Goðasteinn - 01.09.2018, Blaðsíða 37
35
Goðasteinn 2018
30 metrum norðan við íbúðarhús Skúla Lýðssonar og Drífu Hjartardóttur (sjá
efri mynd á bls. 27). Annað eldra grjótgarðakerfi er allt í kring um bæinn, sem
þjónaði þeim tilgangi að verja bæinn og túnin gegn sandstraumnum að norðan
og um leið fyrir ágangi búfjár. Hleðslu þeirra hóf Guðmundur Brynjólfsson
fljótlega eftir að hann kom að Keldum 1833. Lengsti garðurinn, tæpur km að
lengd, er norðan við fyrrnefndan garð frá 1890. Hann var hlaðinn af Guðmundi
Brynjólfssyni 1849. Það er ævintýri líkast, að sjá þessi mannvirki og íhuga
hvaða gagn þau hafa gert til að vernda bæinn. Loftmynd á bakhlið þessa kvers,
sem birt var í bókinni Sáðmenn sandanna frá 2007, sýnir hvernig eyðingaröflin
hafa sorfið að bænum á Keldum. Loftmyndin er tekin beint niður á bæinn og
garðarnir merktir á hana með gulum strikum af Alexander Robertson, skoskum
Íslandsvini, sem starfaði í Gunnarsholti. Þessar sandfoksvarnir eru einstæðar
og sagt, að hvergi hafi barátta við sandinn verið háð á einum bæ með jafn-
glæsilegum árangri og á Keldum. Nú er landið að gróa upp fyrir tilverknað
Landgræðslunnar og aðgerða bændanna á Keldum. Guðmundur Brynjólfsson
og Skúli Guðmundsson hófu þetta viðnám.
Varðan á Hólavelli
Hólavöllur er hæsti hluti Upptúnsins, sem blasir við þegar komið er að Keld-
um. Hæst ber myndarlega hringhlaðna vörðu sem sagt var frá í kaflanum um
leiðina til Keldna og þess er getið til að um varðturn hafi verið að ræða. Kannski
var hún hlaðin af Ingjaldi bónda á Keldum. Varðan hefur nokkuð sigið saman,
en er samt ennþá áberandi kennimerki eða steinborg „stonehenge“.
Hólavelli og bænum bjargað frá eyðingu
Bæjarhóllinn og túnið allt voru í stórhættu um aldamótin 1900. Allur norður-
jaðar túnsins á Keldum var markaður mjög háum gapandi rofbökkum meira en
hálfhring um Hólavöllinn. Vestan og norðan bæjar voru flakandi sár. Landið var
að blása burt. Þessir bakkar voru stungnir niður og sléttaðir, í sárin var borinn
húsdýraáburður, moð og heyrusl og síðan var torf flutt að langa leið. Sárið, sem
hafði verið 3 – 6 metrar að breidd, var tyrft með hæfilegum fláa. Uppgræðsla
þessi heppnaðist með ágætum. Þetta urðu mörg hundruð fermetrar af grónu
landi. Landbrotið var stöðvað. Þarna er nú fallegt, algróið land, ekki lengur
nein rof. Nærri lá að Rangárvellir væru flakandi sár eftir neyðarárið 1882 og á
tímabili rak hvert sandárið annað. Þá þurfti að moka foksandi af túnunum auk
þess að hreinsa sandinn frá húsunum. Notaðir voru vagnar og stórgripahúðir
til að draga sandinn í lækina, oft mörg hundruð hlöss á hverju vori. Þeim fyr-
irmælum fylgdi afi minn eftir og þau voru í heiðri höfð af öllum, ungum sem