Goðasteinn - 01.09.2018, Page 40
38
Goðasteinn 2018
afa mínum 1870 vegna þess að vatnið þraut í Fjósalind. Hún var í notkun til
ársins 1916. Myllan var gerð upp og síðast malað í henni, svo mér sé kunnugt,
árið 1945 og úr því korni var bakað brauð, sem ég fékk að smakka.
Bæjarlækur og Krókstúnslækur sameinast fyrir neðan Tanga og kallast eftir
það Keldnalækur. Hann fellur í Eystri–Rangá á móts við bæinn Stokkalæk.
Móðir mín var hugfangin af uppsprettunum og lækjunum á Keldum. Eftirfar-
andi erindi hennar er gott að rifja upp, þegar menn eru farnir að skynja, hver
auðlind vatnið er:
Uppsprettan bólar við brekkurætur
blátært er vatn og kalt
veitir sárþyrstum svölun góða
Silfurlind gefur allt
Hér áttu fjársjóð bóndi á bænum
sem er betri en gullið valt.
Var landnámsbær fyrir sunnan læk?
Fram undir 1880 sáust bæjarrústir fyrir sunnan læk ásamt heimreiðartröð-
um sunnan að og götum vestur yfir lækinn til Vesturbotna. Að sögn Vigfúsar
Guðmundssonar voru rústirnar skammt austan við litla uppsprettulind. Enn fer
rennsli úr henni þvert vestur í Keldnalækinn. Sandfok árum saman hefur sléttað
yfir bæjarstæðið. Aðeins sjást þar tveir litlir balar. Bæjarstæðið er 40 faðma suð-
vestur frá göngubrú sem var yfir lækinn. Síðasta vitneskja um bæinn sunnan við
lækinn er frá dánarári Jóns Loftssonar 1197. Kannski var þar landnámsbær. Hér
væri forvitnilegt að leita fornminja með jarðsjá, grafa upp og aldursgreina.
Leynigöngin
Merkileg leynigöng eru á Keldum. Engin leynigöng önnur hafa varðveist á
Íslandi. Þau fundust árið 1932 eftir að hafa verið týnd og gleymd í hundruð ára.
Móðurbræður mínir tveir, sem voru að grafa fyrir safnþró í varpanum, hurfu
ofan í jörðina. Loft „leyniganganna“ gaf sig og hrundi undan fótum þeirra.
Þeir heyrðust kalla eftir hjálp úr neðra. Samráð var haft við Matthías Þórðarson
þjóðminjavörð um könnun á leynigöngunum. Hann lét grafa þau út í miðri
brekku neðan varpans beint fram af Skálanum. Rannsókn leiddi í ljós að göng-
in, sem voru 25 metra löng, lágu frá hinum forna skála í boga niður á lækjar-
bakkann í hvarfi frá bænum, nokkru vestar, neðar og nær læknum en Matthías
hafði látið opna þau. Sumir telja að göngin séu frá Sturlungaöld.