Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 20

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 20
20 Öðruvísi viðhorf til reykinga Fyrir ekki svo löngu voru reykingarnar heldur ekki álitnar neitt sérstaklega hættulegar. Þvert á móti þóttu þær bara töff. Því má ekki gleyma. Kristján rifjar upp atvik frá því hann var að vinna úti á landi. Þar var einhver karl að svíða kindahausa inni í litlum, gluggalausum skúr. „Þetta var svo dásamlega vitlaust,“ segir Kristján og skellir upp úr. „Svo eftir einhvern tíma kemur karlinn út til þess að fá sér ferskt loft, alveg kolbikasvartur í framan, dregur pakka upp úr vasanum og fær sér sígarettu! Alveg það sem hann vantaði mest eftir að hafa verið innilokaður í allri drullunni og skítnum!“ Ekkert annað í boði Kristján varð að hætta að vinna þegar hann veiktist. „Hefði ég ekki fengið þetta væri ég ennþá að vinna,“ segir hann, enda nógu mikil kaflaskil að láta af störfum þótt veikindi eigi þar ekki hlut að máli. „Ég held það sé alveg einsýnt með framhaldið,“ heldur hann þó áfram, pollrólegur sem fyrr. „Maður er kominn í þessa blindgötu. Lífið heldur áfram þótt það sé komin öðruvísi áætlun. Það er eins og það er og ekkert hægt að breyta því, maður er kominn í þessa götu og reynir að gera gott úr því. Það er ekkert annað í boði,“ segir hann að lokum og brosir. Nokkur orð um áfengi og áfengisnotkun Eftir Helgu S. Ragnarsdóttur Upp á síðkastið hefur umræða um áfengisnotkun eldra fólks orðið talsvert áberandi. Nú er það svo að ekki ber mikið á því að eldra fólk sé að misnota áfengi svo það komi í fréttum eins og stundum er tilfellið með þá ungu þar sem allt fer á hvolf með áberandi afleiðingum. Það var til skamms tíma rætt á undirbúningsnámskeiðum fyrir starfslok að til þess að gera dagamun eftir að allir dagar væru orðnir eins væri hið besta mál að halda upp á helgi með því að fá sér svo sem eins og eitt glas eða einn bjór. Þetta er ekki lengur ráðlagt. Það hefur nefnilega verið að koma betur og betur í ljós að áfengisneysla er alltaf til skaða og ekki síst fyrir okkur sem erum orðin eldri. Jafnvel drykkja í miklu hófi hefur slæm áhrif á alls kyns kerfi í líkamanum og ekki síst á starfsemi heilans. Áhrifin vara lengur vegna hægari efnaskipta og þekkt tengsl við fallhættu sem og þunglyndi og kvíða ásamt tilheyrandi tilhneigingu til einangrunar ætti að vera nægilegt tilefni fyrir hvern og einn til að hugsa sitt ráð þegar kemur að áfengisnotkun. Það er líka almennt álit sérfræðinga að notkun áfengis samhliða svefnlyfjum sé ekkert minna en stórhættuleg. Það er nú samt svo að mjög margir hafa komist upp með þá lífshætti, án þess að afleiðingar séu augljósar en það er líka afar algengt að fólk kvarti undan því að hausinn á þeim virki ekki eins vel og einu sinni var. Það er nefnilega kannski ekki hægt að kippa honum úr sambandi á hverju kvöldi til lengri tíma og ætlast svo til að virknin sé fullkomin að deginum til þrátt fyrir það. Hér hefur verið talað um afleiðingar áfengisneyslu fyrir eldra fólk. En við lungnasjúklingar erum ekki bara lungnasjúklingar, við eldumst líka. Það er ekki síður áríðandi fyrir okkur en aðra að huga vel að því sem getur haft áhrif á almenna heilsu okkar. Okkar líf og heilsa er verðmæti sem á að passa upp á eftir bestu getu. Um það hljótum við öll að vera sammál.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.