Goðasteinn - 01.09.2018, Side 7
5
Fylgt úr hlaði
Fyrir hönd héraðsnefndar og ritnefndar óska ég Rangæingum árs og friðar.
Jens Einarsson
Goðasteinn, héraðsrit Rangæinga, fetar nú úr hlaði í 54. sinn.
Sennilega eru ekki ýkja margir sem hafa hugleitt það sérstaklega
hve mikil verðmæti eru fólgin í þessu smáa, en merka ritsafni.
Það er ekki fyrr en einhver færir það í tal og vekur athygli á því,
að fólk áttar sig á hve stóran fjársjóð við eigum þar aðgengilegan
á einum stað, í mynd- og ritmáli. Full ástæða er til að gera þessar merku heimildir
ennþá aðgengilegri. Það má til dæmis gera með því að útbúa veflægt efnisyfirlit yfir
alla árganga ritsins, með sæmilega ítarlegum tilvísunum, svo námsfólk, fræðingar,
og fleiri, geti með auðveldum hætti fundið vísbendingar um hvort í Goðasteini sé
hugsanlega að finna efni sem komið geti að gagni. Fleira mætti gera til að auka veg
ritsins og minna fólk á tilvist þess.
Í Goðasteini eru að þessu sinni tvær burðargreinar, um landnámsjörðina Keldur á
Rangárvöllum, og einn merkasta ábúanda hennar, Guðmund ríka Brynjólfsson.
Bræðurnir Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, og Skúli Jón Sigurðarson, fyrrverandi
framkvæmdastjóri, sem ættaðir eru frá Keldum, hafa báðir tekið saman gagnmerkar
heimildir og fróðleik um staðinn og ábúendur hans. Undirritaður fékk leyfi til að kafa
í þann brunn og setja saman í þessar tvær greinar.
Ýmislegt hefur verið ritað um Keldur og sögu hennar, meðal annars í Goðastein. Að
mati undirritaðs er það þó minna en tilefni er til, svo merk sem saga staðarins er,
og þá ekki síður ábúendanna, en þar er þrautseigjan aðalsmerkið. Gamli bærinn á
Keldum er í hópi merkustu og verðmætustu fornminja íslensku þjóðarinnar. Það er
ábúendum á Keldum að þakka að þær fornminjar eru aðgengilegar fólki í dag, og
vonandi um ókomna framtíð.
Þegar gamli bærinn á Keldum komst í eigu Þjóðminjasafnsins, voru margir innan-
stokksmunir færðir til varðveislu á aðra staði á vegum safnsins. Fyrir því hafa án efa
verið gildar ástæður. Núverandi ábúendur á Keldum, og aðrir velunnarar staðarins,
sakna þó þessara muna og finnst gamli bærinn ekki svipur hjá sjón án þeirra. Von-
andi finnst fyrr en seinna leið til að varðveita munina á hinu „rétta heimili“ þeirra svo
gestir geti notið hins þjóðsögulega andrúmslofts til fulls þegar gengið er um bæinn;
skynjað andardrátt liðinna kynslóða, heyrt fótatak Ingjaldar og óm radda liðinna alda
í leynigöngunum.