Goðasteinn - 01.09.1995, Page 31
Goðasteinn 1995
Ég var nú að afþreytast. Morguninn
eftir fór ég seint af stað, ætlaði þó heim
um kvöldið og tókst það. A þeirri leið
kom ég að Keldum og Reynifelli. Það-
an var tæp klukkustundar ganga heim
til mín, en komið var kvöld þegar ég
loks náði heim til mín eftir 8 daga ferð,
suma nokkuð stranga en allt fór þetta
vel. Ég var heppinn með veður og færð
og alltaf hafði ég samfylgd, þangað til
á Rangárvöllum.
Þegar ég kom heim, var ánægja á
báðar hliðar. Ég man hvað móðir mín
var glöð og sagði meðal annars, að nú
væri áhyggjum og kvíða af sér létt. Vel
má geta sér til, að það sæki þungar
áhyggjur á móðurhjartað, þegar hún
veit af barni sínu einu á erfiðri og
hættulegri leið um hávetur þegar allra
veðra er von, og það á þeirri leið sem
oft eru válynd veður eins og á Hellis-
heiði.
En heim var ég kominn eftir sem
næst þriggja mánaða burtuveru. En
hafði ég nokkuð uppúr þessari ferð?
Því er hægt að svara með já og nei.
Enga peninga hafði ég eignast, sem
varla var von, aðeins haft ráð á kr.
11,75 - og vitanlega kláraði ég þær.
Það er sem næst fyrir 1 pk. sígarettum,
sem margir leika sér nú að brenna á
einum degi. En ég lærði líka töluvert.
Fyrst og fremst að vont er að eyða áður
en aflað er. Og einnig lærði ég að meta
gildi krónunnar, og það er ef til vill
einhver besti skóli fyrir lífið.
Mér þykir ekki ósennilegt að sumir
álíti að ég segi ekki rétt frá, en samt er
það allt sannleikur, er ég segi um þessa
mína fyrstu ferð að heiman. En mér
finnst von að þeir sem alltaf hafa fulla
vasa af peningum, skilji þetta ekki og
telji ekki mögulegt að ferðast þessa
löngu leið, og eyða jafn fáum krónum.
En peningar voru ekki til og þetta varð
að duga. En allt jafnar sig. Ég er samt
orðinn 74 ára og búinn að leggja árar í
bát, sætti mig við líðandi stund.
Skrifað árið 1957
Valdimar Böðvarsson
-29-