Goðasteinn - 01.09.1995, Qupperneq 15
Goðasteinn 1995
Þessi dagur styttir stund,
stillt og hægt þófari,
Olafur á Efstu-Grund,
afbragðs forsöngvari.
Orgel var keypt í Ásólfsskálakirkju
1898. Upp að Fjallasandi kom það með
gufubátnum Oddi ásamt vörum til
Pöntunarfélags Vestur-Eyfellinga og
var skipað upp í Mýravörum. Enginn
hestvagn var til í sveitinni. Orgelið var
borið á handbörum austur að Holtsósi
og sett þar í ósbát er róið var austur
ósinn nokkra leið. Það var svo borið frá
ósnum á handbörum upp að Ásólfs-
skála. Að þeim flutningi kom ungling-
ur í Holtshverfi, Árni Ingvarsson á
Efstu-Grund (f. 1883), síðar kennari og
bóndi á Mið-Skála, mikill máttarstólpi
í kirkjusöng. Sr. Kjartan Einarsson í
Holti og mágur hans, Jón Sveinbjamar-
son bóndi á Ásólfsskála beittu sér fyrir
þessum kaupum.
Fyrsti organleikari kirkjunnar var
fóstursonur sr. Kjartans og bróðursonur
Jóns á Ásólfsskála, Sveinbjörn Þor-
steinsson. Hann hafði lært orgelleik hjá
Jóni Pálssyni á Eyrarbakka. Annar
fóstursonur sr. Kjartans, Lúðvík Sím-
onarson frá Miðey, átti að taka við
þessu starfi og var búinn að búa sig
undir það er hann dó, 17 ára að aldri.
Næsta messudag á Ásólfsskála var spil-
að á hljóðfærið. Eftir messu var haldin
hlutavelta í þinghúsinu á Ysta-Skála til
að létta undir við kaupin á hljóðfærinu.
Árni Ingvarsson var að leita að kvíám
húsbænda sinna um messuna, en komst
á hlutaveltuna og hreppti besta drátt-
inn, veturgamla sauðkind frá sr. Kjart-
ani í Holti. Viðbótarfé fékkst með sam-
skotum.
Sveinbjöm Jónsson frá Ásólfsskála,
síðar bóndi á Ysta-Skála, (f. 1882) varð
organisti Ásólfsskálakirkju árið 1901.
Orgelleik nam hann hjá sr. Eggerti
Pálssyni á Breiðabólstað 1899. Sr.
Eggert lék vel á orgel og kenndi fleir-
um, m.a. dr. Páli Eggerti Ólasyni er ólst
að nokkru upp á staðnum og spilaði
sjálfur á orgelið í Breiðabólstaðar-
kirkju, er hann var fermdur.
Vetrarvertíðina 1902 var Sveinbjörn
í Vestmannaeyjum og Sigríður Kjart-
ansdóttir í Holti spilaði þá við messur í
Ásólfsskálakirkju. í landlegum fékk
Sveinbjörn leyfi til þess að æfa sig á
orgelið í Landakirkju. Organisti þar var
þá Sigfús Árnason á Löndum. Svein-
björn fór í útver næstu vetur og Sigríð-
ur í Holti hljóp í skarð hans. Einn vetur
annaðist Jón í Seljalandsseli um messu-
sönginn. Sveinbjörn og Sigríður æfðu
bæði undirraddir á sálmalögum, eink-
um þó bassa.
Góðar söngraddir voru í sókninni á
þessum tíma. Nefna má systurnar frá
Holti, Sigríði og Elínu, Þóru Torfadótt-
ur í Varmahlíð og dætur hennar, Önnu
og Sigríði, Hellnahólsbændur, Ingvar
Einarsson, Nikulás Illugason og Guð-
mund Sigurðsson, Jón Sveinbjamarson,
Sigurð Ólafsson bónda á Núpi og Áma
Ingvarsson. Jón Sveinbjarnarson var
góður söngmaður og fyrir kom að hann
gegndi starfi forsöngvara í forföllum
Ólafs á Efstu-Grund. Það gerði einu
sinni Elín Kjartansdóttir í Holti er org-
-13-