Goðasteinn - 01.09.2018, Qupperneq 39
37
Goðasteinn 2018
Hún er niður af snarbrattri kirkjubrekkunni um 20 metrum fyrir neðan kirkjuna.
Þvottalindin var aðalvatnsbólið, áður en vatn var leitt í bæinn 1930. Í hana var
gerð fyrirstaða, svo að þar myndaðist svolítil þró, sem notuð var við þvotta.
Vatnið í henni er að sögn Þorvaldar Thoroddsen það besta og kaldasta sem til
er á Íslandi, 2–2.5°C allan ársins hring. Framan við Varpann er vatnsmikill
bæjarlækurinn, straumþungur og breiður, en þó með spegilsléttar og íðilfagrar
lygnur. Annar lækur, Króktúnslækur, kemur úr Vesturbotnum og verður til úr
mörgum uppsprettum, m.a. undan Hólavelli, hæðinni með stóru hringhlöðnu
vörðunni á Upptúninu. Ein uppspretta í Vesturbotnum er stærst og sprettur fram
undan gömlu heimreiðinni. Hún heitir Vellankatla. Vatnið kemur þar upp með
krafti og myndar bólur. Það er líkast því sem velli eða sjóði í stórum potti.
Litlu neðar er Maríubrunnur með vígðu vatni Guðmundar Arasonar hins góða
(1161–1237).
Maríubrunnur
Vestur af bæjarhúsunum verður dálítil skál í brekkuna við Króktúnslækinn.
Þar er Maríubrunnur ein af uppsprettulindunum á Keldum, kenndur við Maríu
guðsmóður, helgur staður, elskaður af Keldnamönnum. Lindin er um 9 metrar
í þvermál efst og hálfur þriðji metri að dýpt. Lindarauga er í botni skálarinnar,
um 2 metrar í þvermál. Þar bóla margar uppsprettur. Lindin var vígð af Guð-
mundi Arasyni hinum góða, líklega um 1200. Vatnið kemur af 25 metra dýpi, er
sagt, og er jafnkalt allan ársins hring. Svanborg amma mín og fleiri Keldnamenn
höfðu trú á Maríubrunni og sóttust eftir vatni úr honum til að bera í augu sín og
varðveita með því góða sjón, einnig til að bera á meinsemdir á útlimum sínum
eða kroppi. Ýmsir hafa tekið inn spónblað af vatni daglega úr Maríubrunni til
að varðveita góða innvortis heilsu. Þegar barn er skírt á Keldum er þangað sótt
skírnarvatnið. Þórður Tómasson í Skógum hefur vatn úr Maríubrunni í fornri
steinskál frá Urriðavatni í Hróarstungu í kirkju sinni, svo að menn geti drepið
í það fingrum, borið í augu sín og andlit og notið heilnæmra áhrifa hins vígða
vatns. Aðgengi að Maríubrunni er erfitt og hann þolir ekki átroðning. Hug-
myndafrjóir menn ættu að gera tillögur í samráði við ábúendur, sem miði að því
að sem flestir geti kynnst töfrum og lækningamætti Maríubrunns, en tryggja
þarf, að umferð spilli ekki umhverfinu.
Kornmyllan í Vesturbotnum
Í Vesturbotnum þrumir gamla kornmyllan. Hún var knúin af einni lindinni
undan Hólavelli. Myllan stóð fyrr við Fjósalind í Austurtúni. Hún var byggð af
Páli bónda á Keldum um 1820, en flutt þaðan af Guðmundi Brynjólfssyni lang-