Goðasteinn - 01.09.2018, Page 64
62
Goðasteinn 2018
átti að greiða. Þau Króktúnshjón Guðrún Pálsdóttir og Guðmundur Magnússon
höfðu eignast 11 börn þegar Guðmundur lést 43 ára gamall úr holdsveiki, hinn
12.5.1831.
guðmundur og Bonnesen
Vigfús segir í bók sinni Keldum:
„Þegar Guðmundur Brynjólfsson flutti að Keldum, var ekki farið að skipta
stóra búi Páls bónda, sem ekkja hans hafði setið í óskiptu, en var þá nýskeð
dáin. Erfðaskipti þessi urðu talsvert söguleg, bæði af því að nokkuð þótti vafa-
samt, hversu mikinn erfðarétt ættu börn Guðrúnar Pálsdóttur og fyrri manns
hennar, en sérstaklega vegna þess, að sýslumaður I. J. Bonnesen kom nú til
skjalanna með lögvisku sína.
Guðmundur Brynjólfsson kærði fyrir sig og konu sína til Landsyfirréttarins,
yfir því að sýslumaður „hafði mót vilja þess einasta erfingja, innþrengt sér til
þess að skipta búinu“ og skipt því heima hjá sér á Velli, dagana 12.-14. nóv.
1833. Eftir kæru þessari, ásamt 6 kærupóstum öðrum, var sagður upp dómur í
yfirrétti 4. ágúst 1834 á þessa leið:
„Skipti þau, sem fram fóru á Velli 12., 13. og 14. nóv. f. ár .... o.s.frv. eiga
ómerk að vera og skiptafyrirráðandinn hr. kancellisecr. I. J. Bonnesen tilskyld-
ist á eigin kostnað að öllu leyti að setja bú þetta í sama ásigkomulag, hvar í
það var fyrir skiptin á því þann 12. nóv. f. ár, skila aftur þanninn í búið þeim af
honum sér úthlutuðu réttartekjum og meðfellandi skiptaréttar úrskurði, að til-
settum löggildum svaramönnum fyrir þau ómyndugu börn Guðm. heit. Magn.
og Guðr. Pálsd., hvort þeim beri nokkur réttur í þessu dánarbúi, og ef það ekki
finnst, þá afhenda búið appellantinum Guðmundi Brynjólfssyni, til frekari
meðferðar, hverjum nefndur skiptaráðandinn einninn betalar appelskostnað 40
(fjörtíu) ríkisbankadali silfurs. Dóminum ber fullnustu að veita innan 8 vikna
frá hans löglegri auglýsingu, undir lagaþvingun. – Ísleifur Einarsson.“
Bóndinn fastur fyrir
Svona fór um sjóferð þá, og ekki betri hrakför fyrir sýslumann en fyrir Páli
áður. Ekki var samt sopið kálið þótt í ausuna væri komið. Nú hófst ágreiningur
og þras um það, hver væri erfðaréttur ómyndugu barnanna frá Króktúni.
Út af því var settur réttur á Keldum 29. nóv. 1834 af aðstoðarmanni sýslu-
manns, Jóhannesi Árnasyni (f. 19.8.1806 – d. 26.3.1840). Fyrir hönd barnanna
höfðu verið skipaðir föðurbræður þeirra, Magnús (f. 24.6.1794 – d. 24.1.1865)
bóndi á Kanastöðum og Þorsteinn (f.29.8.1790 – d. 28.5.1840) bóndi í Núpa-
koti, en aðili að öðru leyti var Guðmundur Brynjólfsson.