Goðasteinn - 01.09.2018, Síða 41
39
Rannsóknir á skálanum og leynigöngunum, sem hófust fyrir 2000, vekja
grun um, að þessi mannvirki hafi verið gerð skömmu eftir mikið eldgos í Kötlu
um 1000. Þá barst mikill öskustrókur til norðurs yfir Rangárvelli. Öskulagið
er kolsvart og áberandi. Aldur leyniganganna verður þó ekki ákvarðaður með
vissu fyrr en rannsóknum er lokið. Tröppur eru frá neðsta gólflagi Skálans nið-
ur í leynigöngin. Á Sturlungaöld, 1220–1264, var ástæða til að hafa leynigöng
til að geta forðað sér, ef setið yrði um bæinn eða reynt að brenna fólkið inni.
Í leynigöngunum mátti fela verðmæti og vistir, þegar flokkar ofbeldismanna
fóru ránshendi um sveitir. Þegar ég var á Keldum, var geymdur matur í svölum
göngunum. Ingjaldur Höskuldsson bjó á Keldum fram yfir 1000. Hann hafði
bakað sér reiði brennumanna, sem fóru að Bergþórshvoli 1010 eða 1011 og
gat átt von á hefndum, jafnvel því að vera brenndur inni fyrir „svikin“. Þannig
hætta knýr menn til varna. Vigfús frá Keldum áætlaði að slík göng mætti grafa
á fáum dögum án þess að á því bæri með því að byrja neðst og láta lækinn taka
efnið jafnharðan.
Leiðsögn um gamla bæinn, skálann og útihúsin
Á Keldum hefur varðveist einstæð bæjarheild frá fornum tíma. Um 20 bæj-
arhús og útihús byggð úr torfi, timbri og grjóti standa þar uppi, einnig önnur
athyglisverð mannvirki svo sem traðir og garðar úr torfi og grjóti, sjálfvirkur
sandvarnargarður norðan Upptúns og ekki má gleyma steinborg eða varðturni
staðarins, Hólavallavörðunni hringhlöðnu og stóru, sem blasir við hæst á Upp-
túni, þegar komið er heim að bænum. Fjær bænum og víða úti um hagana eru
hlaðin gripahús, fjárborgir, fjárskýli og gjafahringir eða gaddhringir, sem segir
frá síðar. Forvitnilegt væri að skyggnast undir svörð á framtúni, þar sem vitað er
um bæjarrústir, sem hurfu í sand fyrir 1880 og sjást ekki lengur. Þar gæti verið
landnámsbærinn á Keldum. Þjóðminjasafn Íslands eignaðist gamla bæinn 1942
og hefur umsjón með byggingunum síðan hætt var að búa í gamla bænum 1946.
Á ýmsu hefur oltið um viðhald húsanna vegna fjárskorts, en vilji er til að sinna
því vel. Yngstu húsin, skemmurnar og hjallurinn voru byggð af langafa mínum
Guðmundi Brynjólfssyni fljótlega eftir að hann fluttist að Keldum frá Árbæ á
Rangárvöllum. Kornmyllan var flutt í Vesturbotna 1870. Lambhúsin sem blasa
við frá heimahlaði voru byggð 1883 af Jóni Guðmundssyni síðar bónda á Ægi-
síðu, hlaðan stóra í þyrpingu útihúsa austan bæjarhúsanna var byggð 1897 af
Skúla Guðmundssyni afa mínum og fjárhúsið, sem byggt var fyrir fullorðið fé
árið 1907 vestan við Króktún tók 80 kindur. Þessi hús og önnur mannvirki sem
tilheyra gamla bænum munu vonandi fara á heimsminjaskrá UNESCO í fyll-
ingu tímans.
Goðasteinn 2018