Goðasteinn - 01.09.1995, Page 58
Goðasteinn 1995
Þegar við Rúna komum í hellinn var
farið að þrengjast í heysænginni, en við
komum auga á geil sem grafin hafði
verið í heystálið, og þar var líka laust
hey á gólfinu. Þar bjuggum við frænk-
urnar um okkur og kúrðum eins og
ungar í hreiðri undir stórri sæng sem
við höfðum með í ferðinni. Eitthvað
minntumst við á jarðskjálftahættu, en
svo kom okkur saman um að hellirinn
sá arna væri áreiðanlega búinn að
standa af sér fleiri en einn Suðurlands-
skjálfta auk annarra minni jarðhræringa
og við sofnuðum værum blundi.
Eftir góðan dúr vorum við vaktar
með sjóðheitu kaffi sem við fengum
heima á bænum og þar fengum við líka
að þvo okkur og snyrta.
Ekki sést til Heklu heiman frá Hell-
um en gosdrunurnar heyrðust stöðugt.
Um hádegisbil gengum við aftur á
Skarðsfjall, en þá var lítið að sjá, aust-
urfjöllin voru öll hulin reykjarmóðu og
mistri, vindáttin hafði breyst, en auð-
heyrt var að Hekla gamla var ekki
iðjulaus, loftið titraði af gosdrunum.
Eftir nokkra dvöl uppi á fjallinu
fórum við aftur heim að Hellum og
borðuðum heita kjötsúpu sem bragð-
aðist mjög vel. Á eftir fórum við í
ýmsa leiki á túninu.
Þegar dimmt var orðið fórum við
enn að huga að gosinu, en vindáttin var
sú sama, allt var hulið mistri svo lítið
sást til eldanna. Við héldum því fljót-
lega aftur heim að Hellum. Þar var
okkur búinn svefnstaður á baðstofu-
gólfinu, við breiddum teppi og annað
tiltækt á gólfið, en hart og þröngt var
hvílurúmið. Við Rúna sváfum enn sam-
an undir sænginni góðu og þegar önnur
sneri sér í svefni rumskaði hin og sneri
sér líka, þrengslin voru svo mikil. Samt
sváfum við sæmilega vel.
Þegar húsmóðirin kom fram úr
hjónahúsinu morguninn eftir gat hún
tæpast stigið niður fæti, allstaðar lágu
sofandi stúlkur, það var engin smá inn-
rás sem Árný gerði þarna hjá systur
sinni og mági.
Við morgunkaffið hló hún dátt að
þessari göngu sinni yfir baðstofugólfið.
Við Fellsmúla.
-56-