Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2023, Blaðsíða 8
8
Að brjótast út úr viðjum einangrunar
Eftir Fjólu Grímsdóttur
Öllum reynist erfitt að
greinast með langvinnan
sjúkdóm og það tekur á
líkamlega en ekki síður
andlega. Mjög algengt
er að fólk með langvinna
sjúkdóma einangrist og
treysti sér ekki til að fara út
eða umgangast aðra, nema
að mjög takmörkuðu leyti. Ekki bætti COVID
úr fyrir langveika. Margir lokuðu sig alveg af
og eru ennþá með varann á, því að þessi miður
skemmtilega veira er ennþá á kreiki.
Við erum jú í eðli okkar öll félagsverur og þráum að tilheyra
vissum hópum. Öll höfum við þörf fyrir að hitta fólk,
tengjast því og skiptast á skoðunum. Þess vegna eru þessi
félagslegu tengsl okkur svo mikilvæg. Það reynist mörgum
þung skref að rífa sig upp, brjótast út úr skelinni og fara
meðal fólks.
Margar rannsóknir, sem lesa má um á alheimsvefnum, sýna
fram á og staðfesta félagslega einangrun langveikra. En
ljósið í þessu öllu er að við erum ekki ein, það eru margir
í sömu sporum. Ein leiðin er að koma á félagsfund hjá
Lungnasamtökunum. Þar hittir maður jafningja sína og þar
eru allir að eiga við einhvers konar heilsubrest. Það getur
jafnvel verið hrein uppljómun að átta sig á því að maður sé
ekki einn í heiminum að fást við þennan sjúkdóm!
Fundir Lungnasamtakanna eru fyrsta mánudag hvers
mánaðar í Seljakirkju, Hagaseli 40, milli kl. 16 og 18. Það
kemur mörgum á óvart hvað það er gaman að mæta
og skiptast á skoðunum, hlusta á einhverja fræðslu sem
kemur okkur vel, eða skemmtun. Velkomið er að bjóða
með sér fjölskyldumeðlim, eða vini og eru allir makar
lungnasjúklinga sérstakleg velkomnir á félagsfundina.
Handavinnuhittingur Lungnasamtakanna er þriðja
fimmtudag hvers mánaðar í húsnæði Lungnasamtakanna,
Borgartúni 28a, milli kl. 16 og 18. Þar eru allir velkomnir.
Ekki er þörf á neinni sérstakri handavinnukunnáttu. Það er
líka bara hægt að spjalla.
Skrifstofa Lungnasamtakanna í Borgartúni 28a er opin
á mánudögum milli kl. 11 og 15. Þangað er hægt að koma
og spjalla yfir kaffibolla, eða hringja í síma 5604812, ræða
málin og/eða koma með fyrirspurnir sem reynt verður að
greiða úr.
Senda má tölvupóst á lungu@lungu.is og skoða
vefsíðuna www.lungu.is.
Heimsóknarvinir eru starfandi hjá Rauða krossinum
Hægt er að fá heimsókn einu sinni í viku og geta
gestgjafarnir ráðið hvað gert er í hverri heimsókn, hvort
setið er yfir kaffibolla og spjalli, farið út að ganga, farið í
bíltúr, eða á kaffihús. Heimsóknarvinir hafa rofið félagslega
einangrun hjá mörgum og myndast hefur góður vinskapur
á milli. Heimsóknarvinir eru sjálfboðaliðar. Hægt er að
sækja um þessa þjónustu á vef Rauða krossins.
https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/
heimsoknarvinir
Félagsleg heimaþjónusta starfar á svipaðan hátt, nema
þar þarf að borga smá upphæð fyrir heimsóknina og er sú
upphæð tekjutengd. Hægt er að sækja um þá þjónustu hjá
sínu bæjarfélagi.
Margt er hægt að gera til að létta sér andann og
mynda félagstengsl!