Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 7

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 7
7 Þetta langa ferli hefur sannarlega tekið á taugarnar. „Fyrst eftir að hann komst á listann vorum við alltaf að bíða eftir að eitthvað myndi gerast, þar sem meðalbiðtíminn átti að vera sex mánuðir. Eftir þann tíma fannst manni þetta vera aðeins farið að dragast á langinn. Eftir ár vorum við orðin svartsýn um að ekkert væri að fara að gerast. Eftir eitt og hálft vorum við viss um að þetta yrði aldrei að veruleika og tókum upp úr töskunum.“ Dæmigert spennufall Í síðustu viku segir Eyrún að sér hafi dottið helíumblaðra í hug. „Ef þú stingur á hana, dettur hún bara niður. Tilfinningin var svolítið þannig í síðustu viku. Púff! Þá gerði ég mér grein fyrir því. Ekki það að ég hafi verið að hugsa um það alla daga að við værum að bíða, heldur áttaði ég mig á hvað þetta var búið að taka á, einhvers staðar hérna á bak við,“ segir hún og tekur um hnakkann. „Þegar biðin var loks á enda og allt yfir staðið gerði ég mér grein fyrir spennunni sem var búin að einkenna þetta hópstarf okkar Pollýönu og Nenna neikvæða allan þennan tíma. Þetta var alveg dæmigert spennufall!“ Þeir eru skuggavaktin Að sögn Eyrúnar eru aðstandendur mjög mikið útundan. „Þeir eru skuggavaktin. Það sér þá enginn. Ekki svo að skilja að hjúkrunarfólkið á Sahlgrenska hafi ekki reynst vel, það var alveg dásamlegt. Maður verður hins vegar svolítið eftir í upplýsingaveitunni. Eins og þegar læknirinn kemur að manni fjarstöddum og segir eitthvað við sjúklinginn sem er í oxívímu og man ekki fyrir horn, hvað þá fram á klósett,“ segir hún og hlær. „Ef aðstandandi er til staðar þá á hann að vera með í upplýsingagjöfinni. Ég varð hins vegar svolítið að afla mér þeirra sjálf. Aðstandendur eru með í þessu ferli alveg frá upphafi. Ég hef t.d. farið með Eiríki í nánast hvern einasta tíma og í öll tjekk fyrir aðgerðina. Núna erum við í þessu eftirferli og mér finnst ég vera farin að fá góða svörun frá þeim uppi á deild. Það er mjög gott flæði þar. Mjög góð samskipti við lungnateymið.“ Þetta er svolítið eins og sjórinn Nú þegar aðgerðin er loks yfirstaðin eftir þessa löngu bið og miklu spennu blasa nýir tímar við. „Framtíðin er bara einn dagur í einu,“ segir Eyrún að lokum. „Hver dagur er sigur og þeir eru búnir að vera allmargir núna. Auðvitað eru ekkert allir dagar alveg frábærir. Þetta er svolítið eins og sjórinn. Það koma öldur. Lífið er bara þannig en þá tæklar maður það. Þetta eru bara verkefni sem þarf að leysa. Þegar mér var boðið að vera hálfan mánuð í viðbót í fríi, þá þáði ég það af því að ég fann að ég var ekki alveg tilbúin. Starfið mitt felst aðallega í samskiptum og inneignin hjá mér var komin í svolítið lágmark. Ég er að safna inneign núna. Það er líka svo mikilvægt að gera einhver plön, hafa markmið og átta sig á því hvenær maður er tilbúinn.“ Á síðasta ári voru gerðar breytingar á sam- þykktum félagsins sem tryggja að styrkir til Lungnasamtakanna og Vísindasjóðs Lungnasamtakanna veita styrktaraðilum rétt til skattafrádráttar. Einstaklingur getur fengið skattafrádrátt (lækkun á tekjuskattsstofni) sem nemur allt að 350.000 kr.  (700.000 kr. hjá hjónum) á ári, vegna gjafa og framlaga til félagsins. Fyrirtæki geta einnig veitt styrk fyrir allt að 1,5% af rekstrartekjum sínum árlega. Skilyrði fyrir skattafrádrætti er að Lungnasamtökin sendi kvittun fyrir móttöku með upplýsingum um nafn, kennitölu gefanda og fjárhæð framlags. Auk þess þurfa Lungnasamtökin að senda inn skilagrein til skattsins við lok almanaksársins með samantekt framlaga hvers gefanda og skila þessum upplýsingum til Skattsins, samhliða öðrum árlegum gagnaskilum. Á grundvelli gagnaskilanna verður frádráttur áritaður á framtal gefanda. Þeir sem vilja styrkja félagið á þennan hátt geta lagt inn á styrktarreikningana: Lungnasamtökin: Kt. 670697-2079, reikningur 0133-15-380114 Vísindasjóður Lungnasamtakanna: Kt. 691217-0940, reikningur 0133-05-010098 Jafnframt þarf að senda inn upplýsingar um nafn og kennitölu gefanda, ásamt fjárhæð framlags á lung@lungu.is þannig að hægt sé að ganga frá kvittun og skilagreinum til skattsins. Almannaheillaskrá styrkir – skattafrádráttur

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.