) svo sem Landspítala- Appið eða nota Heilsuveru til að endurnýja lyf, panta tíma hjá lækni og sækja fræðsluefni sem þangað er sent. Þannig hefur hugtakið stafrænt heilsulæsi bæst við flóru þeirra hugtaka sem notuð eru til að lýsa getu sjúklinga til að notfæra sér upplýsingar sem tengjast heilsu sér til gagns. Þróun lausna fer svo hratt að heilbrigðisstarfsfólk á fullt í fangi með að fylgja þeirri þróun eftir, hvað þá sjúklingar sem oft búa við skerta færni af ýmsum ástæðum. Þátttaka sjúklinga Á sjúklingum hvílir sú skylda að veita nauðsynlegar og réttar upplýsingar um heilsufar sitt, og að tjá sig um þarfir sínar, þar með taldar þarfir fyrir fræðslu og upplýsingar. Samvinna er nauðsynleg til að árangur náist. Sjúklingar geta gert ýmislegt til að fá betri upplýsingar og auka öryggi sitt í heilbrigðiskerfinu. Sem dæmi má nefna að vera búinn að skrifa niður spurningar til að spyrja í væntanlegu viðtali við heilbrigðisstarfsmann, hafa lesið skriflegt fræðsluefni og taka aðstandanda með í viðtalið til að hjálpa sér að skilja og muna það sem sagt er. Gott er að hafa í huga þrjár lykilspurningar þegar komið er í viðtal: 1. Hvað er að mér, hvert er mitt helsta vandamál? 2. Hvað get ég gert? 3. Af hverju er mikilvægt fyrir mig að gera það?

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.