Goðasteinn - 01.09.2018, Side 28
26
Leiðin til Keldna
Við, sem höfum alist upp á Keldum, erum bundin staðnum traustum bönd-
um og förum oft á æskuslóðirnar. Heitur straumur fer um sál og líkama, þegar
komið er austur og heim. Móðir mín Kristín, dóttir Skúla Guðmundssonar og
Svanborgar Lýðsdóttur, sem bjuggu á Keldum frá 1896 til 1946, tók upp þann
sið að klappa saman lófum af gleði, þegar farið var austur yfir Þjórsárbrú. Hún
heilsaði þannig sýslunni sinni, Rangárvallasýslu. Við, afkomendur hennar, höf-
um fengið aðra til að taka þátt í þessari fjölskylduathöfn, hvort heldur þeir eru
fáir eða margir, jafnvel heilar rútur af útlendingum.
Keldur eru 110 km frá Reykjavík, 15 km ofan Hringvegarins, 27 km suðvest-
ur af Heklu, 5.5 km norðvestur af Þríhyrningi og 2.5 km norður af Hnauknum
á Vatnsdalsfjalli. Sveigt er til vinstri af Hringveginum 2 km austan við Hellu
og stefnt til norðausturs. Ekið er á malbiki til Gunnarsholts, svo á malarvegi
til Keldna. Í Gunnarsholti er Landgræðsla ríkisins til húsa. Samkvæmt Njáls
sögu og Landnámabók bjó þar Gunnar Baugsson, afi Gunnars Hámundarsonar
á Hlíðarenda, hins mikla kappa (um 945 – 992). Baugur Rauðsson, faðir Gunn-
ars í Gunnarsholti, var fyrsta veturinn á Baugsstöðum í Flóa. Svo nam hann
Fljótshlíð alla til Vatnsdalsfjalls að ráði Ketils hængs landnámsmanns á Hofi.
Hann bjó að Hlíðarenda. Mörk landnámanna í byggð eru þar sem nú heitir
Flókastaðaá.
Keldur á Rangárvöllum
Sigurður Sigurðarson,
dýralæknir.